Gömul kolagröf í Vaglaskógi. Mynd úr skýrslu um fornleifaskráningu sem Elín Ósk Hreiðarsdóttir hjá F…
Gömul kolagröf í Vaglaskógi. Mynd úr skýrslu um fornleifaskráningu sem Elín Ósk Hreiðarsdóttir hjá Fornleifastofnun Íslands gerði fyrir Skógræktina 2015 á tveimur deiliskipulagsreitum í Vaglaskógi
Grein eftir Daníel Godsk Rögnvaldsson, meistaranema í sjálfbæri minjastjórnun við Árósaháskóla

Skógar virðast vera samofnir hugmyndum Íslendinga um nærumhverfi sitt og landslag og vart hægt að finna þéttbýli á Íslandi þar sem lítið eða ekkert hefur verið gróðursett af trjám í nágrenninu eða innan byggðarinnar. Skógarreitir eru líka við sveitabæi. Skógar eru stærri hluti af menningu okkar en við höldum. Fyrirbærin skógrækt og menningararfur eiga nefnilega meira sameiginlegt en margur myndi halda við fyrstu sýn.

Íslenskt skóglendi

Brandarann um hina íslensku skóga þar sem ekki er hægt að villast er fyrir löngu hægt að telja til klassíkera og er frábær í vopnabúr þeirra sem bjóða erlenda gesti velkomna. Brandarinn hefur eins og annað gott grín að geyma sannleikskorn. Þegar fyrstu kynni fólks af Íslandi er Reykjanesskaginn kann þetta að virðast sannleikurinn um íslenska skóga, ef fólki dettur yfir höfuð í hug að hér sé einhverja skóga að finna. Brandarinn stenst þó tæpast nánari skoðun lengur og hin skóglausa íslenska þjóð er óðum að eignast prýðilegasta skóglendi. Allir þessir skógar eiga sögu sína að rekja til upphafs skógræktar og friðunar skóglendis á Íslandi. Þar hafa fjölmargir lagt hönd á plóg, ungmennafélög, skógræktarfélög, stofnanir ríkisins, einkaaðilar og annað áhugafólk um skógrækt. Hlutverk skóga í landslagi Íslands veldur af og til deilum og finnst sumum álitamál hvort skógar eigi yfir höfuð heima í íslensku landslagi.

Fréttir af trjáfellingum vekja athygli

Fréttavefurinn mbl.is fjallaði um asparhöggið á Selfossi sem olli titringi í bænum um miðjan september 2021. Skjámynd af mbl.isTré sem eru höggvin í nærumhverfi okkar vekja iðulega umtal. Nú síðast á Selfossi voru stæðilegar aspir felldar, að sögn bæjaryfirvalda vegna umferðaröryggis. Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd fyrir að ganga lengra en góðu meðalhófi gætti og telja sumir að hægt hefði verið að þyrma trjánum. Fyrr í sumar hafði sami bær fengið mikið hrós fyrir að hlífa myndarlegu tré í framkvæmdum vegna nýs miðbæjar. Eitthvað bar á áhyggjuröddum þegar nýlega voru höggnir tveir hektarar úr Vaðlareit í Eyjafirði til að rýma fyrir lagningu göngu- og hjólastígs. Spurt var hvort virkilega hefði verið tilefni til að höggva svo stóran hluta skógarins. Grenið á Þingvöllum hefur komist ítrekað í fréttir eftir skráningu þingstaðarins á heimsminjaskrá UNESCO og því verið beðið vægðar gegn skógarhöggi. Um deilurnar vegna lagningar vegar í gegnum Teigsskóg á Vestfjörðum þarf vart að fjölyrða. Skógarhögg í leyfisleysi er svo meðal óteljandi deilumála í okkar ástkæru Brennu-Njáls sögu og fleiri dæmi um áhyggjur fólks af trjáfellingum eða skógareyðingu mætti lengi telja. Rask á skóglendi og annað trjáhögg á Íslandi virðist þannig vekja upp mikil viðbrögð og tilfinningar.

Menningararfur, hvaða mynd sem hann kann að birtast í, býr yfir þessum sama eiginleika til að vekja upp miklar tilfinningar. Deilurnar sem stóðu um afhendingu handritanna frá Danmörku þjöppuðu Íslendingum saman snemma á lýðveldistímanum. Skriðunum seint í desember 2020 á Seyðisfirði fylgdi mikill fréttaflutningur af tjóni á Tækniminjasafninu þar í bæ og öðrum sögufrægum húsum. Fréttaveitur fylltust í kjölfarið af fyrirsögnum á borð við „Mesta tjón á menningarminjum í seinni tíð“, „Mesta menningartjón í tíu ár“ og „Ómetanlegir munir glötuðust á Seyðisfirði“. Í deilum um skipulag bæja og borga er iðulega vísað til mikilvægis þess að varðveita menningararfinn eða óbreytta heildarmynd bæjarfélaga og hverfa. Hana eigi að varðveita. Þess vegna tel ég að töluverð líkindi séu með því hvernig við nálgumst menningararf og skógrækt. Skógar virðast vera samofnir hugmyndum Íslendinga um nærumhverfi sitt og landslag og vart hægt að finna þéttbýli á Íslandi þar sem lítið eða ekkert hefur verið gróðursett af trjám í nágrenninu eða innan byggðarinnar. Falleg bæjarstæði til sveita prýðir líka gjarnan svolítill skógarreitur með myndarlegum trjám þar sem hengja má þvott eða rólu.

