Skógareigendum í Texas greitt fyrir verndun tjarfuruskóga

Hátt í tvö þúsund hektarar af tjarfuruskógum hafa verið verndaðir á svæði sem kallast Longleaf Ridge í austanverðu Texasríki í Bandaríkjunum. Eigendur halda skóginum en hafa selt ráðstöfunarrétt sinn yfir skógnum að hluta til. Aðeins um þrjú prósent eru eftir af upprunalegum tjarfuruskógum vestra.

Tjarfura heitir Pinus palustris á latínu sem vísar til fenjasvæða en latneska heitið varð til fyrir misskilning. Breski grasafræðingurinn Philip Miller lýsti tegundinni á átjándu öld og hafði þá komið í tjarfuruskóg sem flætt hafði í vætutíð. Tegund þessi hefur líka verið kölluð fenjafura á íslensku en þetta er samt sem áður þurrlendistegund og vex gjarnan í sendnum jarðvegi. Á ensku eru til nokkur heiti en algengast að tala um Longleaf Pine sem vísar til mjög langra barrnálanna á tegundinni. Tjarfura er nytjaviður, feitur, harður og endingargóður, venjulega alveg kvistalaus. Mikil trjákvoða er í viðnum og hann er þyngstur þeirra barrviða sem verslað er með. Hann er notaður við ýmsar smíðar og byggingar, sérstaklega þar sem mikils styrkleika er þörf, svo sem í skip, bryggjur, brýr og fleira slíkt. Tvennt hefur m.a. valdið því að tjarfuruskógar hafa horfið, annars vegar þessir góðu eiginleikar viðarins og hins vegar það að trjátegundin er hægvaxta og í stað tjarfuru hafa verið ræktaðar hraðvaxnari tegundir sem gefa fyrr uppskeru. Fáar trjátegundir þola betur gróðurelda en tjarfuran og talið er að hún ráði líka vel við þær loftslagsbreytingar sem nú ganga yfir í heiminum.

Nú í byrjun ágúst var sagt frá því á vef ríkisskógræktarinnar í Texas, Texas A&M Forest Service, að tryggð hefði verið verndun 1.936 hektara tjarfuruskóga á Longleaf Ridge í austanverðu Texas. Þar með væri varanlega tryggð verndun einhvers besta tjarfuruskóglendis í ríkinu. Eigendur skógarins halda honum áfram en hafa selt rétt sinn til að ryðja hann og skipuleggja aðra starfsemi á landinu en skógrækt.

Áðurnefnd ríkisskógrækt í Texas hefur ásamt bandarísku alríkisskógræktinni,  U.S. Forest Service, og náttúruverndarsamtökunum Nature Conservancy greitt 2.277.000 Bandaríkjadollara til fyrirtækisins Crown Pine Timber LP sem er hlutafélag undir hatti timburrisans Campbell Global. Með þessari greiðslu er tryggt að þar sem skógurinn er verður ekki skipulögð byggð, landbúnaðarsvæði eða annað sem verður til þess að skógurinn hverfur. Eigandi skógarins getur hins vegar haldið áfram að nýta viðinn úr skóginum. Verkefnið var að mestu  fjármagnað gegnum verkefni á vegum bandarísku alríkisskógræktarinnar sem kallast Forest Legacy Program en samtökin Nature Conservancy létu í té 569.250 dollara af upphæðinni.

Með þessari tegund verndunar má segja að hagsmunir beggja séu tryggðir, bæði þeirra sem eiga skóginn og nýta hann í atvinnuskyni og almennings sem nýtur góðs af skógum á margvíslegan hátt með verndun vatnsbóla, vatnasviða og lífríkis, til útivistar og fegurðarauka svo nokkuð sé nefnt. Fyrirtækið Crown Pine Timber nýtir og ræktar skóginn á sjálfbæran hátt samkvæmt settri nýtingar- og verndaráætlun en hvorki núverandi eigandi né hugsanlegir eigendur í framtíðinni geta skipt landinu upp eða ráðstafað því til nokkurra annarra nota. Þannig eru hagsmunir bæði núlifandi kynslóða tryggðir og komandi kynslóða. Áfram er skógurinn þó í einkaeigu.

Tjarfuruskógar náðu fyrrum alla leið frá Texas til Virginíu og náðu yfir 360.000 ferkílómetra lands. Til samanburðar er Ísland allt rúmir 100.000 ferkílómetrar. Tjarfuruskógar fóstra einhver fjölbreyttustu vistkerfi sem finna má í Bandaríkjunum og þar þrífast sjaldgæfar tegundir fugla, snáka og bjarndýra. Bandaríska alríkisskógræktin hefur gefið út að nú séu einungis eftir um þrjú prósent af þessum miklu tjarfuruskógum sem áður voru. Síðasta áratuginn eða svo hefur náðst nokkur árangur í baráttunni við þeirri eyðingu tjarfuruskóga sem geisað hefur um aldir. Meðal annars hefur verið sett af stað sérstakt verkefni til að endurreisa tjarfuruskógana undir heitinu America's Longleaf. Markmiðið er að vernda þá tjarfuruskóga sem eftir eru, bæta ástand þeirra og rækta nýja tjarfuruskóga á sögulegu útbreiðslusvæði þeirra.

Róðurinn er hins vegar nokkuð þungur um þessar mundir, segir á vef Texas Forest Service. Síðustu árin hafi opinbert fé til náttúruverndarmála verið skorið niður vestra. Því sé nú biðlað til almennings, fyrirtækja og fjármagnseigenda að leggja sitt af mörkum til þessara mála, meðal annars til að vernda skóga í Austur-Texas til hagsbóta bæði efnahagslífinu og lífríkinu.

Heimildir:



Texti: Pétur Halldórsson

Myndir: Texas Forest Service