Lerkitegundir

 

Grænt og fallegt lerki ræktað á mjög rýrum mel á Hálsmelum í Fnjóskadal. Mynd: Þröstur Eysteinsson.

Lerki (fræðiheiti: Larix), áður kallað lævirkjatré eða barrfellir, er sumargrænt barrtré sem vex í barrskógabeltinu á norðurhveli eða til fjalla á suðlægari slóðum. Til ættkvíslarinnar teljast 10-15 tegundir en lerki er af þallarætt (Pinaceae) og ættbálkinum Pinales. Dáríulerki (Larix gmelinii) er mjög ráðandi í barrskógum  í austanverðri Síberíu, myndar þar víðáttumestu skóga heims og er þar með ein algengasta trjátegund jarðar. Annars staðar eru lerkitegundir yfirleitt þáttur í skógum þar sem greni eða furutegundir ríkja.

Engin lerkitegund er ættuð úr mjög hafrænu loftslagi og því skortir nokkuð á að þær séu aðlagaðar íslensku veðurfari. Hins vegar virðast þær kunna mjög vel við íslenska eldfjallajarðveginn og vaxa því betur í rýru landi en aðrar ættkvíslir trjáa. Síberíulerki (Larix sibirica) hefur frá því snemma á 20. öld verið notað til skógræktar á Íslandi. Rússalerki (Larix sukaczewii), náskylt síberíulerki eða afbrigði af sömu tegund, hefur mestmegnis tekið við af því frá um 1980 en síberíulerkið er viðkvæmara fyrir íslensku loftslagi og sjúkdómum. Rússalerki er nú eitt algengasta skógræktartré á Íslandi og hefur náð yfir 23 metra hæð. Evrópulerki (Larix decidua) hefur einnig verið notað á Íslandi. Tré af þeirri tegund gróðursett snemma á 20 öld hafa tvisvar verið útnefnd tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands.

Elstu eintök lerkis sem vitað er um á Íslandi eru í Mörkinni Hallormsstað, sáð um 1904. Einnig eru um aldargömul tré í Skrúði í Dýrafirði, Vaglaskógi, Grundarreit í Eyjafirði og á Akureyri. Evrópulerki verður oft kræklótt og bugðótt hér á landi og með stóra krónu. Þannig getur það orðið svipmikið garðtré. Blendingur af evrópulerki og rússalerki, Hrymur, hefur verið þróaður hjá Skógrækt ríkisins. Um 10 til 14 tegundir eru í ættkvíslinni eftir því hvernig á er litið (Wikipedia).

Lerkitegundir

Rússalerki
Larix sukaczewii

Hæð: Stórt tré, a.m.k 30 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, fremur beinvaxið tré með mjóa krónu
Vaxtarhraði: Hraður í æsku en dregur úr vexti með aldrinum
Hvaða landshluta: Einkum á N- og A-landi
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, ungplöntur þola illa samkeppni við gras
Styrkleikar: Vex betur í rýrum jarðvegi en aðrar tegundir, viður
Veikleikar: Vorkal

Athugasemdir: Vorkal eftir vetrarhlýindi veldur stundum skemmdum og vaxtartapi hjá rússalerki. Eftir því sem loftslag hlýnar er líklegt að slíkar skemmdir verði tíðari. Enn um sinn verður rússalerki þó besta tegundin sem völ er á til að rækta í rýru landi á N- og A-landi


Reitur með rússalerkikvæminu Raivola á Atlavíkurstekk í Hallormsstaðaskógi, fallegastur meðal eldri lerkilunda

© Þröstur Eysteinsson

Evrópulerki
Larix decidua

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 30 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré, oft kræklótt eða bugðótt, með misbreiða krónu
Vaxtarhraði: Hraður í æsku og helst góður lengur en hjá rússalerki
Hvaða landshluta: Einkum á S- og V-landi
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Frostþol að vori, vex vel í rýrum jarðvegi, viður
Veikleikar: Haustkal og krækluvöxtur í kjölfarið

Athugasemdir: Hugsanlegt er að evrópulerki taki við af rússalerki sem helsta lerkitegundin í ræktun á Íslandi þegar hlýnar og sumur lengjast. Tími þess er þó ekki kominn og verður varla fyrr en októbernámuður er orðinn nokkuð örugglega frostlaus

 
Eitthvert fallegasta evrópulerkitré
á landinu er við Helgamagrastræti 5 á Akureyri

© Þröstur Eysteinsson

'Hrymur'
(Evrópu- x rússalerki)

Hæð: Stórt tré, óvíst með endanlega hæð
Vaxtarlag: Beinvaxið tré með miðlungsbreiða krónu
Vaxtarhraði: Mjög mikill í æsku
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Vex ótrúlega hratt í rýrum jarðvegi, gott frostþol vor og haust
Veikleikar: Ekki löng reynsla af blendingnum en lofar mjög góðu, ekki síst á svæðum á S- og V-landi þar sem rússalerki þrífst illa

Athugasemdir: Hrymur er útkoma rúmlega 20 ára kynbótastarfs á vegum Skógræktar ríkisins. Nú er áhersla á að auka fræframleiðslu og freista þess að koma Hrym í meiri notkun 

 
'Hrymur' í Múlakoti Fljótshlíð. 

