Veruleg breyting hefur orðið á gróðri í Haukadalslandi frá því að Skógræktin hóf þar uppgræðslu og s…
Veruleg breyting hefur orðið á gróðri í Haukadalslandi frá því að Skógræktin hóf þar uppgræðslu og skógrækt fyrir 85 árum. Náttúrleg útbreiðsla birkis er þar líka mikil eins og annars staðar þar sem land er tekið til skógræktar. Myndataka: Daði Björnsson/Loftmyndir ehf.

Stórgjöf Danans Kristians Kirks bjargaði jörðinni frá því að blása upp

Á þessu ári eru liðin 75 ár frá því að danski auðmaðurinn Kristian Kirk gaf Skógrækt ríkisins jörðina Haukadal í Biskupstungum. Kirk hafði keypt landið tveimur árum fyrr því hann vildi láta gott af sér leiða á Íslandi. Lét hann friða Haukadalsjörðina fyrir beit, girða hana af og hefja öflugt landbótastarf sem staðið hefur allar götur síðan undir stjórn Skógræktar ríkisins. Sitkagreni gefur nú árlega 6-8 rúmmetra á hektara í Haukadalsskógi og bestu reitirnir allt að 11 m3 á ha. Aðrar tegundir, svo sem rauðgreni, gefa minna eða 5-6 m3 á ha á ári.

Kristian Kirk var verkfræðingur og starfaði framan af hjá jóska símafyrirtækinu Jydsk Telefon-Aktieselskab. Síðar stofnaði hann fyrirtækið A/S Kristian Kirks Telefonfabriker og stjórnaði þeim til dauðadags árið 1940. Hann auðgaðist mjög á þessum rekstri og átti líka tvö dönsk blöð, Jyllandsposten og Vejle Amts Avis. Ejnar Munksgård bókaútgefandi vakti áhuga hans á Íslandi og það varð til þess að Kirk keypti Haukadalsjörðina sem farið hafði í eyði um 1930 vegna uppblásturs og hnignaðra landkosta.

Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, skrifar grein um Haukadal í Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1940 og segir þar meðal annars að girðing sú sem Kristian Kirk lét setja upp í Haukadal sé „langvandaðasta skógargirðing, sem hér hefir verið reist“. Auk girðingarinnar lét Kirk gera margvíslegar lagfæringar í Haukadal áður en hann gaf jörðina frá sér. Þar vógu þyngst viðgerðir og endurbætur á Haukadalskirkju en einnig voru lagðir vegir og sitthvað fleira sem búa átti í haginn fyrir ræktunarstarfið á jörðinni.


Birkiskógarnir margfaldast eftir friðun landsins

Girðing Kirks var um 13,5 km löng en Tungufljót girðir landið af á tveggja kílómetra kafla. Alls nam afgirta svæðið 1.350 hekturum og fram kemur í grein Hákonar að af því hafi um fimmtungur verið örfoka og ógróið land, fjórðungur vaxinn kjarri og smávöxnum kræklóttum skógi en annað ýmist mýri eða lyngmóar. „Í lyngmóunum og mýrajöðrunum leynist enn víða birkikvistur, svo að sennilega eykst kjarrlendið í Haukadal stórum á næstu árum,“ skrifar Hákon. Hafði Hákon þar rétt fyrir sér enda hafa birkiskógar margfaldast að stærð síðan landið var beitarfriðað.

Kristian Kirk vildi gera meira í Haukadal. Hann sá fyrir sér að þar myndi hann reisa bústað yfir skógarvörðinn á Suðurlandi en hvort tveggja kom til að hann veiktist og seinni heimsstyrjöldin skall á. Áður en Kirk lést snemma árs 1940 gekk hann frá því að Skógrækt ríkisins fengi Haukadalsjörðina að gjöf og ynni þar að landvernd, skógvernd og skógrækt.

Tuttugu árum eftir að Skógrækt ríkisins tók við þessari höfðinglegu gjöf birtist í Þjóðviljanum viðtal við Hákon Bjarnason skógræktarstjóra og Einar Sæmundsen skógarvörð. Fyrirsögnin er „Með skógarmönnum“. Í viðtalinu, sem birtist 22. október 1960, kemur margt fróðlegt fram, meðal annars um tildrög þess að Kristian Kirk gaf Skógrækt ríkisins jörðina.


