Sjálfboðaliðar vinna að bættri aðstöðu við Hjálparfoss. Ljósmynd: Charles Goemans.
Sjálfboðaliðar vinna að bættri aðstöðu við Hjálparfoss. Ljósmynd: Charles Goemans.

Tilkynnt hefur verið um framlög til verndar náttúru og uppyggingar ferðamannastaða úr stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Skógræktin fékk vilyrði fyrir 35 milljóna króna framlagi á þessu ári til framkvæmda og undirbúnings framkvæmda á löndum í sinni umsjón.

Fimm og hálf milljón króna verður veitt á þessu ári til lokahönnunar og undirbúnings að smíði þjónustuhúss og eldaskála í Vaglaskógi. Byggingin verður með svipuðu sniði og sú sem þegar er risin í Laugarvatnsskógi nema hvað taka þarf tillit til mikils snjóþunga sem gjarnan er í Vaglaskógi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næstu misserum. Ráðgert er að reisa þriðja mannvirkið með þessu sniði í Hallormsstaðaskógi og fæst ein og hálf milljón króna til lokahönnunar þess á þessu ári.

Áfram verður haldið við endurbætur fyrir ferðamenn við Hjálparfoss sem er innan umsjónarsvæðis Skógræktarinnar í Þjórsárdal þar sem upp eru að vaxa Hekluskógar. Sett verður upp betri salernisaðstaða og unnið að viðhaldi gönguleiða og annarrar aðstöðu. Til verkefnanna verður varið níu milljónum króna á þessu ári.

Í Laugarvatnsskógi verður aðgengi fyrir alla bætt frá bílastæði að þjónustuhúsinu nýja. Einnig verður unnið að lokafrágangi þjónustuhúss og eldaskála ásamt uppbyggingu og viðhaldi gönguleiða. Þessi verkefni fá þrjár og hálfa milljón króna á árinu.

Við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri er þörf á að ráðst í endurbætur og viðhald gönguleiðar og ýmsu í umhverfi skógarreitsins. Til þeirra verkefna verður varið einni milljón króna.

Loks hljóta verkefni á Þórsmörk og Goðalandi fimmtán milljónir króna á þessu ári. Þar verður unnið að betri merkingum en einnig nýframkvæmdum við gönguleiðakerfi svæðanna og árlegu viðhaldi.

Nánar má fræðast um þau margvíslegu verkefni vítt og breitt um landið sem hlutu styrki í skjali sem aðgengilegt er á vef Stjórnarráðsins.