Hlyntegundir

 

Hlynur (fræðiheiti: Acer) er ættkvísl trjáa af sápuberjaætt (Sapindaceae). Íslendingar þekkja helst garðahlyn sem hér hefur verið ræktaður í görðum á aðra öld. Hæstu hlyntré hérlendis eru orðin um 15 metra há. Tegundin fær á sig stóra og hvelfda krónu og því þarf að búa henni gott rými og hugsa til þess frá upphafi svo hún njóti sín til fulls. Þvermál krónu er sagt vera allt frá tveimur þriðju og til jafns við hæðina þannig að reikna má með a.m.k. 10 m þvermáli krónu á 15 m háu tré.

Hlyntegundir

Garðahlynur
Acer pseudoplatanus

Hæð: A.m.k 15 m hérlendis, sennilega meira
Vaxtarlag: Einstofna tré með mjög breiða krónu
Vaxtarhraði: Getur verið mikill en haustkal í æsku dregur úr nettóvexti
Hvaða landshluta: Einkum á sunnanverðu landinu en einnig á góðum stöðum í öðrum landshlutum
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg, skjól í æsku og langt sumar
Styrkleikar: Tignarlegt tré, viður, vind- og saltþol, sjálfsáning
Veikleikar: Haustkal í æsku, lítil reynsla í skógrækt

Athugasemdir:Garðahlynur er e.t.v. það langlífa eðallauftré sem er næst því að vera nothæft í skógrækt á Íslandi. Reynslan er að hann vaxi upp úr tilhneigingunni til kals á 10-20 árum og vaxi áfallalítið eftir það.

Garðahlynur við Laufásveg í Reykjavík,
tré ársins 2014 hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

© Þröstur Eysteinsson
Broddhlynur
Acer platanoides

Hæð: Stórt tré, óvíst með hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með breiða krónu
Vaxtarhraði: Fremur lítill
Hvaða landshluta: Einkum á sunnanverðu landinu en einnig á góðum stöðum í öðrum landshlutum
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg, skjól í æsku og hlýtt sumar
Styrkleikar: Tignarlegt tré, viður
Veikleikar: Haustkal í æsku, lítil reynsla á Íslandi

Athugasemdir: Broddhlynur hefur þótt viðkvæmari í ræktun en garðahlynur, en það stafar líklega af of lítilli leit að heppilegum kvæmum. Ástæða er til að fá meiri reynslu af þessu tignarlega tré.

Broddhlynur í Höfða á Völlum Héraði.

© Þröstur Eysteinsson

Gljáhlynur
Acer glabrum

Hæð: Innan við 5 m
Vaxtarlag: Runni eða lítið tré
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Víða um land á skjólgóðum stöðum
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg, skjól
Styrkleikar: Fögur lauf, haustlitir, skuggþolinn
Veikleikar: Haustkal í æsku

Athugasemdir: Gljáhlynur er snotur skrautrunni sem verðskuldar meiri notkun í garðrækt en verið hefur

 
Broddhlynur í Höfða á Völlum Héraði.

© Þröstur Eysteinsson

Askhlynur
/Manitobahlynur
 
Acer negundo

Hæð: Stórt tré, óvíst með hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með breiða krónu
Vaxtarhraði: Fremur lítill
Hvaða landshluta: Einkum á sunnanverðu landinu á skjólsælum og sólríkum stöðum
Sérkröfur: Þarf frjósaman jarðveg, skjól í æsku og hlýtt sumar
Styrkleikar: Tignarlegt tré, viður
Veikleikar: Lítil reynsla

Athugasemdir: Eina hlyntegundin með fjaðurskipt laufblöð og líkist því gjarnan aski frekar en hlyn. Mjög lítið reynd hérlendis en vex m.a. í Klettafjöllunum í allt að 2.500 m hæð og ættu kvæmi af þeim slóðum að eiga möguleika hérlendis