Skaðvaldar á ungplöntum

Skaðvaldar á ungplöntum og ungskógi

Helstu skaðvaldar á ungum trjáplöntum eru ranabjöllulirfur, jarðygla og ertuygla.
Skaðlegastir eru lerkibarrfellir og ranabjöllur.


Ungplöntur og ungskógur Skaðvaldur, lífsferill og tjón Varnir gegn skaðvaldi
Ranabjöllur

© Halldór Sverrisson


Ranabjöllur (Otiorhyncus spp) skríða úr púpu upp úr miðju sumri og verpa. Lirfurnar klekjast úr eggi í lok sumars og leggjast í dvala þegar vetrar. Lirfurnar koma úr dvala næsta vor og lifa á plönturótum allt næsta sumar og leggjast aftur í dvala þegar vetrar. Þær púpa sig sumarið eftir.

Tjón: Ranabjöllulirfur valda mjög miklum skaða.
Helstu varnaraðgerðir gegn ranabjöllu eru að forðast gróðursetningar um mitt sumar, nota stórar og kröftugar plöntur sem eru vel smitaðar með svepprót.
Ertuygla

© Halldór Sverrisson

Ertuygla (Melanchra pisi) er útbreidd um sunnanvert landið og hefur einnig fundist norður í Eyjafirði. Fiðrildin eru á ferli frá júníbyrjun fram í júlí. Þau verpa í júní og lirfurnar eru fullvaxnar um haustið og leggjast þá í vetrardvala. Þær púpa sig um vorið þegar dvala lýkur. Lirfurnar sækja mikið í lúpínu en éta einnig trjágróður.

Tjón: Ertuyglan hefur verið vaxandi vandamál á undanförnum árum sem virðist þó sjaldan drepa plöntur.
Viðkomandi ræktendum í leit að lækningu og vörnum er bent á þá Guðmund Halldórsson skordýrafræðing og Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðing hjá Skógrækt ríkisins að Mógilsá.
Jarðygla

© Oddur Sigurðsson

Jarðygla (Diarsia mendica) er algeng um land allt. Lirfurnar sækja einkum í lágvaxinn runnagróður og lyng en einnig ungskóg. Fiðrildin eru á ferli frá miðju sumri og fram undir haust. Þau verpa síðsumars og lirfurnar eru tæplega hálfvaxnar þegar vetur gengur í garð og leggjast þá í dvala. Þær fara á kreik á ný þegar vorar og eru fullvaxnar um mitt sumar og púpa sig. Fiðrildin skríða skömmu síðar úr púpu.

Tjón: Faraldrar jarðyglu virðast vera fátíðir en skaðinn getur verið mikill þegar þeir geisa.