Grenitegundir

 

Greniskógur í Þjórsárdal. Mynd: Pétur Halldórsson.

Greni (fræðiheiti: Picea) er ættkvísl um 35 tegunda sígrænna barrtrjáa af þallarætt (Pinaceae). Grenitegundir vaxa í norðanverðu tempraða beltinu og barrskógabeltinu. Grenitré eru yfirleitt stór tré og verða að jafnaði 20-60 metra há fullvaxin. Þau hafa einkennandi keilulaga vaxtarlag og kransstæðar greinar. Lauf grenitrjáa eins og annarra barrtrjáa nefnast barr eða barrnálar. Á greni sitja nálarnar stakar á greinunum en ekki í knippum. Nálarnar detta af þegar þær eru 4-10 ára gamlar og þá verða eftir nálasætin sem nálarnar sitja í á greinunum. Þessi nálasæti gera berar greinarnar hrjúfar viðkomu sem er séreinkenni grenitrjáa og nýtist vel til að þekkja greni frá öðrum ættkvíslum. Nánari upplýsingar um greiningu grenitrjáa frá öðrum barrtrjám má finna hér.

Fjórar grenitegundir hafa verið gróðursettar í umtalsverðu magni á Íslandi: Sitkagreni (Picea sitchensis), rauðgreni (Picea abies), blágreni (Picea engelmannii) og hvítgreni (Picea glauca). Auk þeirra hefur allmikið verið gróðursett af blendingi sitkagrenis og hvítgrenis, svokölluðum sitkabastarði (Picea x lutzii). Allar þessar tegundir hafa þroskað fræ hér á landi en í mismiklu magni. Sitkagreni þroskar oftast fræ, í miklu magni um það bil einu sinni á áratug. Rauðgreni og sitkabastarður þroska sjaldnar fræ og fremur sjaldgæft er að blágreni og hvítgreni blómstri og þroski fræ. Tíðni sjálfsáningar fylgir tíðni fræmyndunar. Sjálfsáð sitkagreni hefur fundist á nokkrum stöðum á landinu en rauðgreni og sitkabastarður finnast óvíða sjálfsáð og ekki er vitað til þess að sjálfsáð blágreni eða hvítgreni hafi fundist hérlendis enn sem komið er.

Grenitegundir eru meðal mikilvægustu timburtrjáa heims og mynda oft uppistöðuna í hinum víðfeðmu skógum barrskógabeltisins. Grenitré eru oftast beivaxin og formfögur auk þess að vera sígræn, gagnstætt t.d. birki. Sumir segja því að þeim finnist greni „ekki eiga heima í íslensku landslagi“. Á hinn bóginn má allt eins segja að greni minni á regluleg og keilulaga eldfjöll sem vissulega eiga hér heima. Burtséð frá mismunandi smekk fólks, þá er greni komið til að vera sem mikilvægur þáttur í íslenskri skógrækt.

Allar grenitegundir þurfa frjósamara land en t.d. flestar furu- eða lerkitegundir og engin þeirra er frostþolin að sumri. Þess vegna þarf að vanda vel til landvals fyrir greni; velja brekkur frekar en flatlendi og forðast rýra lyngmóa. Sitka-, hvít- og blágreni þola sæmilega að vera gróðursett í opið land en rauðgreni þarf gott skjól í æsku, helst skerm hávaxnari trjáa.  

Grenitegundir

Sitkagreni
Picea sitchensis

Hæð: Mjög stórt tré, mun ná a.m.k. 40 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með breiða, keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur í fyrstu en síðan hraður eða mjög hraður áratugum saman
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Forðast að planta í frostpolla og rýra lyngmóa
Styrkleikar: Gott vind- og saltþol, gott frostþol að vori, timbur
Veikleikar: Haustkal í æsku, sitkalús,

Athugasemdir: Sitkagreni er ein af uppistöðutegundunum í íslenskri skógrækt og verður eitt helsta skógartré landsins í framtíðinni

Einstaklega formfagurt sitkagreni í Svartagili í Haukadal.