Með skógarmönnum í Haukadal

   Á s.l. vori, hinn 27. júní, voru þrjátíu ár liðin frá því hógvær maður en ákveðinn gekk upp á eitt af björgunum undir bergvegg Almannagjár og hóf að tala við mannþyrpingu fyrir neðan. Þarna var raunar ekki saman kominn stór hluti Alþingishátíðargesta, enda talaði maðurinn um efni sem flestum var frekar framandi þá: skógrækt. Þessi maður var Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, — og á þessum fundi var Skógræktarfélag Íslands stofnað.
    Hvað hefur þetta félag gert á 30 árum? Hvað hefur Skógrækt ríkisins orðið ágengt á þessum tíma? Svör við þeirri spurningu fáið þið ekki tæmandi hér, enda yrði það of langt mál. Þegar ég nýlega lagði svipaðar spurningar fyrir Hákon Bjarnason skógræktarstjóra og Einar Sæmundssen skógarvörð varð það að samkomulagi að ég kæmi með næst þegar þeir þyrftu að fara í Haukadal og sæi og dæmdi sjálfur hvort þeir hafa svikizt um.
    Haukadalur, hið sögufræga óðal Haukdæla, þar sem Ari fróði nam fræði sín, hefur undanfarið verið í eign Skógræktar ríkisins. Fyrri skömmu fóru þeir Hákon austur í Haukdadal vegna framkvæmdanna þar, og þegar við höfðum búið um okkur til næturinnar í skógarmannakofanum hóf ég yfirheyrsluna.
    — Hvernig atvikaðist það að Skógrækt ríkisins eignaðist Haukadal?
    — Forsaga þess hófst suður hjá Miðjarðarhafi, svarar Hákon. Þá voru þeir staddir þar saman Ejnar Munksgaard bókaútgefandi og Kristian Kirk. Kirk var danskur verkfræðingur og mjög vel fjáður maður. Ejnar Munksgaard var mikill vinur Íslands, eins og flestum mun kunnugt og hann mun þar hafa vakið áhuga Kirks fyrir Íslandi. Niðurstaðan af viðræðum þeirra þarna suður frá varð sú, að þegar þeir komu aftur til Kaupmannahafnar hafði Kirk tal af Jóni Sveinbjörnssyni konungsritara um að hann vildi verja nokkurri fjárhæpð til framfara- og nauðsynjamáls á Íslandi, og varð niðurstaðan að framlaginu yrði varið til skógræktar. Þetta mun hafa verið vorið 1937.
    Þegar Jón Sveinbjörnsson kom heim til Íslands var verið að enda við að girða í Þjórsárdal. Hér í Haukadal var uppblásturinn þá í algleymingi og Sigurður Greipsson hafði reynt árangurslaust að fá hann stöðvaðan, en hvorki Sandgræðslan né Skógræktin gátu sinnt því verkefni.
    Það varð þá úr að Kirk kaupir Haukadal af Sigurði Greipssyni, eða um 1350 ha. land og lætur girða það með 14 km. girðingu. — Hann gaf 50 þús. kr., eða álíka upphæð og framlag ríkisins til skógræktar var á því ári. Hann lét einnig gera við kirkjuna í Haukadal fyrir 8 þús. kr. og ætlaði að byggja upp á jörðinni, en 1939 kom heimsstyrjöldin, og á því árabili lézt Kristian Kirk.
    — Hvernig var hér þegar Skógræktin fékk Haukadal, og hvað hefur verið gert síðan?
    — Það var mjög mikill uppblástur á Haukadalsheiði og uppblástursgeirarnir teygðu sig niður í gróðurlendið og stækkuðu með hverju ári.
    Það var byrjað á því að stinga niður rofabörð, það var mikið verk sem þar var framkvæmt. Síðan var hrís látið á börðin, voru alls fluttir 900 hestburðir af hrísi til að stöðva uppblásturinn.


    Nú eru mestu uppblástursgeirarnir horfnir, hafa gróið upp. Uppblástursbörðin hafa blátt áfram sigið saman og er alveg furðulegt hve mjög hefur gróið við friðunina eina.
    Þetta verk var byrjað 1938 og endað 1939. Þegar gefandinn féll frá varð ekki af því að byggt væri skógarvarðarhús, eins og hann hafði ætlað sér.
    — Og hvað gerðuð þið svo næst?
    — Það var ekki fyrr en 1943 að byrjað var að planta hér og þá skógarfuru, hérna uppi í hlíðarbrekkunum. Svo lá þetta niðri af völdum stríðsins og ýmsum öðrum orsökum.
   Það var því ekki fyrr en 1948 að farið var að planta hér fyrir alvöru, en síðan hefur alltaf verið unnið eitthvað að því nema eitt árið.


