Lífviðar- og sýpristegundir

 

Sýprisætt

Flest barrtré sem ræktuð eru á Íslandi tilheyra ættinni Pinaceae, sem kölluð er þallarætt á íslensku en er kennd við furu í flestum öðrum löndum. Örfáar tegundir sýprissættar (fræðiheiti: Cupressaceae) finnast hér einnig, þ.á m. okkar eina innlenda barrviðartegund, einir. Báðar eru þessar ættir barrtrjáa tegundamargar og tilheyra flestar barrviðartegundir á norðurhveli jarðar annarri hvorri þeirra. Segja má að þallarættin sé einkennandi fyrir norðurslóðir en að nokkrar tegundir finnist sunnar, á meðan sýprisættin tilheyri yfirleitt heitara loftslagi en nokkrar tegundir finnist norðar. Sýprissætt á einnig nokkra fulltrúa á suðurhveli sem þallarætt á ekki.

Stærstu tré heims (risafurur og strandrauðviður) tilheyra sýprisætt en einnig dvergrunnar (dverglífviður, fræðiheiti: Microbiota decussata). Sumar tegundir vaxa í vatni (t.d. fenjasýpris) en aðrar í þurrkeyðimörkum (sumar einitegundir). Einkennandi er fyrir þessa ætt að viðurinn fúnar eiginlega ekki. Miðað við fjölda tegunda hafa fáar þeirra reynst harðgerðar hérlendis, en það stafar e.t.v. að einhverju leyti af því að þær hafa lítið verið prófaðar.

Lífviðarættkvíslinni (fræðiheiti: Thuja) tilheyra fimm tegundir. Tvær eru upp runnar í Norður-Ameríku en þrjár í Austur-Asíu. Sýprisættkvíslinni (fræðiheiti: Cupressus) tilheyra 16-30 tegundir en flokkunarfræðin er nokkuð á reiki. Jafnvel er talið að skipta ætti þessari ættkvísl upp í tvær, aðra með tegundum kenndum við gamla heiminn en hinum með tegundum kenndum við nýja heiminn. Til einisættar (fræðiheiti: Juniperus) teljast 50-67 tegundir sem dreifast vítt og breitt um norðurhvel jarðar allt frá heimskautasvæðunum í norðri suður til hitabeltislanda Afríku og fjalla Mið-Ameríku.

Tegundir lífviðar, sýpris og einis

Risalífviður
Thuja plicata

Hæð: Stór tré, óvíst um hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxin tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur í æsku en síðan hraður
Hvaða landshluta: A.m.k. í innsveitum á A-landi
Sérkröfur: Þarf að vera undir trjáskermi í æsku, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Mjög skuggþolinn, langlífur, verðmætur viður, geysilega falleg tré
Veikleikar: Viðkvæmur á unga aldri, þarf algjört skjól

Athugasemdir: Eftir hæga byrjun eru nokkrir rísalífviðir nú komnir í góðan vöxt við Jökullæk í Hallormsstaðaakógi. Þeir þroska fræ og afkomendur þeirra eru til á nokkrum stöðum

Risalífviður við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi.

© Þröstur Eysteinsson

Kóreulífviður
Thuja koraiensis

Hæð: Smávaxin tré, óvíst um hæð hérlendis
Vaxtarlag: Runni í fyrstu, síðan beinvaxið tré
Vaxtarhraði: Afar hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Þarf gott skjól, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Mjög skuggþolinn, langlífur
Veikleikar: Viðkvæmur á unga aldri, þarf algjört skjól

Athugasemdir: Kóreulífviður hefur vaxið í Hallormsstaðaskógi í 60 ár, er lífseigur en flestar hríslurnar eru enn á runnastiginu. Þær þroska fræ og afkomendur þeirra eru til á nokkrum stöðum

  Kóreulífviður (mynd af Wikipedia-vefnum).

© Crusier

Alaskasýpris
Cupressus
nootkatensis

Hæð: Stór tré, óvíst um hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxin tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur í æsku en síðan hraður
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Þarf að vera undir trjáskermi í æsku, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Mjög skuggþolinn, langlífur, verðmætur viður, falleg tré
Veikleikar: Viðkvæmur á unga aldri, þarf algjört skjól
 

Athugasemdir: Flokkunarfræðingar hafa átt erfitt með að ákveða hvaða ættkvísl alaskasýpris ætti helst að tilheyra en niðurstöður erfðagreiningar benda til þess að hann sé eiginlegur sýpris og eigi því heima í ættkvíslinni Cupressus

  Alaskasýpris á Stálpastöðum Skorradal.

© Þröstur Eysteinsson

Einir
Juniperus communis

Hæð: Mest um 2 m hérlendis
Vaxtarlag: Runni, skriðull á berangri en oft með uppsveigðar greinar í skóglendi
Vaxtarhraði: Afar hægur
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Engar, vex við mjög misjöfn skilyrði
Styrkleikar: Harðger, sáir sér með aðstoð fugla
Veikleikar: Hægur vöxtur

Athugasemdir: Auðvelt er að fjölga eini með fræjum eða sumargræðlingum, en garðplöntusalar hafa lítið gert af því. Í staðinn hefur skyld tegund, himalajaeinir (Juniperus squamata), innflutt sem pottaplöntur frá Hollandi, helst verið í boði og þar með mest notaði einirinn í garðrækt. Ýmsir hafa reynt að rækta uppréttan eini frá Skandinavíu (sama tegund og okkar en annað vaxtarform), en það hefur oftast tekist illa

  Tveggja metra hár einir í þjóðskóginum
á Belgsá í Fnjóskadal.

© Þröstur Eysteinsson