Fyrirhugað lón hefði fært í kaf 376 ferkílómetra lands í miðjum Amaason-frumskóginum. þar sem búa um…
Fyrirhugað lón hefði fært í kaf 376 ferkílómetra lands í miðjum Amaason-frumskóginum. þar sem búa um 12.000 frumbyggjar. Þetta landsvæði samsvarar hátt í öllu því landi sem lagt hefur verið undir skógrækt hérlendis. Mynd: Fábio Nascimento/Greenpeace

Umhverfisráðherra Brasilíu segir smærri virkjanir og vindorku geta komið í stað risavirkjunar sem áformuð var

Umhverfisstofnun Brasilíu hefur stöðvað áform um gerð 8.000 megavatta vatnsaflsvirkjunar sem ráðgerð hafði verið í Tapajós-fljótinu í miðjum Amason-frumskóginum. Lón virkjunarinnar hefði orðið 376 ferkílómetrar að stærð og fært í kaf regnskóg þar sem búa um 12.000 frumbyggjar af Munduruku-þjóðflokknum.

Tíðindi þessi bárust í þann mund sem Ólympíuleikarnir í Ríó voru að hefjast. Umhverfisverndarsinnar í Brasilíu og um allan heim hafa fagnað þessu mjög og talað er um að þetta séu jafnvel straumhvörf í baráttunni fyrir verndun Amason-frumskógarins. Fjallað er um þetta í heimspressunni, meðal annars í breska blaðinu The Guardian.

Blaðið segir að meginástæða þess að umhverfisstofnun Brasilíu, Ibama, stöðvaði þessi áform séu áhyggjur manna af örlögum frumbyggjabyggða í skóginum og af lífríkinu á svæðinu. Virkjunin, sem kennd er við São Luiz do Tapajós (SLT), átti sem fyrr segir að verða 8.000 megavött að afli og hefði orðið sjötta stærsta vatnsaflsvirkjun í heiminum. Í tilkynningu Ibama-stofnunarinnar segir að þeim fyrirtækjum sem sóttust eftir því að fá að reisa virkjunina, fyrirtækjum frá Brasilíu, Evrópu og víðar, hafi ekki tekist að leggja fram nægilega haldbær gögn sem dygðu til að meta áhrif framkvæmdanna á samfélög og vistkerfi.

Áður höfðu mannréttindahópar og umhverfissinnar bent á að í þessum áformum væri áhættan fyrir mannlíf og náttúru stórlega vanmetin, áhrif á líffjölbreytni, vatnavistkerfi, losun gróðurhúsalofttegunda og einnig áhrif á samfélög fólks neðar við fljótið.


The Guardian vitnar í Arnaldo Kabá Munduruku, höfðingja Munduruku-þjóðflokksins sem fagni mjög þessum fréttum og segi að áfram verði barist gegn öðrum virkjunaráformum í fljótinu.

Meðal þeirra samtaka sem berjast fyrir verndun Amason-frumskógarins eru samtökin Amazon Watch. Christian Poirier, fulltrúi samtakanna, segir í samtali við The Guardian að lengi hafi verið beðið eftir jákvæðri yfirlýsingu á borð við þessa frá brasilískum stjórnvöldum. Í millitíðinni hafi önnur stórverkefni hlotið brautargengi svo sem í fljótunum Madeira og Xingu.

Ekki er útilokað að aftur verði reynt að fá leyfi fyrir SLT-stíflunni en samkvæmt heimildum The Guardian er talið ólíklegt að af því verði, bæði vegna þess hversu dýrt er að endurvinna umhverfismatið frá grunni og vegna efnahagssamdráttarins í Brasilíu. Samt sem áður hefur Reuters-fréttastofan eftir varaorkumálaráðherra Brasilíu, Paulo Pedrosa, að SLT-stíflan hafi verið „samkeppnis­hæft“ verkefni og endanleg ákvörðun um framkvæmdina sé í höndum forsetans sem nú situr til bráðabirgða og heitir Michel Temer.

São Luiz do Tapajós stíflan er sú stærsta af fimm sem fyrirhugaðar hafa verið í Tapajós-fljótinu. Að auki eru tugir smærri virkjana í deiglunni á vatnasviði árinnar. Í stjórnarskrá Brasilíu er ákvæði um að ekki megi neyða frumbyggja til að yfirgefa land sitt nema á stríðstímum eða þegar farsóttir geisa. Frá því í júní hefur Munduruku-þjóðflokkurinn unnið að því að afmarka svæði sitt við Tapajós-fljótið í von um að því verði bjargað. Baráttufólk þrýstir nú á Temer, sitjandi forseta, að viðurkenna formlega rétt Munduruku-fólksins.

Allt ræktað skóglendi á Íslandi var árið 2015 um 400 ferkílómetrar. Stærð lónsins sem fyrirhugað var í Tapajós-fljótinu hefði því náð að hylja hartnær jafnmikið land og lagt hefur verið undir nytjaskógrækt á Íslandi.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson