Elritegundir

 

Elri (fræðiheiti: Alnus) er ættkvísl blómplantna af birkiætt (Betulaceae) sem tilheyrir beykiættbálkinum (Fagales). Í elriættkvíslinni eru 20-30 tegundir af trjám og runnum. Elri hefur verið notað sem landgræðsluplanta á Íslandi og lítillega til skrauts í skógrækt.

Elritegundir

Gráelri
Alnus incana

Hæð: Oftast fremur smávaxið tré, allt að 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Misjafnt, frá margstofna tré eða runna til einstofna trés með keilulaga krónu, myndar oft rótarskot
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Sambúð við geislasvepp af ættkvíslinni Frankia, ljóselsk tegund, vex best á lækjarbökkum og síst í lyngmóum
Styrkleikar: Niturbindandi, gott frostþol vor og haust,
Veikleikar: Átusveppir, myndar sjaldan fræ, erfiðleikar í ræktun í gróðrarstöðvum, sjaldnast beinvaxið

Athugasemdir:
Gráelri blómstrar mjög snemma vors og blóm skemmast oft í vorfrostum. Þrátt fyrir það er kal á sprotum mjög sjaldgæft. Bæði norsk og finnsk kvæmi eru vel aðlöguð íslenskum aðstæðum. Lítil notkun í skógrækt orsakast af erfiðleikum við uppeldi í gróðrarstöðvum

Gráelri í Neðstareit í Mörkinni
Hallormsstað.
 

© Þröstur Eysteinsson

Blæelri
Alnus tenuifolia

Hæð: Miðlungsstórt tré, a.m.k. 15 m hérlendis, sennilega enn hærra
Vaxtarlag: Beinvaxið tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hraðvaxnara en gráelri en vex þó hægt í mólendi
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Sambúð við geislasvepp af ættkvíslinni Frankia, ljóselsk tegund
Styrkleikar: Niturbindandi, vex hratt, hugsanlega timburtré
Veikleikar: Lítil reynsla enn sem komið er

Athugasemdir: Blæelri er náskylt gráelri og talið undirtegund þess af sumum flokkunarfræðingum. Verðskuldar meiri notkun í trjá- og skógrækt

 
Blæelri í Múlakoti í Fljótshlíð.

© Þröstur Eysteinsson

Sitkaelri
Alnus sinuata
Grænelri
Alnus viridis
Kjarrelri
Alnus crispa

Hæð:, Runnar eða lágvaxin tré, sjaldan hærri en 5 m
Vaxtarlag: Oftast margstofna runni, myndar kjarr
Vaxtarhraði: Mikill í æsku en fer snemma að blómstra og þá dregur úr vexti
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Ljóselskar tegundir, vaxa best í urðum en mun síður í bleytu
Styrkleikar: Blómstra og bera mikið fræ, góðir landnemar til uppgræðslu urða og mela
Veikleikar: Verða stundum fyrir slæmu kali og drepast þá gjarnan niður að rót, mynda kjarr frekar en skóg

Athugasemdir: Náskyldar tegundir. Sitkaelri og kjarrelri eru af sumum taldar undirtegundir grænelris

 
Sitkaelri á Héraðssandi.

© Þröstur Eysteinsson

Svartelri/
Rauðelri

Alnus glutinosa


Hæð: Miðlungsstórt tré, a.m.k. 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Beinvaxið tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hraðvaxnara en gráelri en vex þó hægt í mólendi
Hvaða landshluta: Sunnanvert landið
Sérkröfur: Sambúð við geislasvepp af ættkvíslinni Frankia, ljóselsk tegund
Styrkleikar: Niturbindandi, vex hratt, hugsanlega timburtré
Veikleikar: Fremur lítil reynsla enn sem komið er, haustkal, mikil afföll

Athugasemdir: Svartelri er víða í görðum en hefur ekki verið notað í skógrækt. Ekki hefur fundist nægilega vel aðlagað kvæmi svartelris, en ekki hefur verið mikið leitað

 

Ryðelri
Alnus rubra

Hæð: Stórvaxnasta elritegundin
Vaxtarlag: Beinvaxið tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hraðvaxta
Hvaða landshluta: Sunnanvert landið
Sérkröfur: Sambúð við geislasvepp af ættkvíslinni Frankia, ljóselsk tegund
Styrkleikar: Niturbindandi, vex hratt, hugsanlega timburtré
Veikleikar: Mjög lítil reynsla

Athugasemdir: Mjög lítil reynsla er af ryðelri á Íslandi en möguleikar virðast vera fyrir hendi á að finna nægilega vel aðlagað kvæmi, a.m.k. fyrir Suðurland. Engin leit er þó í gangi