Askur

 

Askur (fræðiheiti: Fraxinus) er ættkvísl blómstrandi trjáa af smjörviðarætt (Oleaceae) en af sömu ætt eru líka sýrenur (Syringa) og ólívutré (Olea). Asktegundir eiga heimkynni suður um Evrópu frá Noregi og allt austur í Asíu en einnig í Norður-Ameríku. Til ættkvíslarinnar teljast 45-65 tegundir runna og trjáa sem flest eru sumargræn en syðst á útbreiðslusvæðinu finnast sígrænar asktegundir. Sú tegund sem gengur undir heitinu askur verður allt að 40 m há í heimkynnum sínum og hefur breiða krónu. Börkurinn er ljós og dökk brumin verða því mjög áberandi að vetrinum, sérstaklega endabrumin. Blöðin eru stakfjöðruð og minna í fljótu bragði á blöð reyniviðar þótt tegundirnar séu óskyldar.

Askur
Fraxinus excelsior 

Hæð: A.m.k. 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með fremur mjóa krónu
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Einkum á sunnanverðu landinu
Sérkröfur: Þarf rakan og frjósaman jarðveg, gott skjól og langt sumar
Styrkleikar: Blaðfegurð, viður
Veikleikar: Mjög viðkvæmur fyrir næturfrostum á vaxtartímanum. Lítil reynsla af tegundinni

Athugasemdir: Askur ættaður frá Leksvík í Noregi hefur náð góðum þroska í Múlakoti og á Tumastöðum og þroskar þar fræ flest árin. Leksvík er norðlægasti náttúrlegi vaxtarstaður asks og því ósennilegt að harðgerðari efniviður finnist.


Asktré á Tumastöðum í Fljótshlíð.

© Þröstur Eysteinsson