Reynitegundir

 

Reynir (fræðiheiti: Sorbus) er ættkvísl jurta af rósaætt (Rosaceae) sem finnst um allt norðurhvel jarðar og tilheyrir rósaættbálkinum (Rosales). Ilmreynir er oftast kallaður reyniviður í daglegu tali. Hann er algengur á Íslandi, sérstaklega í görðum en einnig villtur sem stök tré í birkiskógum. Til dæmis eru stök reynitré áberandi í kjarrskógum Vestfjarða og setja mikinn svip á skógana með hvítum blómum á vorin og rauðum berjum á haustin. Ilmreynir óx villtur hér á landi við landnám, líkt og birki, einir og víðir. Margar aðrar reynitegundir hafa verið reyndar á Íslandi. Ættkvíslin er reyndar flókin viðfangs flokkunarfræðilega vegna kynblöndunar. Hér eru því einungis taldar upp þær tegundir sem mest hafa verið í ræktun hérlendis.

Reynitegundir

Reyniviður
Sorbus aucuparia

Hæð: Oftast fremur smávaxið tré, allt að 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Margstofna runni upp í beinvaxið, einstofna tré, krónan misbreið
Vaxtarhraði: Getur verið hraður við góð skilyrði á ungaaldri en fer snemma að blómstra og þá dregur úr vexti
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Nýtur þess mjög að vaxa í frjósömum jarðvegi
Styrkleikar: Vindþol, frostþol, saltþol, blóm, ber, haustlitir, viður
Veikleikar: Reyniáta

Athugasemdir: Reyniviður hefur verið ræktaður í görðum hérlendis síðan 1824 og var algengari í görðum en í skógum til skamms tíma. Nú er hann bæði mikið gróðursettur í skógrækt og víða er sjálfsáning áberandi

Reyniviður í Atlavíkurstekk í Hallormsstaðaskógi.

© Þröstur Eysteinsson

Silfurreynir
Sorbus intermedia

Hæð: Miðlungs stórt tré, a.m.k. 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með gildan stofn og breiða krónu
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Einkum á sunnanverðu landinu
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg og skjól í æsku
Styrkleikar: Tignarlegt tré, blóm, ber, viður
Veikleikar: Haustkal, trjámaðkur, reyniáta

Athugasemdir: Elsta innflutta tré á Íslandi er silfurreynirinn í Fógetagarðinum við Aðalstræti 9 í Reykjavík, gróðursettur 1884. Mætti nota meira í skógrækt. Upphaflega blendingur reyniviðar og seljureynis sem varð til í Svíþjóð en er nú ræktaður víða.

Silfurreynirinn í Fógetagarðinum í
Reykjavík sem Schierbeck landlæknir gróðursetti 1884.

© Þröstur Eysteinsson

Gráreynir
Sorbus hybrida

Hæð: Oftast fremur lágvaxið  tré, a.m.k. 10 m hérlendis
Vaxtarlag: Með stuttan stofn og breiða, fremur óreglulega krónu
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Tignarlegt tré, blóm, ber, frostþolnara en silfurreynir
Veikleikar: Reyniáta, trjámaðkur 

Athugasemdir: Gráreynir er gamall í garðrækt hérlendis. Því hefur verið haldið fram að hann sé blendingur reyniviðar og silfurreynis en það er líklega ekki rétt. Gráreynir er líklega annar blendingur reyniviðar og seljureynis sem varð til í Finnlandi.


Gráreynir á Höfða á Völlum Héraði.

© Þröstur Eysteinsson

Alpareynir
Sorbus mougeotii

Hæð: Fremur lágvaxið  tré, allt að 10 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna með breiða krónu
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Blóm, ber
Veikleikar: Reyniáta, trjámaðkur, haustkal

Athugasemdir: Mun styttri og minni reynsla er af alpareyni á Íslandi en af silfur- eða gráreyni. Hann virðist þó geta gegnt svipuðu hlutverki í garðrækt og e.t.v. skógrækt

 

Knappareynir
Sorbus americana

Hæð: Fremur smávaxið  tré, a.m.k. 10 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna með misbreiða krónu, líkist mjög reyniviði
Vaxtarhraði: Getur verið hraður við góð skilyrði á ungaaldri en fer snemma að blómstra og þá dregur úr vexti
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Blóm, ber, viður
Veikleikar: Trjámaðkur, lítil reynsla af ræktun

Athugasemdir: Sú litla reynsla sem er af ræktun knappareynis hér á landi lofar góðu. Tegundin er mjög lík reyniviði og þær æxlast auðveldlega saman.


Knappareynir á Höfða á Völlum Héraði
ættaður frá St. John's á Nýfundnalandi


© Þröstur Eysteinsson

Skrautreynir
Sorbus decora

Hæð: Smávaxið  tré, e.t.v. allt að 10 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna með fremur gisna krónu, líkist mjög reyniviði
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Blóm, ber
Veikleikar: Trjámaðkur  

Athugasemdir: Smávaxið tré frekar en runni. Blóm eru bleik og stór. Ber eru einnig stærri en á reyniviði. Lítil reynsla en tegundin virðist mjög harðgerð

 

Koparreynir
Sorbus koeniana

Hæð: Runni, allt að að 5 m
Vaxtarlag: Margstofna runni með slútandi greinar
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Blóm, hvít ber, haustlitir
Veikleikar: hægur vöxtur, haustkal  

Athugasemdir: Hefur verið tískurunni í garðrækt en ekki notaður í skógrækt. Hefur reynst harðgerðari en kasmírreynir sem er nauðalík tegund.

 

Úlfareynir
Sorbus x hostii

Hæð: Runni eða lágvaxið tré, að 8 m hæð
Vaxtarlag: Oftast uppréttur, fástofna runni
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Blóm, æt ber sem bragðast líkt og epli
Veikleikar: Hægur vöxtur  

Athugasemdir: Gamall í ræktun hérlendis, harðger og oftast laus við sjúkdóma og óværu

 

Seljureynir
Sorbus aria 

Hæð: Lítið eða meðalstórt tré, 4-6 m hérlendis
Vaxtarlag: Yfirleitt þétt með rúnnaðri krónu, aðalgreinar meira og minna uppréttar og stinnar
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Þarf kalkríkan sendinn og vel framræstan, hlýjan jarðveg og sólríkan stað
Styrkleikar: Blóm, djúpfagurrauð ber, gulir haustlitir
Veikleikar: Fremur hægur vöxtur, viðkvæmur, kröfuharður, lítil reynsla hérlendis

Athugasemdir: Meðalharðger-harðger, ekki mjög algengur en til í nokkrum gömlum görðum hérlendis þar sem hann hefur vaxið áratugum saman. Þarf kalkríkan, sendinn og vel framræstan, hlýjan jarðveg og sólríkan stað til að þrífast sem skyldi. Sumt af því sem talið hefur verið seljureynir hérlendis er í raun alpareynir.

 

Rit:

  • Hugh A. McAllister, 2010. The Genus Sorbus, Mountain Ash and other Rowans. TheRoyal Botanic Gardens, Kew