Starfsmenn Skógræktarinnar á Mógilsá  hafa nýlega mælt fyrsta sitkagreni sem staðfest er að nái 20 metra hæð á Íslandi.  Það er staðsett í einkagarði í Ártúnsbrekku í Reykjavík.  Tréð var gróðursett árið 1937 og var meðal fyrstu sitkagrenitrjáa sem hingað komu frá Alaska, af stað sem heitir Fish Bay og er á Baranov eyju.  Um gróðursetninguna sá Sveinbjörn Jónsson hæstarréttarlögmaður en hann sat í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur til margra ára.  Núverandi eigandi er sonur hans, Jón Sveinbjörnsson fyrrverandi prófessor.  Í þessu garði er einnig að finna sverasta sitkagreni landsins, en það mældist 62 sm í þvermál árið 2000, eða sem nemur 195 sm í ummál.  Svera tréð var hinsvegar aðeins 15,85 metra hátt.  Hæsta tréð hefur þvermálið 40,7 sm sem gerir 128 sm í ummál.  Framtíðin ein getur sagt til um hversu stór þessi tré geta orðið. Í heimkynnum sínum í Alaska getur sitkagreni orðið 60 metra hátt og hefur mælst hæst yfir 90 metrar í Washington fylki í Bandaríkjunum.

Á myndinni má sjá grenið í Ártúnsbrekku teygja sig til himins.  Maðurinn á myndinni er Ólafur G. E. Sæmundsen starfsmaður Viðarmiðlunar Skógræktar ríkisins.