© Þröstur Eysteinsson

Sitkabastarður
Picea lutzii

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 25 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur í fyrstu en síðan hraður
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur:  Forðast að planta í frostpolla og rýra lyngmóa
Styrkleikar: Gott vind- og saltþol, betra frostþol að hausti en sitkagreni, viður
Veikleikar: Sitkalús

Athugasemdir: Oft er mikill breytileiki í því sem við köllum sitkabastarð – allt frá því að vera nánast hreint hvítgreni yfir í nánast hreint sitkagreni

  Nýgrisjaður Sitkabastarður í Skálamel við Húsavík, ættaður frá Lawing í Alaska.

© Þröstur Eysteinsson

Rauðgreni
Picea abies

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 25 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með fremur mjóa, keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Einkum í innsveitum
Sérkröfur: Skjól í æsku, ekki gróðursetja í lyngmóa
Styrkleikar: Gott frostþol vor og haust, viður, jólatré
Veikleikar: Köngulingur, lítið vind- og saltþol

Athugasemdir: Rauðgreni frá Norður-Noregi var mikið gróðursett á Íslandi frá 1950 og fram yfir 1970 en minna síðan. Það vex mjög hægt. Kvæmi frá Suður-Noregi vaxa betur..

  Rauðgreni í Vaglaskógi. Rauðgreni með hangandi hliðargreinar er kallað kambgreni.

© Þröstur Eysteinsson

Blágreni
Picea engelmannii

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 25 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með fremur mjóa, keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Oftast fremur lítill
Hvaða landshluta: Víða um land, síst í lágsveitum á S- og V-landi
Sérkröfur: Ekki gróðursetja í rýra lyngmóa
Styrkleikar: Sæmilegt frostþol, formfegurð, jólatré, blátt barr
Veikleikar: Sitkalús

Athugasemdir: Blágreni er snoturt tré en heldur hægvaxta fyrir timburframleiðslu og oft helst til krónumjótt sem jólatré. Gott garðtré.

  „Drottningin“ , blágreni í Mörkinni á Hallormsstað. Tré gróðursett af Christian Flensborg árið 1905, lengi hæsta tréð á Íslandi.

© Þröstur Eysteinsson

Hvítgreni
Picea glauca

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 25 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með mjóa, keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur í fyrstu en síðan sæmilega hraður
Hvaða landshluta: Einkum í innsveitum
Sérkröfur: Ekki gróðursetja í rýra lyngmóa
Styrkleikar: Gott frostþol að hausti, gott vindþol
Veikleikar: Sitkalús, ekki eins vel frostþolið að vori eins og sitkagreni eða rauðgreni.

Athugasemdir: Líkt og rauðgreni og blágreni er hvítgreni ágætis tegund fyrir íslenska skógrækt en fellur í skugga sitkagrenis vegna hægari vaxtar

Hvítgreni fyrir ofan gamla bæinn í Jórvík í Breiðdal, ættað frá Kenai-skaga í Alaska.

© Þröstur Eysteinsson

Svartgreni
Picea mariana 

Hæð: Fremur lítið tré, allt að 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með mjóa krónu
Vaxtarhraði: Mjög hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Ekki gróðursetja í rýra lyngmóa
Styrkleikar: Gott frostþol, þolir blautan jarðveg
Veikleikar: Hægur vöxtur, lítil reynsla

Athugasemdir: Hægur vöxtur veldur því að lítill áhugi hefur verið á að gróðursetja svartgreni, þótt harðgert sé. Kvæmi frá Klettafjöllum vaxa hraðar en kvæmi frá Alaska en engin kerfisbundin kvæmaleit hefur farið fram

  Svartgreni í Hallormsstaðaskógi, ættað frá Alaska.

© Þröstur Eysteinsson

Broddgreni
Picea pungens

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 20 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með breiða krónu
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Innsveitir á N- og A-landi
Sérkröfur: Ekki gróðursetja í rýra lyngmóa
Styrkleikar: Blátt barr
Veikleikar: Hægur vöxtur, sprotadauði vegna sjúkdóms

Athugasemdir:
Allmikið var gróðursett af broddgreni á 6. og 7. áratug síðustu aldar. Flest trén drápust en til eru nokkrir einstaklingar sem náð hafa góðum þroska. Íslenska sumarið er líklega of svalt fyrir broddgreni. Ekki er hægt að mæla með ræktun þess

  Broddgreni í Hallormsstaðaskógi, í raun það eina sem náð hefur sæmilegum þroska hér á landi.

© Þröstur Eysteinsson