Ertuygla á greni
Ertuygla á greni

Unnið að beitartilraun með lirfur í búrum

Ertuygla hefur valdið tjóni í skógrækt á sunnaverðu landinu á undanförnum áratug. Þetta er fiðrildi af ygluætt en það er lirfa fiðrildisins sem veldur skaða á plöntum síðsumars. Fullvaxnar lirfur eru nokkuð stórar, um 3 cm að lengd. Hérlendis eru þær áberandi í lúpínubreiðum á útbreiðslusvæði ertuyglunnar en leggja sér þó ýmislegt annað til munns. Til að mynda verða ungar trjáplöntur stundum fyrir barðinu á þeim.

Undanfarna daga hefur aðeins bólað á ertuyglu á Suður- og Vesturlandi. Fyrstu lirfurnar sáust 29. júlí, sem er fremur seint miðað við mörg fyrri ár. Ástæður  fyrir þessari síðbúnu komu eru ekki ljósar. Hugsanlega getur verið að lirfur síðasta sumars hafi verið óþroskaðar vegna lágs meðalhita og púpur því verið óvenju litlar í ár. Minni líkur eru á því að litlar púpur lifi af veturinn og því gæti það hafa leitt til þess að færri fiðrildi hafi komið úr púpum þetta árið en mörg fyrri ár.

Nú er í gangi beitartilraun þar sem ungum ertuyglulirfum er safnað í búr og þær látnar nærast á mismunandi plöntutegundum í hálfan mánuð. Plöntutegundirnar sem eru notaðar í tilraunina eru lúpína, ösp og greni. Lirfurnar eru vigtaðar í byrjun og lok tilraunar en markmið tilraunarinnar er að kanna hvort ertuyglulirfur dafna betur á einhverri ákveðinni fæðu en annarri og þyngist því hraðar af henni. Tilraunin er hluti af doktorsverkefni Brynju Hrafnkelsdóttur við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Texti og myndir: Brynja Hrafnkelsdóttir