Á þessari mynd sem einnig prýðir forsíðu 44. tölublaðs Rits Mógilsár fegra misstór tré skógarmyndina…
Á þessari mynd sem einnig prýðir forsíðu 44. tölublaðs Rits Mógilsár fegra misstór tré skógarmyndina. Strandrauðviður (Sequoia sempervirens) í Prairie Creek Redwoods State Park í Norður­Kaliforníu. Ljósmynd Þorbergur Hjalti Jónsson

Vísindalegum aðferðum til að meta fegurð, upplifunar- og útivistargæði skóga er beitt í grein eftir Þorberg Hjalta Jónsson, sérfræðing á rannsóknasviði Skógræktarinnar, sem komin er út í Riti Mógilsár. Mælikvarðana sem þar eru settir fram má nota við skipulagningu, grisjun, kortlagningu og verðmat á útivistarskógi.

Í yndisskógi er það fegurð og upplifun sem skapar verðmætin. Hvernig mælum við fegurð? Getum við greint fegurð skógarins í þurrum mælitölum? Hvernig fáum við mesta fegurð fyrir minnstan tilkostnað? Í greininni er glímt við þessar spurningar og við það verk er seilst eftir nýtilegum lausnum í verkfærakistur stærðfræði, fagurfræði og klassískrar skógfræði.

Í útdrætti greinar Þorbergs Hjalta segir að í allri faglegri skipulagningu þurfi mælikvarða á árangur. Í greininni eru settir fram mælikvarðar fyrir fagra skóga til útivistar. Skógarsýnd er mælikvarði á skilin milli opins lands og skógar frá sjónarhóli þeirra sem njóta útivistar og er lýst út frá hæð og þéttleika trjánna og augnhæð athugandans. Mælikvarða á fegurð og gæði skógar til útivistar nefnir hann yndisgildi. Yndissýnd er aftur á móti heildaráhrif skógarins á skoðandann sem hér eru skilgreind sem margfeldi yndisgildis og skógarsýndar.

Sumargræn lauftré og sígræn barrtré eru sjónrænar andstæður sem saman geta gert skógarmyndina áhugaverð­ari. Við sama þéttleika eykur vaxandi hlutdeild sígrænna barrtrjáa á skyggingu skógarsvarðarins og dregur úr grósku og þekju háplantna. Besta skógarmyndin fæst með því að lauftrén séu í meirihluta. Teikning ÞHJFyrirbæri eins og fegurð, upplifun og útivistargæði skýrast mikið til af birtunni í skóginum og fagurfræðilögmálum um fjölbreytni, andstæður og hlutföll. Sett er fram aðferð til að fella þessa þætti saman í yndisgildi skógar. Fyrir yndisgildið þarf upplýsingar um trjáfjölda á hektara, tegundir, yfir hæð trjánna, hæð trés af meðalgrunnfleti og grunnflöt trjáa skipt eftir tegund og skuggaþoli. Yndisgildi, skógarsýnd og yndissýnd má meta út frá venjulegum trjámælingagögnum án sérstakra athugana.

Þessa mælikvarða má nota við skipulagningu, grisjun, kortlagningu og verðmat á útivistarskógi. Við greiningu á skógarkönnunum má sjá svæði með misvistlega skóga og hvort skógarnir eru að verða fegurri eða ásýnd þeirra fer hrakandi.

Texti: Pétur Halldórsson