Nokkrar norður-evrópskar skógarstofnanir standa fyrir stefnumótadegi fyrir skógvísindafólk 8. nóvember að Ási í Noregi. Þar er tækifæri til að stækka samstarfsnet sitt, kynnast nýju fræðafólki á sínu sviði, læra hvernig skrifa megi vænlegar umsóknir um styrki. Ungt vísindafólk og doktorsnemar eiga rétt á styrkjum til fararinnar.

Að þessum viðburði standa Norrænar skógrannsóknir SNS, skógasvið norrænu erfðavísindastofnunarinnar NordGen, Norður-Evrópuskrifstofa evrópsku skógastofnunarinnar EFINORD og norrænt ráð um jarðyrkju- og matvælarannsóknir, NKJ.

Tilgangurinn með deginum er að tefla saman fólki sem vinnur að skógrannsóknum á Norðurlöndunum, veita innblástur og örva sköpunarkraftinn. Meðal annars leiðbeinir Andrzej Derdowski frá háskólanum í Stafangri um hvernig megi gera samstarfsnet skapandi og árangursrík.

Auglýsing stefnumótadagsinsDagurinn er líka tækifæri fyrir fólk til að hrinda úr vör draumaverkefnum í rannsóknum og hitta mögulegt samstarfsfólk til að vinna að þeim. Þarna verða fulltrúar frá stofnununum sem að deginum standa til að svara spurningum um hvernig skrifa skuli góðar umsóknir sem líklegar eru til að hljóta styrki.

Ferðastyrkir eru í boði fyrir doktorsnema og ungt vísindafólk sem vill taka þátt í þessum degi að Ási og umsóknarfrestur er til 18. október. Settur hefur verið upp Facebook-hópur fyrir þátttakendur.

Skráning á stefnumótadaginn

Texti: Pétur Halldórsson