Íslenskir skógar og menningararfur

Kolagrafirnar sjást líka þegar dálítill snjór er yfir jörðu en hverfa þó í miklu fannfergi. Ljósmynd: Daníel Godsk RögnvaldssonFurulundurinn á Þingvöllum stendur enn þrátt fyrir að mörgum barrtrjám hafi verið eytt í hjarta þjóðgarðsins. Furulundurinn stendur sem minnisvarði um upphaf skógræktar á Íslandi. Ekki er fjarri lagi að kalla þennan lund eina íslenska skóginn sem er formlega viðurkenndur sem hluti af menningararfi Íslendinga. Hann er viðurkenndur sem hluti af því landslagi sem einkennir Þjóðgarðinn á Þingvöllum á heimsminjaskrá UNESCO.[1] Birkið fær að vaxa og dafna við þinghelgina enda er hún hluti af því svæði sem ber örnefnið Bláskógar. Birkið við Þingvelli er líklega sá gróður sem setur hvað mestan svip á náttúru svæðisins. Skammt frá er annar ekki síður merkilegur skógur, Vinaskógur. Sá var hugarfóstur Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, þar sem erlendir þjóðhöfðingjar og erindrekar hafa tekið þátt í að gróðursetja tré. Þar hefur skógrækt verið notuð sem táknmynd friðar og mikilvægis þess að rækta vináttu á milli fólks. Þessum fallega sið má leggja allt kapp á að halda við lýði.

Víða er að finna kolagrafir á Íslandi. Þær voru notaðar til að búa til kol úr viði þess skóglendis sem var á Íslandi við landnám. Þessi kol voru nauðsynleg til járnvinnslu með rauðablæstri á miðöldum. Í Vaglaskógi í Fnjóskadal má finna mörg hundruð slíkar grafir frá nánast öllum tímabílum Íslandssögunnar. Á miðöldum var dalurinn að mestu skógi vaxinn og miðað við fjölda kolagrafa fór þar fram töluverð járnvinnsla. Vísbendingar um hvernig skógarnýtingunni var háttað má finna í niðurstöðum fornleifarannsókna sem gerðar voru á Skógum í Fnjóskadal. Þær benda til þess að þrátt fyrir mikla nýtingu hafi hún lengi verið sjálfbær og skógurinn ekki farið halloka fyrr en á 18. og 19. öld. Hérlendis með öðrum orðum finna dæmi um sjálfbæra nýtingu skóglendis á öldum áður.[2]

Í eftirfarandi kvikmyndbroti sést hvernig kolagröf var tekin í Skaftafellsskógi alveg fram yfir miðja 20. öld. Myndin er óstytt hér í greinarlok.

 

Að týnast í skóginum

Skógrækt og menningararfur eiga nefnilega meira sameiginlegt en margur myndi halda við fyrstu sýn. Við iðkun hvorutveggja er verið að búa í haginn fyrir næstu kynslóðir. Virðing er bæði borin fyrir komandi kynslóðum og þeim sem á undan komu. Þrátt fyrir að skógar hafi farið halloka eftir landnám hefur Ísland aldrei orðið skóglaust land með öllu og skógar eiga svo sannarlega sitt pláss í fjölbreyttri íslensku náttúru og menningarlandslagi. Minjar á borð við kolagrafirnar sem finna má um allan skógarbotn Vaglaskógar minna okkur á að við getum nýtt skóginn á sjálfbæran hátt. Á sama tíma getum við notið skógarins eins og við best kunnum, sem útivistarsvæðis þar sem skjól gefst fyrir veðrum og vindum. Ef vel gengur hættum við ef til vill á að týnast einstöku sinnum í skóginum en finnum kannski aldagömul tengsl okkar við hann í staðinn.

Heimildir

Lísabet Guðmundsdóttir. 2016. Nýting skóga í Fnjóskadal á 10. öld til þeirrar 13. Fornleifastofnun Íslands.

Samráðsnefnd um skráningu á heimsminjaskrá. 2003. Application for Inclusion in the World Heritage List Þingvellir National Park.

[1] Sjá kafla 2.c & 5.a í tilnefningarskjali Þingvalla til heimsminjaskrár UNESCO
[2] Lísabet Guðmundsdóttir. 2016. Nýting skóga í Fnjóskadal á 10. Öld til þeirrar 13. Fornleifastofnun Íslands.
Texti: Daníel Godsk Rögnvaldsson, nemi í sjálfbærri menningarstjórnun við Árósaháskóla
Ritstjórn: Pétur Halldórsson

 

Í jöklanna skjóli - Kolagerð, mynd sem Vigfús Sigurgeirsson gerði að ósk Skaftfellingafélagsins í Reykjavík árið 1955. Þulur í myndinni er Jón Aðalsteinn Jónsson íslenskufræðingur sem sjálfur var af skaftfellskum uppruna. Þessi mynd er úr röð fræðslumynda sem Vigfús gerði undir þessu heiti, Í jöklanna skjóli.