Furutegundir

 

Þráðbeinar sjálfsánar stafafurur innan um eldri tré á Miðhálsstöðum í Öxnadal. Mynd: Pétur Halldórsson.

Furur (fræðiheiti: Pinus) kallast ættkvísl sígrænna barrtrjáa af þallarætt (Pinaceae). Misjafnt er eftir höfundum hversu margar tegundir eru taldar til ættkvíslarinnar en þær eru á bilinu frá 105 til 125.

Furutré eru upprunnin á norðurhveli jarðar en hafa verið ræktuð um allan heim og eru meðal mikilvægustu nytjatrjáa. Þær eru aðlagaðar misjöfnu loftslagi og finnast m.a. á köldustu stöðum í norðanverðri Síberíu og Kanada, í tempruðum regnskógum, gresjum og eyðimörkum í vestanverðri N-Ameríku, við Miðjarðarhaf, í heittempruðu loftslagi í SA-Bandaríkjunum og Kína, í hitabeltisloftslagi í Mið-Ameríku, Karíbahafi og Víetnam og víða hátt til fjalla. Þetta eru sígræn tré með þykkan börk og innihalda mikið af trjákvoðu. Nálarnar eru langar og vaxa í knippum umhverfis sprota. Furur flokkast í tveggja og fimm nála furur eftir því hversu margar nálar eru í knippi (Wikipedia), en sumar tveggja nála furur eru með þrjár eða jafnvel fjórar nálar í knippi og sumar fimm nála furur eru með fjórar, þrjár eða aðeins eina nál í knippi. 

Furutegundir

Stafafura
Pinus contorta

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 30 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með misbreiða krónu, tvær eða þrjár nálar í knippi
Vaxtarhraði: Lítill í fyrstu en síðan allhraður
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Passa upp á rótarkerfið, ljóselsk tegund
Styrkleikar: Gott frost- og vindþol, vex sæmilega í rýrum jarðvegi, mikil framleiðni, sjálfsáning, jólatré
Veikleikar: Rótarkerfið nær sér illa ef það hefur einu sinni aflagast og trén verða völt eða sveigð, nálakal, snjóbrot, grófar greinar á mest notaða kvæminu (Skagway) 

Athugasemdir: Stafafura er réttilega ein aðaltegundin í íslenskri skógrækt og er, ásamt rússalerki, ein besta frumherjategundin á rýru landi 


Fyrsta stafafuran á Íslandi,
á Hallormsstað.

© Þröstur Eysteinsson

Lindifura
Pinus sibirica

og

Sembrafura
Pinus cembra

Hæð: Miðlungs stórt tré, a.m.k. 20 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með breiða, keilulaga krónu, fimm nálar í knippi
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Víða um land, síst þó í lágsveitum á S- og V-landi
Sérkröfur: Miðlungs skuggþolin í æsku en þarf svo fulla birtu.
Styrkleikar: Afar formfagurt tré, gott frostþol, viður, sjálfsáning
Veikleikar: Hægur vöxtur, næmi fyrir sveppsjúkdómnum furubikar eða furugremi (Gremmeniella abietina)

Athugasemdir: Lindifura og sembrafura eru náskyldar og nauðalíkar tegundir. Engin sérstök ástæða virðist vera til að greina á milli þeirra í íslenskri skógrækt. Lítið gróðursett lengst af en gróðursetning hefur verið talsverð frá aldamótum. Skemmdir af völdum furubikars virðast vera að aukast á SV-landi

  Lindifura á Hallormsstað, tré ársins
2007 hjá Skógræktarfélagi Íslands.

© Þröstur Eysteinsson

Bergfura
Pinus uncinata

Hæð: Fremur smávaxið tré, allt að 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Oftast marggreinótt tré með breiða krónu, tvær nálar í knippi
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Víða um land,  ekki á snjóþungum svæðum
Sérkröfur: Ljóselsk tegund, nýtur sín best ef hvert tré fær gott rými
Styrkleikar: Mjög vindþolið, gott frost- og seltuþol
Veikleikar:  Hægur vöxtur, næmi fyrir sveppsjúkdómnum furubikar eða furugremi  (Gremmeniella abietina)

Athugasemdir: Bergfuru ætti einkum að nota sem landgræðslutegund á sandsvæðum og sem garðtré. Mikil viðkvæmni fyrir furubikar útilokar tegundina frá notkun í almennri skógrækt nema sem frumherja eða fóstru fyrir aðrar tegundir

  Rúmlega aldargömul bergfura
í Grundarreit Eyjafirði.

© Þröstur Eysteinsson

Fjallafura
/dvergfura

Pinus mugo 

Hæð: Runni eða smávaxið tré, sjaldnast hærri en 5 m hérlendis Vaxtarlag: Mjög breytilegt, marggreinóttur runni eða einstofna kræklótt tré, tvær nálar í knippi
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Mjög vindþolið, gott frost- og seltuþol
Veikleikar:  Hægur vöxtur

Athugasemdir: Fjallafuru ætti einkum að nota sem landgræðslutegund á sandsvæðum og sem garðtré/runna. Dvergfura (Pinus mugo var. pumilio) er skriðult og runnkennt afbrigði fjallafuru en einstofna, trjákenndari afbrigði hafa verið kölluð heiðafura. Fjallafura virðist mun minna næm fyrir sveppasjúkdómnum furubikar en bergfura.

  Rúmlega aldargömul fjallafura við Rauðavatn.

