Lat: Quercus

Eik (fræðiheiti: Quercus) er stórvaxið lauftré af beykiætt (Fagaceae). Um sex hundruð tegundir runna og trjáa teljast þessarar ættar og dreifast þær vítt og breitt um norðurhvel jarðar allt frá hitabeltinu norður til tempraða beltisins.

Meira um

Eikin myndar lítil, hörð aldin, svonefnd akörn, sem eru vinsæl fæða íkorna og villisvína í útlöndum. Eikarviður er harður og endingargóður enda sígildur smíðaviður og var á fyrri öldum aðalhráefnið í smíði stærri báta og skipa. Nú er vinsælt að nota eik í húsgögn, gólfefni og innréttingar, til dæmis. Víða hefur þó verið gengið mjög á eikarskóga, bæði til viðarnytja og annarrar landnýtingar.

Málshátturinn „sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“ vekur gjarnan furðu enda vaxa ekki epli á eikartrjám. Orðið „eik“ má hins vegar nota í almennri merkingu um tré og að sjálfsögðu fellur epli ekki langt frá trénu sem það er af. Algengasta merking málsháttarins er að eitthvað sem um er rætt í fari barns eða unglings megi rekja til móður þess eða föður.