Trjáfræi sáð í karma í Gróðrarstöðinni í Kjarna um 1960. Mynd úr safni Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Trjáfræi sáð í karma í Gróðrarstöðinni í Kjarna um 1960. Mynd úr safni Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Hallgrímur Indriðason rifjar upp söguna

Á aðalfundi Skógræktarfélags Eyfirðinga sem haldinn verður á morgun, laugar­dag­inn 13. maí, rekur Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar, sögu trjáplöntuuppeldis í Kjarnaskógi sem hófst fyrir sjötíu árum.

Saga skógræktar í landi Kjarna er samofin starfsemi Gróðrarstöðvarinnar í Kjarna sem raunar er eldri en sjálfur Kjarnaskógur því ræktun skógarins hófst ekki að marki fyrr en nokkrum árum eftir að stöðin tók til starfa þegar hafist var handa við að friða land til markvissrar skógræktar. Skóg­ræktar­félag Eyfirðinga keypti erfðafestu í landi Steinagerðis í Kjarna 1946, gróðursetti þar fyrstu trén sama ár og setti upp Gróðrarstöðina í Kjarna sem ávallt var kölluð svo. Félagið rak stöðina þar til fyrir nokkrum árum að Sólskógar keyptu hana og tóku við rekstrinum. Áfram hefur félagið höfuðstöðvar sínar í Kjarna og umsjón með Kjarnaskógi ásamt mörgum fleiri skógarreitum í og við Eyjafjörð.

Hallgrímur Indriðason var í áratugi framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga og hefur því öðrum betri þekkingu á ræktunarsögunni í Kjarna. Í fyrirlestri sínum á morgun fer hann reyndar allt aftur til þess tíma er fyrstu gróðrar­stöðv­arnar voru settar á fót hér á landi fyrir 114 árum og rekur þróunina sem orðið hefur síðan. Mestu breytingarnar urðu eftir miðja síðustu öld og frá þeim tíma hefur skógrækt á Íslandi gengið gegnum mörg breytingaskeið og aðferðir og búnaður ýmiss konar þróast mjög.

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga verður haldinn á Hótel Kjarnalundi í Kjarnaskógi og hefst kl. 13.30. Ástæða er til að hverja allt áhugafólk um skógrækt og aðrar landbætur að gefa starfi skógræktarfélaga í landinu gaum og skrá sig í raðir þeirra, þó ekki væri nema til að styðja við það öfluga og góða starf sem félögin vinna um allt land.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson