Víðitegundir

 

Víðir (fræðiheiti Salix) er ættkvísl um 400 tegunda trjáa og runna af víðiætt (Salicaceae). Þær vaxa aðallega í rökum jarðvegi á köldum og tempruðum svæðum á norðurhveli jarðar. Auðvelt er að fjölga flestum víðitegundum með græðlingum. Víðir er oft gróðursettur á árbökkum til að verja bakkana fyrir vatnsrofi. Oft eru rætur víðis miklu lengri en stofninn. Rætur víðis eru mjög umfangsmiklar og frekar á vatn og geta stíflað framræslu- og holræsakerfi. Nokkrar tegundir víðiættar teljast innlendar á Íslandi. Það eru gulvíðir, loðvíðir, fjallavíðir, öðru nafni grávíðir (Salix arctica) og hin örsmáa tegund grasvíðir (Salix herbacea). Hér eru tíundaðar þær víðitegundir sem mest hafa verið notaðar og reyndar í skógrækt hérlendis.

Víðitegundir 

Selja
Salix caprea

Hæð: Smávaxið upp í miðlungsstórt tré, a.m.k. 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Fástofna runni eða tré með fremur stuttan stofn og breiða krónu
Vaxtarhraði: Mikill í æsku en dregur úr honum þegar blómgun hefst
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Gott frostþol og vindþol, sjálfsáning
Veikleikar: Víðiryð, ekki hægt að fjölga með græðlingum

Athugasemdir: Eina víðitegundin hérlendis sem erfitt er að fjölga með vetrargræðlingum og hefur notkunin verið minni en tegundin á skilið, því þetta er á margan hátt besta víðitegundin sem völ er á hérlendis


Seljur í Neðri-Mörk Hallormsstað 

© Þröstur Eysteinsson

Viðja
Salix borealis

Hæð: Oftast fremur smávaxið tré, a.m.k. 12 m hérlendis
Vaxtarlag: Uppréttur, fástofna runni eða lítið tré með fremur mjóa krónu
Vaxtarhraði: Mikill í æsku en dregur úr honum þegar blómgun hefst
Hvaða landshluta: Um land allt, frekar þó í innsveitum
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti
Styrkleikar: Gott frostþol, myndar mikið rótarkerfi og fær góðan stöðugleika, sjálfsáning
Veikleikar: Minna vind- og saltþol en margar aðrar víðitegundir, trjámaðkur

Athugasemdir: Gömul í ræktun hérlendis og mikið notuð í limgerði á tímabili. Sáir sér nokkuð og myndar stöku sinnum kynblendinga við gulvíði

 
Gömul viðja í Mörkinni Hallormsstað. 

© Þröstur Eysteinsson

Alaskavíðir
Salix alaxensis

Hæð: Oftast fremur smávaxið tré, allt að 10 m
Vaxtarlag: Margstofna runni upp í beinvaxið, einstofna tré, króna misbreið eftir klónum
Vaxtarhraði: Mjög mikill í æsku en blómgun hefst snemma og þá dregur mjög úr vexti
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti
Styrkleikar: Mjög hraður vöxtur í æsku, gott vind-, frost- og saltþol, sjálfsáning, besta víðitegundin til að skapa upphafsskjól á skömmum tíma.
Veikleikar: Skammlífur, myndar oft fremur gisið rótarkerfi og á því til að velta þegar hann stækkar, trjámaðkur

Athugasemdir: Mikið notaður í skjólbeltarækt og nokkrir hraðvaxta klónar hafa verið skilgreindir. Vinsældir hafa dalað á síðustu árum sökum þess hve alaskavíðir er skammlífur og gjarn á að velta

 
Alaskavíðir Höfða á Völlum Héraði. 

© Þröstur Eysteinsson

Jörfavíðir
Salix hookeriana

Hæð: Oftast stórvaxinn runni frekar en tré, sjaldan hærri en 5 m
Vaxtarlag: Oftast breiður, margstofna runni en lögun er breytileg eftir klónum
Vaxtarhraði: Mjög mikill í æsku en blómgun hefst snemma og þá dregur mjög úr vexti
Hvaða landshluta: Um land allt, helst í útsveitum
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti
Styrkleikar: Mjög gott salt- og vindþol, besta tegundin við strendur landsins þar sem saltákoma er mikil
Veikleikar: Haustkal hjá mest notaða klóninum (Sanda) en nýrri klónar eru með betra frostþol

Athugasemdir: Jörvavíðir er mjög líkur alaskavíði að sjá, enda áður talinn undirtegund hans, en rótarmyndun græðlinga er betri og því er hann yfirleitt stöðugri. Jörvavíðiklónarir 'Katla‘, 'Kolga‘ og 'Taða‘ hafa reynst mjög góðir í skjólbeltarækt í útsveitum

 
Jörfavíðir 'Kólga' í Saltvík við
Skjálfanda. 

