Greni

Fura

Helstu skaðvaldar á greni eru sitkalús, grenisprotalús, köngulingur, greniryð og grenibarrfellir.
Skaðlegust eru sitkalús og greniryð.


Greni Skaðvaldur, lífsferill og tjón Varnir gegn skaðvaldi
Sitkalús

© Oddur Sigurðsson

Sitkalús (Elatobium abietinum) fjölgar sér með kynlausri æxlun allt árið um kring. Faraldrar eru eftir milda vetur, yfirleitt á haustin en ef veturinn er einstaklega mildur er hætta á vorfaraldri. Lúsin situr neðan á nálum og heldur sig mest á eldri nálum. Fyrstu einkenni eru ljósar þverrákir á nálum og gulnun. Síðan verður nálin brún og drepst.

Tjón
: Sitkalúsin veldur mestum skemmdum á amerískum grenitegundum t.d. sitkagreni og blágreni. Hún drepur mjög sjaldan tré.
Ástæðulaust er að verja heila lundi gegn lúsinni, en beina varnaraðgerðum að stökum trjám sem eru mikilvæg fyrir ásýnd svæðisins.
Grenisprotalús

© Oddur Sigurðsson

Grenisprotalús (Cinara pilicornis) klekst úr eggi snemma vors. Hún situr á yngstu sprotunum og sýgur þar næringu úr sáldæðum. Hún fjölgar sér síðan með kynlausri æxlun fram eftir sumri en síðsumars verður æxlun.

Tjón:Grenisprotalús veldur trjám sjaldnast skaða. Þó kemur fyrir að nálar gulni og vindingur getur komið í árssprota sem lúsin er á.
Mjög sjaldan er ástæða til að grípa til úðunar.
Köngulingur

© Brynjólfur Sigurjónsson

Köngulingur (Oligonychus ununguis) er skyldur köngulóm og vísar heitið til þess. Köngulingur verpir á haustin og eggin klekjast út í byrjun sumars.

Tjón
: Köngulingur stingur gat á frumur á yfirborði nála sem skapar rauðgula flekki á nálunum. Köngulingur er skaðlegastur á rauðgreni. Mest er af honum á heitum þurrum, sumrum.
Varnaraðgerðir eru yfirleitt óþarfar nema í jólatrjáaræktun,Viðkomandi jólatrjáaræktendum er bent á Halldór Sverrisson og Eddu S. Oddsdóttur hjá Skógrækt ríkisins að Mógilsá.
Grenibarrfellisveppur

© Halldór Sverrisson

Grenibarrfellisveppur (Rhizosphaera kalkhoffii) vex á mörgum grenitegundum. Hann myndar örsmáa svarta punkta með hvítri örðu í miðjunni á föllnum nálum. Nýsmitaðar nálar verða gulflekkóttar síðsumars, nema á blágreni þar sem þær verða brúnleitar með fjólubláum blæ.

Tjón
: Grenibarrfellisveppurinn veldur helst tjóni á trjám sem ekki vaxa við kjöraðstæður. Hér hefur hann einkum skemmt rauðgreni en það er sjaldgæft að hann drepi trén.
Ekki er ástæða til að grípa til varnaraðgerða.
Greniryðsveppur

© Halldór Sverrisson

Greniryðsveppur (Chrysomyxa abietis) leggst eingöngu á greni, einkum rauðgreni. Síðsumars koma ljósgrænir blettir á yngstu nálarnar og að lokum gulnar allur sprotinn. Næsta vor myndast rauðgulir aflangir flekkir á árssprota síðasta árs. Þaðan berst smitið á nýju nálarnar þegar þær myndast.

Tjón
: Greniryð er mest áberandi í hlýjum, rökum sumrum. Hér hafa verið mikil áraskipti að þessum sjúkdómi og einnig virðist vera töluverður munur á smitnæmi mismunandi rauðgrenikvæma.
Varnaraðgerðir eru yfirleitt óþarfar nema e.t.v. í jólatrjáaræktun. Viðkomandi jólatrjáaræktendum er bennt á Halldór Sverrisson og Eddu S. Oddsdóttur hjá Skógrækt ríkisins.