© Þröstur Eysteinsson

Skógarfura

Pinus sylvestris

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 25 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með fremur mjóa krónu, tvær nálar í knippi
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Gott frostþol, viður, oftast mjög beinvaxin
Veikleikar: Hægur vöxtur, furulús, nálakal

Athugasemdir: Miklar vonir voru bundnar við skógarfuru og hún var mikið gróðursett á 6. áratug síðustu aldar. Furulús (Pineus pini) grandaði henni að mestu. Nú eru hins vegar vísbendingar um að furulúsin drepi ekki lengur ungar skógarfurur þótt hún leggist stundum á þær. Líklega hefur borist hingað sjúkdómur sem herjar á furulúsina

Skógarfura við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi.

© Þröstur Eysteinsson

Balkanfura

Pinus peuce

Hæð: Stórt tré, óvíst með hæð hérlendis Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með fremur breiða krónu, fimm nálar í knippi
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Óvíst
Sérkröfur: Miðlungs skuggþolin tegund í æsku en þarf svo fulla birtu
Styrkleikar: Formfagurt tré, nýtist í jólaskreytingar
Veikleikar: Hægur vöxtur, mjög lítil reynsla

Athugasemdir: Lítið reynd hérlendis en er á margan hátt svipuð lindifuru. Eftir nokkur afföll og hæga byrjun hefur hún vaxið áfallalítið í tilraunum undanfarin ár. Ástæða til að skoða betur


  Balkanfura á Höfða á Völlum, Héraði.

© Þröstur Eysteinsson

Broddfura

Pinus aristata

Hæð: Fremur lágvaxið tré, a.m.k. 10 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með misbreiða krónu, fimm nálar í knippi
Vaxtarhraði: Mjög hægur
Hvaða landshluta: Víða um land
Sérkröfur: Mjög ljóselsk tegund
Styrkleikar: Gott frost- og vindþol
Veikleikar: Hægur vöxtur, mjög næm fyrir sveppsjúkdómnum furubikar eða furugremi (Gremmeniella abietina)

Athugasemdir: Harðgerð en afar seinvaxin, drepst úr sveppasjúkdómnum furubikar og því ekki hægt að mæla með notkun tegundarinnar nema sem stökum trjám í garðrækt eða trjásöfnum

  Broddfurur í Neðstareit, Mörkinni Hallormsstað.

© Þröstur Eysteinsson

Gráfura

Pinus banksiana

Hæð: Miðlungsstórt tré, óvíst með hæð hérlendis Vaxtarlag: Einstofna tré með misbreiða krónu, tvær nálar í knippi
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Óvíst
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Harðgerð
Veikleikar: Hægur vöxtur, mjög lítil reynsla

Athugasemdir: Gráfura er helsta furutegundin í barrskógum í austanverðu Kanada og kvæmi frá norðanverðu Alberta-fylki virðist harðgert hérlendis. Vegna hægs vaxtar og ekki sérstaklega beinvaxins vaxtarlags hefur þessi furutegund ekkert fram yfir stafafuru eða skógarfuru hérlendis og áhugi á henni í skógrækt er því lítill

 
Grein af gráfuru sem sýnir fastlokaðan köngul.

© Þröstur Eysteinsson

Sveigfura
Pinus flexilis

Hæð: Fremur smávaxið tré, a.m.k. 15 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, bugðótt  tré með miðlungsbreiða krónu, fimm nálar í knippi
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Víða um land, síst í lágsveitum á S- og V-landi
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Fullkomlega harðger, fallegt tré, greinar og könglar nýtast sem jólaskraut
Veikleikar: Hægur vöxtur, næm fyrir sveppsjúkdómnum furubikar eða furugremi (Gremmeniella abietina)

Athugasemdir: Sveigfura ber nafn með rentu, stofninn alltaf sveigður eða bugðóttur. Harðgerð tegund, en vegna þess hve hún vex hægt og er lítt beinvaxin hefur ekki verið áhugi á henni í skógrækt. Ágætt garðtré og virðist minna viðkvæm fyrir furubikar en bergfura eða broddfura 

  Sveigfura á Hallormsstað.

© Þröstur Eysteinsson

Klettafura
Pinus albicaulis

Hæð: Fremur smávaxið tré, a.m.k. 10 m hérlendis Vaxtarlag: Einstofna tré með miðlungsbreiða krónu, fimm nálar í knippi
Vaxtarhraði: Hægur
Hvaða landshluta: Víða um land, síst í lágsveitum á S- og V-landi
Sérkröfur: Ljóselsk tegund
Styrkleikar: Fallegt tré, greinar nýtast sem jólaskraut
Veikleikar: Hægur vöxtur, næm fyrir sveppsjúkdómnum furubikar eða furugremi (Gremmeniella abietina), mjög lítil reynsla

Athugasemdir: Tegund frá Klettafjöllum N-Ameríku sem er þó skyldari lindifuru en sveigfuru. Mjög lítið reynd hérlendis en virðist vera viðkvæm fyrir furubikar

  Klettafura á Stálpastöðum Skorradal,
ein fárra sem enn tóra.

© Þröstur Eysteinsson

Bosníufura
Pinus heldreichii

Hæð: Smávaxið tré eða runni, óvíst með hæð hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, kræklótt tré eða runni, tvær nálar í knippi Vaxtarhraði: Afar hægur
Hvaða landshluta: Óvíst
Sérkröfur: Mjög ljóselsk tegund
Styrkleikar: Virðist mjög harðger 
Veikleikar: Hægur vöxtur, mjög lítil reynsla

Athugasemdir: Furutegund frá hæstu fjöllum á sunnanverðum Balkanskaga og aðeins reynd hér nýlega. 

 
Tíu ára gömul bosníufura á Höfða á Völlum Héraði. Hægvaxnara tré er vandfundið en græn er hún og
óskemmd.

© Þröstur Eysteinsson