© Þröstur Eysteinsson

Gulvíðir
Salix phylicifolia
þ.m.t.
brekkuvíðir,
strandavíðir og
blendingurinn
hreggstaðavíðir

Hæð: Fremur smávaxinn, allt að 8 m en sjaldan hærri en 2 m
Vaxtarlag: Mjög breytilegt, frá skriðulum runna upp í einstofna tré, oftast tiltölulega uppréttur margstofna runni
Vaxtarhraði: Hægur miðað við aðrar víðitegundir
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Gott frost-, vind- og saltþol, þolir blautan jarðveg, sjálfsáning
Veikleikar: Trjámaðkur, ryð

Athugasemdir: Gulvíðir er oft fljótur að birtast þegar land er friðað fyrir beit, sem er til marks um getu hans til að sá sér í mismunandi landgerðir

 
Gulvíðir í Atlavík. 

© Þröstur Eysteinsson

Körfuvíðir
Salix viminalis

 

Hæð: Fremur smávaxið tré, allt að 10 m hátt
Vaxtarlag: Ein- eða fástofna tré með breiða krónu, oft kræklótt
Vaxtarhraði: Hraður í æsku
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti
Styrkleikar: Löng og mjó laufblöð, þokkafullt tré
Veikleikar: Haustkal, trjámaðkur, brothætt í blotasnjó

Athugasemdir: Tegund sem talist getur tré og verðskuldar meiri notkun hérlendisÞingvíðir, afbrigði af körfuvíði, kenndur við Alþingisgarðinn þar sem Tryggvi Gunnarsson kvað hafa gróðursett slíkt tré. 

© Þröstur Eysteinsson

Lensuvíðir
Salix lasiandra

Hæð: Miðlungsstórt tré, a.m.k 15 m hátt
Vaxtarlag: Ein- eða fástofna beinvaxið tré með mjóa krónu
Vaxtarhraði: Miðlungshraður
Hvaða landshluta: Helst í innsveitum
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti
Styrkleikar: Löng og mjó laufblöð, þokkafullt tré, sterkt og mikið rótarkerfi
Veikleikar: Þolir illa mikið rok og saltákomu, lítil reynsla

Athugasemdir: Stórvaxnasta víðitegund í Alaska og hugsanlega sú sem gæti orðið stærst víðitegunda hérlendis. Hún barst fyrst til Íslands 1985 og því er reynslan ekki löng. Hæstu tré eru þó komin í um 8 m hæð

 
Lensuvíðir á Höfða, Völlum Héraði. 

© Þröstur Eysteinsson

Sitkavíðir
Salix sitchensis

Hæð: Fremur smávaxið tré, allt að 10 m
Vaxtarlag: Fá- til margstofna tré eða runni með breiða krónu
Vaxtarhraði: Miðlungshraður
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti
Styrkleikar: Góð ræting, stórvaxinn víðir
Veikleikar: Haustkal í æsku, ytri stofnar halla frá miðju með aldri, lítil reynsla

Athugasemdir: Tegund sem talist getur tré og verðskuldar meiri notkun hérlendis. Þrátt fyrir að langt sé síðan sitkavíðir barst fyrst til landsins hefur notkun hans verið lítil. Talsvert kal í æsku er hugsanleg skýring á því. Sitkavíðir vex þó fljótt upp úr því

 Sitkavíðir á Höfða á Völlum Héraði.

© Þröstur Eysteinsson


Gljávíðir
Salix pentandra

Hæð: Fremur smávaxið tré, allt að 10 m
Vaxtarlag: Ein- eða fástofna tré eða runni með breiða krónu, oft kræklótt
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Gamli klónninn einkum á sunnanverðu landinu, norðlægari klónar víða um land
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti
Styrkleikar: Glansandi laufblöð, fallegur í limgerði
Veikleikar: Haustkal, ryð

Athugasemdir: Gljávíðir barst til landsins fyrir 1900 og óx upphaflega tréð lengi við Aðalstræti 9 í Reykjavík. Græðlingar, upphaflega af því eina tré, voru mikið notaðir við limgerðisræktun um sunnanvert landið þar til gljávíðiryð barst til landsins fyrir fáum árum. Vinsældir gljávíðis hafa síðan dalað mjög. Hins vegar eru til í landinu klónar af norðlægari uppruna sem eru harðgerðari og ekki eins viðkvæmir fyrir ryðinu

 

Loðvíðir
Salix lanata

Hæð: Fremur smávaxinn runni, allt að 4 m
Vaxtarlag: Fá- til margstofna runni, oftast kræklóttur
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Harðger, vindþolinn, sjálfsáning
Veikleikar: Trjámaðkur, ryð, oft mjög smávaxinn

Athugasemdir: Líkt og gulvíðir er loðvíðir oft fljótur að birtast þegar land er friðað fyrir beit, sem er til marks um getu hans til að sá sér í mismunandi landgerðir

 
Gamall loðvíðir í Mörkinni Hallormsstað. 

© Þröstur Eysteinsson