Skaðvaldar í trjám

Skaðvaldar í trjám, tjón og varnir gegn þeim

Eru skaðvaldar í þínum trjám?

Hér er fjallað um skaðvalda í trjám á Íslandi, þ.e. aðra en mannfólk og stærri dýr, og varnir gegn þeim. Smellið á viðeigandi hnapp hér vinstra megin á síðunni eftir því á hvaða tré skaðvaldurinn er.

Mikilvægt er að fá glöggar upplýsingar um hvaða skaðvaldar eru á ferðinni hverju sinni til að fylgjast megi með þróun þeirra og bera saman útbreiðslu og áhrif skaðvalda frá ári til árs. Allar upplýsingar eru vel þegnar.Ef þú óskar eftir upplýsingum um skemmdir eða faraldra sem ekki er að finna á heimasíðunni geturðu komið upplýsingum og ljósmyndum áleiðis til Brynju Hrafnkelsdóttur og Halldórs Sverrissonar. Einnig er hægt að senda sýni til Brynju á Rannsókna­stöð skógræktar Mógilsá, 116 Reykjavík. Gott væri að tekið væri fram hvar og hvenær skaðvaldurinn fannst og á hvaða trjágróðri.

Almennt um skaðvalda

Þeir skaðvaldar sem hér um ræðir eru trjásjúkdómar og meindýr. Sjúk­dóm­ar­n­ir valda ýmist skemmdum á blöðum, s.s. asparryð, eða á sjálfu trénu, t.d. lerkiáta. Síðarnefndu sjúkdómarnir er oftast alvarlegri því þeir geta drepið heil tré og jafnvel heila lundi. Blaðsjúkdómarnir valda einkum vaxtartapi en geta einnig leitt til þess að trjágróður býr sig illa undir vetur og þar með eykst kalhætta.

Helstu meindýr á trjám eru fiðrildalirfur og blaðlýs. Lirfurnar éta blöð en blaðlýsnar sjúga úr þeim næringu.  Hérlendis eru lirfurnar eru mun aðgangsharðari en blaðlýsnar og geta aflaufgað heilu skógana og geta tré drepist í kjölfar slíkra faraldra.  Fyrstu einkenni um að lirfur séu í blöðum er að þau vefjast upp. Yfirleitt valda blaðlýs litlu tjóni. Undantekning frá því er þó sitkalúsin, sem veldur miklu nálatapi á greni þegar hún geysar og drepur stundum tré.  Önnur meindýr á trjágróðri eru einkum ranabjöllulirfur, sem éta rætur, flugulirfur og blaðvespulirfur.

Edda S. Oddsdóttir, vistfræðingur og forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá, hefur tekið saman bækling um skaðvalda í trjám:

Að draga úr líkum á og áhrifum af skaðvöldum

Fyrirbyggjandi aðgerðir eru bestar gegn skaðvöldum í trjám

Í fyrsta lagi skal bent á að velja gróður sem hentar vel aðstæðum því ella er hann auðveld bráð meindýra og sjúkdóma.  Sem dæmi um þetta má nefna að flestallir asparklónar eru mjög viðkvæmir fyrir asparryði en þó má finna klóna sem verjast sjúkdómnum allvel. Brýnt er að auka úrval á slíkum efniviði með kynbótum og er unnið að því á Rannsóknastöðinni.

Einnig er nauðsynlegt að þekkja óvininn og forðast að gróðursetja trjátegundir sem magna upp sjúkdóma/skaðvalda, eins og t.d. lerki og ösp.

Þá má nefna að fjölbreytni í skógrækt er afar mikilvæg til að draga úr áföllum.  Það dregur úr áhættu, auk þess sem meira er af náttúrlegum óvinum í skógum þar sem fjölbreytni er mikil og það dregur úr hættu á meindýrafaröldrum. 

Ef allt um þrýtur er hægt að grípa til varnarefna. Töluvert úrval er af efnum sem henta til eyðingar á sveppasýkingum og meindýrum í trjám.  Þess ber að gæta að beita slíkum efnum af varúð og úða ekki nema full þörf sé á.  Rétt er að minna á að alltaf má búast við ákveðnum skemmdum af völdum skordýra og sjúkdóma, án þess að ástæða sé til þess að grípa til varnarefna. Einnig ber að hafa það í huga að flest varnarefni eru ekki sérvirk á skaðvalda, þ.e. þau hafa líka áhrif á aðrar lífverur í umhverfi trjáa, þar með talið dýr og sjúkdóma sem halda skaðvöldum í skefjum. Þannig getur notkun varnarefna dregið úr náttúrlegum viðnámi vistkerfisins. Ef ljóst er að notkun varnarefna er nauðsynleg, verður aftur að hafa í huga að þekkja óvininn þannig að úðað sé á réttum tíma til að efnið gagnist sem best. Einnig má benda á að notkun óhefðbundinna varnarefna, eins og grænsápu, hefur í sumum tilfellum reynst vel gegn skaðvöldum.

Hér til vinstri á síðunni er greint frá helstu skaðvöldum í trjám á Íslandi, ummerkjum um viðveru þeirra og vörnum gegn þeim, flokkað eftir trjátegundum.