Í Kjarnaskógi á Akureyri hefur verið útbúið nýtt samkomusvæði með grillhúsi og leiktækjum í mjög fallegu umhverfi. Svæðið heitir Birkivöllur en auk fallegra birkitrjáa eru þar ýmsar fleiri trjátegundir, til dæmis falleg tré af gráelri og síberíuþin svo eitthvað sé nefnt. Fimmtudaginn 15. október 2015 komu nemendur úr Giljaskóla ásamt kennurum sínum til að reyna hjólastólarólu sem sett hafði verið upp á Birkivelli. Rólan gefur fötluðum börnum færi á skemmtun sem þau hafa ekki átt auðvelt með að njóta. Aðstaða fyrir fatlaða er til fyrirmyndar á Birkivelli. Þangað er auðvelt að komast á hjólastól og fatlaðir geta þar notið náttúrunnar, legið í grasi og notið lífsins eins og annað fólk. Skógræktarfélag Eyfirðinga sér um Kjarnaskóg samkvæmt samningi við Akureyrarbæ.