KolefnishringrásMeð aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Íslands sem kynnt var á haustdögum 2018 varð kolefnisbinding eitt meginhlutverk Skógræktarinnar. Gert er ráð fyrir að gróðursetning trjáplantna á Íslandi fjórfaldist fram til ársins 2023 og binding í skógi og skógarjarðvegi aukist verulega.

Skógræktinni og Landgræðslu ríkisins var falið að vinna í sameiningu að aukinni bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu ásamt aðgerðum til að draga úr losun kolefnis frá framræstu landi með endurheimt votlendis.

En hvað er eiginlega þetta kolefni? Hvað er koltvísýringur? Hvað er kolefnisbinding? Hvað kemur þetta skógrækt við? Á þessum fræðslusíðum um kolefnisbindingu er fjallað um ýmsar meginspurningar sem þessar og útskýrt það mikilvæga hlutverk sem skógar gegna í baráttunni við loftslagsbreytingar.