Birkitegundir

 

Birki (fræðiheiti Betula) er ættkvísl jurta af birkiætt (Betulaceae) sem vaxa víða um norðurhvel jarðar og tilheyra beykiættbálkinum (Fagales). Birki er skylt elri (önnur orðmynd: ölur) og hesli sem teljast einnig til birkiættar. Birkið er auðþekkt á smágerðu, tenntu laufi og ljósum pappírskenndum berki. Á Íslandi eru tvær birkitegundir innlendar og jafnframt mjög einkennandi fyrir íslenska náttúru: ilmbjörk (birki í daglegu tali) og fjalldrapi. Ilmbjörkin er eina innlenda tré landsins sem myndar skóga. Við landnám er talið að allt að þriðjungur Íslands hafi verið þakinn birkiskógi, jafnvel allt að 40% landsins.

Um birkið segir á veggspjaldi sem Skógrækt ríkisins gaf út 2008 ásamt Hekluskógum og Suðurlandsskógum:

Birkið og birkiskógana má nýta á fjölbreyttan hátt. Ekki er það aðeins viður trjánna sem nýta má til smíða, hitunar, kolagerðar eða reykinga, heldur má nýta börkinn til uppkveikju, birkisafann til lyfja, í vín- eða matargerð og laufið til smyrsla og lyfjagerðar. Skógarnir eru ævintýraheimur út af fyrir sig, hýsa sérstakt lífríki og vernda jarðveg. Skógarnir eru einhver vinsælustu útivistarsvæði hér á landi.

 Birkitegundir

Birki, ilmbjörk
Betula pubescens 

Hæð: Oftast fremur smávaxið tré, 0,5-15 m 
Vaxtarlag: Allt frá kræklóttum margstofna runna upp í beinvaxið tré
Vaxtarhraði: Oftast hægur en getur verið hraður hjá ungum trjám á frjósömu landi
Hvaða landshluta: Um land allt, í allt 500 m hæð
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg til að ná góðum vexti 
Styrkleikar: Vindþolið, frostþolið, lífseigt, fallegir haustlitir, ilmur
Veikleikar: Seinvaxið og smávaxið í rýru landi, oft kræklótt, trjámaðkafaraldrar, birkiryð

Athugasemdir: Útbreiddasta skógartréð á Íslandi en mjög breytilegt í vexti. Kynblöndun við fjalldrapa skýrir kræklótt vaxtarlag og runnkenndan vöxt að stórum hluta

Ilmbjörk í Víðivallaklauf Fnjóskadal.

© Þröstur Eysteinsson


Hengibjörk, vörtubirki
Betula pendula

Hæð: Miðlungs stórt tré, a.m.k. 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Sæmilega beinvaxið með nokkuð breiða krónu og slútandi greinar með aldrinum
Vaxtarhraði: Fremur hægur hjá norðlægum kvæmum 
Hvaða landshluta:  Um land allt
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg og sumarhlýindi til að ná góðum vexti
Styrkleikar: Formfegurð, hvítur börkur, haustlitir
Veikleikar: Oft seinvaxið, vorkal hjá norðlægum kvæmum, oft mikil afföll í æsku, trjámaðkur

Athugasemdir: Leit að góðu hengibjarkarkvæmi fyrir Ísland hefur ekki verið mjög ítarleg og enn hefur ekkert mjög vel aðlagað kvæmi fundist. Leitin heldur þó áfram. Hengibjörk er eitt áhugaverðasta lauftré til frekari notkunar í skógrækt á Íslandi

  Hengibjörk í Neðstareit í Mörkinni á Hallormsstað.

© Þröstur Eysteinsson

Steinbjörk
Betula ermanii

Hæð: Lítið til miðlungs tré, innan við 10 m hérlendis
Vaxtarlag: Með stuttan stofn og breiða krónu, oft kræklótt
Vaxtarhraði: Hægur hérlendis
Hvaða landshluta:  Um land allt
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þarf frjósaman jarðveg og sumarhlýindi
Styrkleikar: Hrjúfur börkur, haustlitir, myndar góða kynblendinga við ilmbjörk
Veikleikar: Illa aðlagað íslensku loftslagi, aðeins fá tré til hérlendis

Athugasemdir: Steinbjörk er trjásafnstegund hérlendis en hvorki hæf til notkunar í skógrækt né almennri garðrækt sökum skorts á aðlögun að hafrænu loftslagi. Upp af fræi af steinbjörk í Múlakoti vaxa þó falleg og vel aðlöguð tré sem eru blendingar steinbjarkar og ilmbjarkar

  Steinbjörk í Múlakoti Fljótshlíð.

© Þröstur Eysteinsson

Rit:

  • Kenneth Ashburner og Hugh A. McAllister, 2013. The Genus Betula, A taxonomic revision of birches. Kew Publishing
  • Birkiveggspjald Skógræktar ríkisins, Hekluskóga og Suðurlandsskóga