Eik

 

Eik (fræðiheiti: Quercus) er stórvaxið lauftré af beykiætt (Fagaceae). Um sex hundruð tegundir runna og trjáa teljast þessarar ættar og dreifast þær vítt og breitt um norðurhvel jarðar allt frá hitabeltinu norður til tempraða beltisins. Eikin myndar lítil, hörð aldin, svonefnd akörn, sem eru vinsæl fæða íkorna og villisvína í útlöndum. Eikarviður er harður og endingargóður enda sígildur smíðaviður og var á fyrri öldum aðalhráefnið í smíði stærri báta og skipa. Nú er vinsælt að nota eik í húsgögn, gólfefni og innréttingar, til dæmis. Víða hefur þó verið gengið mjög á eikarskóga, bæði til viðarnytja og annarrar landnýtingar.

Málshátturinn „sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“ vekur gjarnan furðu enda vaxa ekki epli á eikartrjám. Orðið „eik“ má hins vegar nota í almennri merkingu um tré og að sjálfsögðu fellur epli ekki langt frá trénu sem það er af. Algengasta merking málsháttarins er að eitthvað sem um er rætt í fari barns eða unglings megi rekja til móður þess eða föður.


Eik
/Sumareik
/Stilkeik

Quercus robur 

Hæð: Óvíst hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með breiða krónu
Vaxtarhraði: Mjög hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Skjól í æsku
Styrkleikar: Tignarlegt tré, blaðfegurð, viður
Veikleikar: Lítil reynsla af tegundinni

Athugasemdir: Fá eldri eikartré eru til í görðum á Íslandi en á undanförnum árum hafa margir reynt sig við ræktun eikur. Reynslan er sú að eikin er lífseig þótt vöxtur sé hægur og stundum verði haustkal. Á komandi árum verða eikur því æ algengari sjón í görðum landsmanna

Einhver fallegasta eik á Íslandi stendur
við Dalsgerði á Akureyri og óx líklega
upp af fræi sem Jóhann Pálsson
grasafræðingur kom með frá Svíþjóð
um 1980. Myndin er tekin 2014.

© Pétur Halldórsson