    Við höfum verið að þreifa okkur áfram, en nú erum við búnir að fá fast land undir fætur, og við ætlum að gróðursetja mikið á næstu árum. Í sumar hefur gengið mjög vel við vegagerð um landið og það þýðir að miklu auðveldaraverður að vinna eftirleiðis.
    — Er þetta mikið land?
    — Skóglendið sem hægt er að planta í í fyrstu lotu er 300-400 hektarar. Móarnir eru að vaxa upp, klæðast birki. Sumt af því eru gamlar rætur sem fyrir voru, en nokkru höfum við sáð.
    — Var mikið af birki hér fyrir?
    — Já, hér var fyrir töluvert af birki, en það var argasta beitikjarr, svo það hefur verið meiri vinna að grisja rásir í kjarrið til að planta í heldur en að framkvæma sjálfa plöntunina.


    Við höfum haft hér Norðmenn þriðja hvert ár við plöntun og einnig kennaraskólanemendur sem hafa plantað hér. Já, það er nauðsynlegt að þeir læri plöntun, því það þýðir ekki að fara af stað með skólaplöntun fyrr en ákveðinn hluti kennaranna kann það verk og getur stjórnað nemendunum og sagt þeim til.
    — Erum við ekki hér í Haukadal komnir töluvert „hátt upp“ eða upp í takmörk þess að hægt sé að rækta skóg?
    — Haukadalskirkja mun standa í 120 m. hæð yfir sjó. Héðan til Eyrarbakka eru 60-70 km., en við verðum að athuga hvað landið er lágt og flatt hér fyrir austan, svo að í þessari fjarlægð frá sjó erum við ekki komnir meira en í rúmlega 100 m. yfir sjó. Hlíðarbrekkan hér fyrir ofan er 200-300 m. yfir sjó, og við höfum plantað í nær 200 m hæð — og það hefur vaxið vel.
    — Er nokkuð vitað hvernig land var hér fyrr á öldum?
    — Í jarðabók Árna Magnússonar stendur: Sandur tekur til að ganga á land jarðarinnar, og sýnist að til stærri skaða muni verða með tíðinni.
    Inni í Einifelli, uppi við Jarlhettur, er enn birki.
    Í Hvítá er hólmi uppi undir Bláfelli og þar er enn birki, — furðu bein og falleg tré. Jón á Laug o.fl. gamlir menn sögðu að um 1870 hefði verið heyjað langt inni í Haukadalsheiði, þar sem nú eru örfoka melar, urð og grjót.
    Það er því öll ástæða til að ætla og má raunar fullyrða, að Haukadalsland hafi fyrrum verið algróið allt inn undir Bláfell og Jarlhettur þar sem nú eru örfoka melar.
    Þegar birtir að morgni förum við upp í hlíðina til að líta á handaverk skógræktarmanna. Samfelldar spildur í hlíðinni eru nú vaxnar barrtrjám. Þau eru á ýmsum aldri og ýmsum stærðum, en ársvöxtur hér hefur auðsjáanlega verið góður. Hér verður ekki aðeins fallegur staður heldur verðmætur þegar fram líða stundir — og sennilega fyrr en flesta grunar. Þeir hafa auðsjáanlega ekki svikizt um heldur unnið gott verk. Og hér getur hver sem vill á næstu árum skoðað með eigin augum hvort skógrækt á Íslandi sé aðeins fim[b]ulfamb nokkurra skýjaglópa eða blákaldur veruleiki.

J. B.

Á núvirði er samsvarar sú upphæð sem Kristian Kirk lagði til Haukadalsjarðarinnar rúmlega tveimur milljörðum króna og var þessi gjöf því gríðarmikil. Upphæðin er framreiknuð út frá útreikningum Gylfa Magnússonar dósents á Vísindavefnum árið 2001 miðað við hækkun vísitölu neysluverðs úr 212,6 stigum í júní 2001 í 429,3 stig í júní 2015.


