Þintegundir

 

Grein af fjallaþin í Vaglaskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.

Þinur (fræðiheiti: Abies) er flokkur sígrænna barrtrjáa af þallarætt (Pinaceae). Þinættkvíslin tilheyrir barrskógabeltinu og fjöllum norðurhvels jarðar svipað og greni og lerki en nokkrar tegundir ná þó suður í tempraða beltið. Af um 49 þintegundum hafa þrjár tegundir sem við þekkjum vel langmesta útbreiðslu; síberíuþinur, balsamþinur og fjallaþinur. Aðrar þintegundir eru bundnar við takmarkaðri svæði í fjöllum. Sumar eru mjög sjaldgæfar, enda hafa þær orðið innlyksa hátt í fjöllum á suðlægum slóðum þegar hlýnaði í lok ísaldar.

Nokkrar þintegundir í vestanverðri Norður-Ameríku eru meðal stórvöxnustu trjáa heims. Það er ekki síst stofninn sem getur orðið mjög gildur og á það í raun við um alla þini. Við góð skilyrði geta þinir vaxið mjög hratt. Af því leiðir að viðurinn er oftast léttur og ekki ykja sterkur. Hann þykir helst góður til framleiðslu á pappír. Að öðru leyti eru þinir falleg tré, regluleg í laginu með mjúkar nálar og ilma vel. Þinir eru vinsælir bæði sem jólatré og garðtré víða um heim.

Allar þintegundir eru skuggþolnar í æsku, aðlagaðar því að lifa í skógarbotni og bíða tækifæris til vaxtar þegar einhver röskun fellir stærri tré. Þeir hafa svokallað æskubarr sem nýtir lága birtu vel en er ekki vel varið gagnvart vindi og þurrki. Því þola ungplöntur illa við á berangri hér á landi og það getur tekið áratug eða meira áður en plönturnar fara að mynda harðgerðari nálar fullorðinna trjáa. Þar sem okkar skógrækt fæst einkum við að koma skógi til á skóglausu landi hafa þinir tiltölulega litlu hlutverki að gegna, a.m.k. þar til kemur að annarri kynslóð trjáa.

ÞintegundirFjallaþinur
Abies lasiocarpa

Hæð: Miðlungsstórt tré, allt að 20 m hérlendis
Vaxtarlag: Beinvaxið, einstofna tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur í fyrstu en síðan miðlungshraður
Hvaða landshluta: Einkum í innsveitum
Sérkröfur: Þarf skjól í æsku, helst skerm hávaxnari trjáa, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Skuggþolin tegund, gott frostþol, formfegurð, jólatré
Veikleikar: Þináta, toppar brotna af í hvassviðri, ekki frumherjategund

Athugasemdir: Nokkrar vonir eru bundnar við fjallaþin sem jólatré. Nú er unnið að kvæmavali og fyrirhugaðar eru kynbætur á fjallaþin í þeim tilgangi að finna erfðafræðilegan efnivið sem gefur örugg og góð jólatré

  Um 15 m háir fjallaþinir í Mörkinni
á Hallormsstað. Myndin sýnir
skemmtilegan mun á formi.

© Þröstur Eysteinsson

Balsamþinur
Abies balsamea

Hæð: Fremur smávaxið tré, e.t.v. um 10 m hérlendis
Vaxtarlag: Beinvaxið, einstofna tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Einkum í innsveitum
Sérkröfur: Þarf skjól í æsku, helst skerm hávaxnari trjáa, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Skuggþolin tegund, formfegurð,
Veikleikar: Lítil reynsla, ekki frumherjategund

Athugasemdir: Balsamþinur er náskyldur fjallaþin og telja sumir flokkunarfræðingar fjallaþin vera undirtegund balsamþins. Balsamþinur er frá austanverðri Kanada og er ekki eins vel aðlagaður hafrænu loftslagi og fjallaþinur. Gróðursetning hans hefur almennt tekist illa hérlendis en þó er sæmilegur lundur í Vaglaskógi

Balsamþinur í Vaglaskógi, krónumjór
en ágætlega beinvaxinn.

© Þröstur Eysteinsson

Síberíuþinur
Abies sibirica

Hæð: Fremur smávaxið tré, um 10 m hérlendis
Vaxtarlag: Beinvaxið, einstofna tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Einkum í innsveitum
Sérkröfur: Þarf skjól í æsku, helst skerm hávaxnari trjáa, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Skuggþolin tegund, formfegurð.
Veikleikar: Þináta, kal, ekki frumherjategund

Athugasemdir: Síberíuþinur var meðal fyrstu tegunda sem reyndar voru í skógrækt á Íslandi og eru rúmlega hundrað ára gömul eintök bæði í Grundarreit og Furulundinum á Þingvöllum. Afföll vegna þinátu eru ávallt mikil

Rúmlega aldargamall síberíuþinur í
Grundarreit, líklega sá fallegasti
á landinu.

© Þröstur Eysteinsson

Hvítþinur
Abies concolor

Hæð: Stórvaxið tré í heimkynnum sínum, e.t.v. um 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Kræklótt tré með breiða krónu og langar nálar
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Einkum um sunnanvert landið
Sérkröfur: Þarf skjól í æsku, helst skerm hávaxnari trjáa, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Skuggþolin tegund.
Veikleikar: Haustkal, ekki frumherjategund

Athugasemdir: Hvítþinur sem hér hefur verið reyndur er sennilega úr of lítilli hæð í Klettafjöllunum, kelur flest haustin og verður því kræklóttur

Hvítþinur í Hallormsstaðaskógi, óvenju
beinvaxinn og lítið skemmdur.

© Þröstur Eysteinsson

Nordmannsþinur
Abies nordmanniana

Hæð: Stórvaxið tré í heimkynnum sínum, óvíst með hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með breiða, keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur hérlendis
Hvaða landshluta: Einkum um sunnanvert landið
Sérkröfur: Þarf skjól í æsku, helst skerm hávaxnari trjáa, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Skuggþolin tegund.
Veikleikar: Haustkal, ekki frumherjategund

Athugasemdir: Nordmannsþinur er jólatréð sem mest er flutt inn og því sá þinur sem hvað flestir Íslendingar kannast best við. Hann er almennt of suðlægur fyrir okkar skógrækt en örfá tré eru að komast á legg, t.d. á Mógilsá og Stálpastöðum

Nordmannsþinur á Stálpastöðum í
Skorradal vex í skjóli suður undir
kletti og undir skermi aspa og víðis.

© Þröstur Eysteinsson