© Þröstur Eysteinsson

Mýralerki
Larix laricina

Hæð: Fremur lítið tré, allt að 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með mjóa, óreglulega krónu
Vaxtarhraði: Lítill
Hvaða landshluta: Einkum um norðanvert landið, gæti hentað í meiri hæð y.s. en flestar tegundir
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, vex ekki vel í mýrum þrátt fyrir nafnið
Styrkleikar: Gott frostþol vor og haust, þolir stutt og svalt sumar, viður
Veikleikar: Hægur vöxtur

Athugasemdir: Mýralerki vex hægt en nokkuð örugglega. Kjarnviðurinn er oft fallega rauður og getur mýralerki því hugsanlega framleitt verðmætan við þótt það taki sinn tíma

 Mýralerki í trjásafninu í Vaglaskógi, elsta mýralerki landsins, gróðursett 1954.

© Þröstur Eysteinsson

Fjallalerki
Larix lyallii

Hæð: Stórvaxið tré en óvíst með endanlega hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með mjóa, óreglulega krónu
Vaxtarhraði: Lítill
Hvaða landshluta: víða um land
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, þolir afar illa samkeppni við annan gróður
Styrkleikar: Gott frostþol allt árið, mjög beinvaxið
Veikleikar: hægur vöxtur, nálasjúkdómar, erfitt að kaupa fræ.

Athugasemdir:  Fjallalerki hefur ekki hraðan æskuvöxt eins og flestar aðrar lerkitegundir og er því ekki duglegt að komast upp úr samkeppnisgróðri. Það hentar því best í rofnu landi

 Fjallalerki í brekkunni ofan við Háls í Kjós. Hjá stendur Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins.

© Þröstur Eysteinsson

Risalerki
Larix occidentalis

Hæð: Mjög stórt tré, stórvaxnast lerkitegunda, en óvíst með hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með mjóa, reglulega krónu
Vaxtarhraði: Mikill í æsku
Hvaða landshluta: Í innsveitum
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Mjög beinvaxið, verðmætur viður
Veikleikar: Haustkal, nálasjúkdómar, barrviðaráta, lítil reynsla

Athugasemdir: Risalerki hefur svipaða aðlögun að veðurfari og evrópulerki, þ.e. vex yfirleitt of lengi fram eftir hausti, en er mun beinvaxnara þrátt fyrir það. Virðist þó vera viðkvæmt fyrir bæði nála- og átusjúkdómum hérlendis, sem evrópulerki er ekki


Risalerki í kvæmatilraun á Höfða á
Völlum Héraði.

© Þröstur Eysteinsson

Síberíulerki
Larix sibirica 

Hæð: Stórt tré, allt að 20 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með mjóa krónu
Vaxtarhraði: Hraður í æsku en dregur úr honum með aldrinum
Hvaða landshluta: Helst í innsveitum á Norður- og Austurlandi
Sérkröfur: Ljóselsk tegund,
Styrkleikar: viður
Veikleikar: Vorkal, barrviðaráta

Athugasemdir: Mikið gróðursett á árunum 1950-1990 en nánast ekkert síðan. Þótt ekki séu allir sammála um að munurinn á rússalerki og síberíulerki sé nægur til að réttlæta aðskilnað í tvær tegundir þá er munurinn á aðlögun svo mikill að rússalerki er ein megintegunda í íslenskri skógrækt en á síberíulerki höfum við gefist upp

Síberíulerki á Hafursá á Völlum
Héraði. 

© Þröstur Eysteinsson

Dáríulerki
Larix gmelini
Kajanderlerki
Larix cajanderi

Hæð: fremur lítið tré, allt að 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með mjóa, óreglulega krónu
Vaxtarhraði: Lítill
Hvaða landshluta: Einkum í innsveitum um norðanvert landið
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Sérstakt vaxtarlag sumra kvæma
Veikleikar: vorkal nánast á hverju vori, hægur vöxtur

Athugasemdir: Kajanderlerki, olguflóalerki, prins rúprektslerki, kúríleyjalerki o.fl. „tegundir“ frá austasta hluta Norður-Asíu eru svipaðar og af flestum taldar undirtegundir dáríulerkis. Engin þeirra er nægilega vel aðlöguð vetrarhlýindum til að geta þrifist vel hérlendis. Þó hefur dáríulerki ættað frá Sjakalíneyju (eða blendingar þess við aðrar lerkitegundir) náð nokkrum þroska

Dáríulerki í Hallormsstaðaskógi ættað frá Sjakalíneyju.

© Þröstur Eysteinsson

Japanslerki
Larix kaempferi
(leptolepis)

Hæð: Stórt tré en óvíst með hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með breiða krónu
Vaxtarhraði: Mikill í æsku en einnig mikið kal
Hvaða landshluta: Einkum syðst á landinu
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Engir hérlendis
Veikleikar: Mikið haustkal og því  hægur vöxtur
Athugasemdir: Japanslerki er á mörkum þess að get tórt hér á landi. Það er af of suðlægum uppruna og vex allt of lengi frameftir hausti 

 

Sifjalerki
Larix x eurolepis 
(blendingur japanslerkis og evrópulerkis)

Hæð: Stórt tré en óvíst með hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með breiða krónu, kræklótt hérlendis
Vaxtarhraði: Mikill í æsku en einnig mikið kal
Hvaða landshluta: Einkum á sunnanverðu landinu
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Verður „skúlptúr“
Veikleikar: Mikið haustkal

Athugasemdir: Aðeins betur aðlagað en japanslerki og hafa nokkur tré náð þroska hérlendis

Sifjalerki í Elliðaárhólma í Reykjavík

© Þröstur Eysteinsson