Víðir

Skaðvaldar á víðitegundum

Helstu skaðvaldar á víði eru víðiblaðlús, víðifeti, haustfeti, asparglytta, víðiryð og gljávíðiryð.
Skaðlegastir eru haustfeti og víðifeti en asparglyttan hefur reynst skæð þar sem hún finnst.

Víðir Skaðvaldur, lífsferill og tjón  Varnir gegn skaðvaldi
Víðiblaðlýs

© Oddur Sigurðsson


Víðiblaðlýs (Cavariella spp) klekjast úr eggi í byrjun sumars. Þær geta af sér nýja kynslóð sem fjölgar sér með meyfæðingu. Að sumrinu flýgur einhver hluti stofnsins yfir á hvönn eða aðrar sveipjurtir.  Þær snúa síðan til baka á víðinn þegar haustar. Mökun og varp er á haustin. 

Tjón
: Víðiblaðlýs valda því að blöð verpast og skemmast.
Lúsunum má verjast með úðun með skordýraeitri en einnig er hægt að úða runnana að vori með lífrænum olíum sem kæfa eggin.
Víðifeti

© Oddur Sigurðsson


Víðifeti (Hydriomena furcata) skríður úr eggi þegar víðirinn laufgast. Lirfan er fullvaxin í byrjun júlí og rennir sér þá fimlega á silkiþræði til jarðar og púpar sig. Fiðrildin klekjast úr púpum undir lok júlí og makast og verpa á börk víðis. Eggin liggja í dvala fram á næsta vor. 

Tjón
: Víðifeti veldur oft verulegu tjóni, einkum í görðum og á skjólbeltum. 
Víðifeta má verjast með úðun með skordýraeitri en einnig er hægt að úða runnana að vori með lífrænum olíum sem kæfa eggin.
Haustfeti

© Oddur Sigurðsson


Haustfeti (Operophtera brumata) er mjög fjölhæfur í fæðuvali og lirfan étur blöð allskyns lauftrjáa og runna og á það jafnvel til að fara á barrviði. Lirfan klekst úr eggi í byrjun sumars.  Hún er fullvaxin í lok júní og púpar sig á jörðunni undir trjánum. Fiðrildin skríða úr púpu í vetrarbyrjun.

Tjón: Haustfeti veldur verulegu tjóni, einkum í görðum og á skjólbeltum. 
Haustfeta má verjast með úðun með skordýraeitri en einnig er hægt að úða runnana að vori með lífrænum olíum sem kæfa eggin.
 Víðiryð

© Halldór Sverrisson

Víðiryð (Melampsora epitea) er algengt á grávíði, loðvíði og selju. Ræktaður loðvíðir í görðum getur orðið rauðgulur af gróflekkjunum síðari hluta sumars og getur sveppurinn einnig orðið áberandi á brekkuvíði. Ryð leggst einnig oft þungt á selju í uppeldi. Sumargró og sveppþræðir lifa í brumum víðisins yfir veturinn og smita ný blöð sumarið eftir.

Tjón
: Tjón af völdum þessa ryðsvepps er sjaldan alvarlegt nema í hreggstaðavíði, en þar er ryðið mjög skaðlegt. Ryðið dregur þó alltaf úr vexti og getur tafið síðsumarvöxt það mikið að yngsti hluti árssprotans nái ekki þroska fyrir veturinn þannig að afleiðingin getur orðið aukið haustkal. 
Ekki er ástæða til varnaraðgerða.

© Edda S. Oddsdóttir


Asparglytta (Phratora vitellinae) finnst enn sem komið er einkum á höfuðborgarsvæðinu.  Asparglyttan liggur í dvala sem fullorðið dýr og á vorin leggst bjallan einkum á brum og étur gjarnan öll ný laufblöð. Um mitt sumar koma lirfurnar fram og halda áfram að éta laufblöðin. Síðsumars kemur svo fram ný kynslóð af fullorðnum bjöllum sem naga laufblöð og börk yngsta hluta sprotanna fram í október en þá leggst bjallan í dvala yfir veturinn.

Tjón: Asparglyttan veldur töluverðu tjóni á laufblöðum víðitegunda, einkum á viðju og gulvíði.  Þrátt fyrir stuttan tíma hérlendis virðist allt benda til þess að asparglyttan geti haft veruleg áhrif á vöxt víðitegunda
Gljávíðiryð

© Halldór Sverrisson

Gljávíðiryð (Melampsora larici-pentandrae) er nýr sjúkdómur á gljávíði hér á landi og hefur nú fundist víða um sunnanvert landið. Fyrstu einkennin eru rauðgulir blettir neðan á blöðum víðisins.  Ryðsveppur þessi myndar sumar- og dvalagró sín á gljávíði en skálagróstigið finnst á lerki.

Tjón
: Gljávíðiryð veldur mun meira tjóni en aðrir ryðsveppir á víði hér á landi. Gljávíðir sem hér er ræktaður er af suðlægum uppruna og vex oft langt fram eftir hausti. Sjúkdómurinn dregur úr þroska árssprotanna og gerir þá enn viðkvæmari fyrir kali.
Erfiðlega hefur reynst að verjast þessum sjúkdómi og þarf að úða víðinn oft á sumri til að ná viðhlítandi árangri