Sitkagrenið gefur 6-8 rúmmetra á hektara árlega

Mikið hefur gerst í Haukadal eftir að viðtalið við Hákon Bjarnason birtist í Þjóðviljanum 1960. Þar hafa verið reyndar margar trjátegundir og enn fleiri kvæmi (staðbrigði) ýmissa trjátegunda. Mest hefur verið gróðursett af sitkagreni, stafafuru, alaskaösp, rússalerki, rauðgreni og blágreni en einnig ýmsar aðrar tegundir. Í Haukadal er sitkagreni sú trjátegund sem sýnt hefur einna bestan vöxt, eða 6-8 rúmmetra á hektara á ári að meðaltali og bestu reitirnir allt að 11 m3 á ha. Aðrar tegundir, svo sem rauðgreni, gefa minna eða 5-6 m3 á ha á ári. Ljóst er að rakur og frjósamur jarðvegur Haukadals er kjörlendi fyrir sitkagreni. Skógurinn er grisjaður og nytjaður í kurl, spæni og til smíða.


Gildasti viðurinn sem fellur til við grisjun skóga Haukadals hefur verið flettur og notaður til að smíða bekki og borð, í klæðningar og burðarvirki húsa. Nú er svo komið að bæta þarf til muna aðstöðu í skóginum til að vinna þann við sem úr honum kemur og í undirbúningi er að koma upp skemmu sem hýst geti viðarvinnslu, tæki og fleira. Í Haukadal fer nytjaskógrækt mjög vel saman með útivist og náttúruskoðun. Góð aðstaða er í skóginum til útivistar og meðal annars var þar útbúinn fyrsti skógarstígurinn í skógi á Íslandi sem sérstaklega var hannaður fyrir fólk í hjólastól. Áfram verður haldið með skógrækt og aðrar landbætur í Haukadal og á Haukadalsheiði og er það starf nú í mótun.

Landgræðslu- og skógræktarstarf í landi Haukadals og ofan þess á Haukadalsheiði hefur borið mikinn árangur. Þar hafa fleiri en Skógrækt ríkisins komið að málum, Landgræðsla ríkisins hefur unnið mikið starf á heiðinni ásamt Landgræðslufélagi Biskupstungna, meðal annars með styrkjum úr Pokasjóði og fleiri mætti nefna. Nú er af sem áður var þegar uppblásturinn af Haukadalsheiði var oft í vitum fólks í lágsveitunum og mökkinn bar við himin í þurrviðri og norðanáttum. Enn er þó starfinu ekki lokið en eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan sem Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, tók í gær á degi íslenskrar náttúru vinnur lúpínan þrekvirki á heiðinni og flýtir fyrir að bæði birki og víðitegundir nái þar rótfestu á ný. Á öldum áður var Haukadalsheiði gróin birkiskógi og meðal annars bera kolagrafir á heiðinni skýrt vitni um hvernig þar var umhorfs áður en heiðin varð að auðn.

Á Haukadalsheiði sýnir lúpínan vel yfirburði sína yfir aðrar jurtir. Hér mun hún
flýta endurhæfingu landsins um áratugi, ef ekki aldir, og fegra umhverfi Jarlhettna.
Séð til Jarlhettna gegnum uppvaxandi birkiskóginn. Með þrotlausu starfi og hjálp lúpínu
og annarra landgræðslujurta hillir nú undir að birkiskógurinn sem laut fyrir rányrkju
á fyrri öldum vaxi aftur upp á Haukadalsheiði.
Birkiplöntur vaxa upp úr foksandinum sem bundinn hefur verið með grassáningu
og áburðargjöf. Hér nýtur birkiplanta félagsskapar myndarlegs móasefsbrúsks.
Ekki vantar grjótið á Haukadalsheiði. Í fjarska sést hversu þykk jarðvegshulan var
á þessum slóðum.
Baráttunni við foksandinn er ekki lokið þótt allt þokist í rétta átt. Lúpínan á þar mögur ár
í þurrkasumrum en spírar vel þegar vott er.
Íslensku víðitegundirnar fjallavíðir, loðvíðir og grasvíðir njóta góðs af landgræðslustarfinu
og fikra sig upp úr mögrum sverðinum. Jarlhettur í baksýn.
Í næringarforðanum sem lúpínan hefur byggt upp í auðninni vex birkið vel og myndar skóg
sem smám saman skyggir út lúpínuna og eftir stendur birkiskógur sem gæti líkst þeim birkiskógi
sem óx á Haukadalsheiði á öldum áður. Myndir: Hreinn Óskarsson.

Texti: Pétur Halldórsson