Birki

Skaðvaldar á birki

Helstu skaðvaldar á birki eru birkisprotalús, birkiblaðlús, tígulvefari, birkivefari, haustfeti, birkifeti, birkihnúðmý, birkismuga og birkiryð. Skaðlegastir eru tígulvefari, birkivefari og haustfeti.


Birki Skaðvaldur, lífsferill og tjón Varnir gegn skaðvaldi
Birkiblaðlús

© Oddur Sigurðsson

Birkiblaðlús (Betulaphis quadrituberculata) skríður úr eggi um svipað leyti og birkið laufgast. Hún fjölgar sér með kynlausri æxlun fram eftir sumri. Þegar kemur fram í ágúst koma fram karldýr og kvendýr sem æxlast og síðan verpa kerlingarnar, gjarnan við brumin. Eggin liggja í dvala til vors.

Tjón: Birkiblaðlús er til nokkurs ama í görðum og limgerðum en veldur litlu tjóni.
Vegna lítils tjóns af völdum birkiblaðlúsar er spurning hvort ástæða er til viðbragða. Þetta er þó ein af þeim tegundum sem mikið er úðað gegn.

Birkisprotalús

© Oddur Sigurðsson

Birkisprotalús (Euceraphis punctipennis) hefur mjög svipaðan lífsferil og birkiblaðlús. Hún skríður úr eggi um svipað leyti og birkið laufgast og fjölgar sér með kynlausri æxlun fram eftir sumri. Æxlun og varp er síðsumars og eggin liggja í dvala til vors.

Tjón: Birkisprotalús veldur litlu tjóni. og er ástæðulaust að úða gegn henni.
Vegna lítils tjóns af völdum birkisprotalúsar er ástæðulaust að úða gegn henni.
Tígulvefari

© Oddur Sigurðsson

Tígulvefari (Epinotia solandriana) lifir einkum á blöðum birkis. Þó eru dæmi um að hann fari á víði og elri. Lirfan klekst úr eggi í byrjun sumars og er fullvaxin og púpar sig í lok júní. Fiðrildin skríða úr púpu í júlí, makast og verpa á börk trjánna.

Tjón: Tígulvefari étur oft birkiskóg til stórskaða og er eitt versta meindýrið á birki hér á landi, bæði í skógum og görðum.
Oft er úðað gegn tígulvefara í görðum, en þess ber að gæta að stilla slíku í hóf vegna eituráhrifa á aðrar lífverur.
Birkivefafari

© Oddur Sigurðsson

Birkivefari (Acleris notana) er með allra fyrstu fiðrildum á kreik á vorin og má sjá þessi smávöxnu gráleitu fiðrildi strax í mars. Lirfan klekst út í júní og er fullvaxin síðari hluta sumars og púpar sig þá inni í laufblöðunum. Þegar haustar klekjast púpurnar, fiðrildin skríða út og leggjast í vetrardvala.

Tjón: Birkivefari veldur iðulega miklum skemmdum með áti sínu á laufi og trjám. Er skaðinn þó frekar í birkiskógum en í görðum.
Ekki er mælt með sérstökum aðgerðum gegn þessu fiðrildi.

Haustfeti

© Oddur Sigurðsson

Haustfeti (Operophtera brumata) er mjög fjölhæfur í fæðuvali og lirfan étur blöð alls kyns lauftrjáa og runna og á það jafnvel til að fara á barrviði. Lirfan klekst úr eggi í byrjun sumars. Hún er fullvaxin í lok júní og púpar sig á jörðunni undir trjánum. Fiðrildin skríða úr púpu í vetrarbyrjun.
Tjón: Haustfeti veldur verulegu tjóni með áti sínu, einkum í görðum og á skjólbeltum.
Haustfeta má verjast með úðun með skordýraeitri en einnig er hægt að úða runnana að vori með lífrænum olíum sem kæfa eggin.
Birkifeti

© Oddur Sigurðsson

Birkifeti (Rheumaptera hastata) skríður úr púpu undir lok maí, makast og verpir. Fiðrildin eru síðan á ferli fram yfir miðjan júlí. Lirfurnar skríða úr eggi þegar líða tekur á júní og eru fullvaxnar og púpa sig þegar komið er fram á haust.

Tjón: Birkifeti er einkum í birkikræðu fjalldrapa og bláberjalyngi og hefur oft skemmt bláberjalyng á stórum svæðum.
Ekki er farið í aðgerðir vegna birkifeta.
Birkihnúðmý

© Oddur Sigurðsson

Birkihnúðmý (Semudobia betulina) verpir í birkirekla. Lirfurnar lifa á fræhvítunni. Þær eru fullvaxta þegar haustar og púpa sig um vorið. Fræ sem eru smituð af lirfum birkihnúðmýs eru auðþekkt frá heilbrigðum fræjum. Þau eru bólgin og vængirnir eru litlir og afmyndaðir.

Tjón: Birkihnúðmý dregur mjög úr framleiðslu birkis á nýtanlegu fræi en veldur ekki öðru tjóni.
Ekki er farið í aðgerðir vegna birkihnúðmýs.

© Edda S. Oddsdóttir

Birkikemba (Eriocrania unimaculella) er tiltölulega nýtt meindýr hérlendis. Hún er orðin útbreidd um efri hluta Ölfuss, hefur fundist á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið að breiðast vestur og norður um land. Birkikemba er fiðrildategund og er það lirfan sem veldur skaða. Kvenfiðrildin verpa eggjunum undir yfirhúð laufblaða snemma sumars. Þar klekjast þau út í blaðholdinu og lirfurnar nærast á því. Fullvaxin lirfa púpar sig í jörðu og bíður næsta vors.

Tjón: Talsverð lýti geta verið að skemmdum og ekki er ólíklegt að birkikemba hafi áhrif á vöxt birkisins.
Viðkomandi ræktendum er bent á Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðing hjá Skógrækt ríkisins.

Birkikemba
© Halldór Sverrisson

Birkiryð (Melampsoridium betulinum) leggst á íslensku birkitegundirnar, fjalldrapa og ilmbjörk. Algengast er birkiryð á blöðum birkiplantna í uppeldi. Þá getur neðra borð blaðanna orðið alþakið gróflekkjum sveppsins. Venjulega sjást flekkirnir þó ekki fyrr en seint í júlí og ná hámarki í byrjun september.

Tjón: Birkiryð veldur oft verulegum skaða á birkiskógum og er til mikils ama í plöntuuppeldi.