Um verkefnabankann

Um verkefnabankann

lis_222Í þróunarverkefninu Lesið í skóginn með skólum hafa safnast mjög mörg verkefni á sviði útikennslu. Þessi verkefni tilheyra öllum námsgreinum, samþættingu námsgreina, náttúrulæsi og til menntunar í sjálfbærni og lýðræði. Ása Erlingsdóttir, Margrét Lára Eðvarðsdóttir og Ólafur Oddsson hafa unnið að því síðustu árin að safna verkefnunum saman frá þeim skólum, kennurum og starfsfólki sem tók þátt í þróunarverkefninu. Verkefnabanki þessi, Heildarsafn útikennsluverkefna, er hýstur á vef Skógræktar ríkisins og unninn í samstarfi við Þróunarsjóð námsgagna. Hann er í meginatriðum unnin út frá því námsefni sem safnast hefur og hefur verið tengt við núgildandi aðalnámskrá grunnskóla.

Aðalnámsskrá grunnskóla gerir kröfur um kennslu námsgreina utandyra, menntun til sjálfbærni og aukið náttúrulæsi. Heildarverkefnabanki á sviði útikennslu kemur til móts við þessar lögboðnu skyldur. Mikilvægt er að huga að því hvernig við dreifum þeirri þekkingu sem til er og innleiðum verkefnin betur í skólastarfið. Þörf kennara fyrir aðgang að rafrænum hugmyndabanka þar sem þeir geta valið úr verkefnum hefur ítrekað komið fram þar sem kennslan hefur hingað til byggst á áhuga kennara og þróunarverkefnum í þágu útikennslu. Verkefnabanki Lesið í skóginn kemur vonandi til með að mæta þessum þörfum en markmið verkefnabankans er að koma til móts við þarfir allra kennara ekki aðeins fagfólks á sviði útikennslu.

Uppruni verkefnana

Verkefnin koma frá grunnskólakennurum, leiðbeinendum og öðru starfsfólki þróunarskólanna sem hafa tekið þátt í verkefninu Lesið í skóginn með skólum á síðustu tíu árum. Hvert og eitt verkefni er höfundarvarið og nafn höfundar kemur fram á verkefnablöðunum. Um er að ræða miðlægan gagnagrunn þar sem allir á sviði menntamála geta nálgast útinámsverkefni við sitt hæfi. Er það von höfunda að notendur bankans muni í framhaldinu senda inn ný verkefni svo bankinn verði lifandi og stækki með árunum og verði sívaxandi uppspretta hugmynda fyrir kennara og aðra áhugasama um ókomna framtíð.