Sjálfbærni

Aðalnámskrá

Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla eru sjálfbærni og lýðræði tveir af sex grunnþáttum menntunnar. Þar segir:

Sjálfbærni snýst um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Sjálfbærni felur í sér virðingu fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti, ekki bara í nútíma heldur og gagnvart komandi kynslóðum. [...] Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða. Í því felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu. [...] Gera þarf ráð fyrir virku samstarfi við grenndarsamfélag innan sveitarfélags eða hverfis en slíkt samstarf er einnig einn af lykilþáttum sjálfbærni. Áhersla er lögð á að lýðræðislegir skólar geti þannig tekið þátt í að skapa samábyrgt og sjálfbært samfélag.

Við úrvinnslu verkefnanna í verkefnabankanum var sérstaklega hugað að þessum þáttum og komið inn á mikilvægi þeirra í tengingu við ný markmið aðalnámskrár. Hvert og eitt verkefni er hægt að framkvæma með sjálfbærni og lýðræði að leiðarljósi. Það er lýðræðislegur réttur hvers barns að fá tækifæri til að sinna námi og öðlast reynslu við fjölbreyttar aðstæður. Því er mikilvægt að bjóða upp á kennslu námsefnis utandyra í beinni tengingu við umhverfi og samfélag. Verkefnin bjóða upp á fjölbreytt námsefni og kennsluaðferðir. Þau hjálpa kennurum að víkka sjóndeildarhring barna og ungmenna, auk þess að efla hæfni þeirra í vinnubrögðum og sjálfstæði. Við nám og kennslu í náttúrunni og skóginum skapast sérstök tenging við hugtakið sjálfbærni, því órjúfanleg tengsl eru milli náttúrunnar og dýpri skilnings á hringrás lífsins. 

Sjálfbær þróun getur ekki átt sér stað nema innan þeirra takmarka sem vistkerfi jarðar setja okkur. Því er skilningur á þeim takmörkum, ásamt ferlum, lögmálum og hringrásum í náttúrunni, mikilvægur grundvöllur þess að okkur takist að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þannig þurfa nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna, bæði vegna sjálfgildis hennar og þeirrar þjónustu sem hún innir af hendi við mannfólkið.

Því er mikilvægt fyrir kennara að nýta sér náttúruna bæði beint og óbeint í kennslu tengdri sjálfbærni og lýðræði. Skólastarfi og námi er sinnt innan námssviða námsgreina og námsáfanga. Á hinn bóginn krefjast mörg viðfangsefni í útkennslu að þau séu unnin á samfaglegan og heildstæðan hátt. Því er það grunnur í verkefnum bankans að samþætting sé einn af útgangspunktum hvers verkefnis. Því er ekki ofsögum sagt að nánast hvert einasta verkefni er samþætt í sjálfu sér. Námgreinar eru tilgreindar í hverju verkefni fyrir sig með sérstakri tengingu og markmiðasetningu aðalnámskrár.