Upphaf

Upphaf verkefnisins Lesið í skóginn

lis_222Á árunum 1993-1998 voru haldnir skógardagar í þjóðskógunum með stuðningi Skeljungs. Fyrirtækið veitti fjármagni til Skógræktar ríkisins til að opna ríkisskógana og gera þá aðgengilega fyrir almenning til útivistar. Á skógardögunum var boðið upp á fjölbreytta kynningar- og fræðsludagskrá í samstarfi við fjölmarga aðila, m.a. handverksfólk og listamenn, auk þess sem skógartengd fræðsla var fyrirferðarmikil á skógardögunum.

Meðal þeirra sem tóku þátt í þeim voru trérennismiðir sem renndu t.d. skálar úr nýfelldum ferskum viði, beint úr skóginum. Þeir sem fylgdust með þessari vinnu furðuðu sig á því að hægt væri að vinna viðinn óunninn. Viðbrögðin urðu til þess að farið var að íhuga hvort ekki þyrfti að bjóða almenningi upp á fræðslu um ferskar viðarnytjar.

Guðmundur Magnússon, smiður og smíðakennari í Flúðaskóla, var einn þeirra sem tók þátt í rennismíðinni á skógardögunum. Hann kom til landsins árið 1998 eftir menntunardvöl í Svíþjóð og Danmörku þar sem hann kynnti sér ferskar viðarnytjar. Í Svíþjóð kynntist hann gamalli tálgutækni sem hafði gengið á milli kynslóða og var almennt notuð þar í tálguvinnu. Í Danmörku kynnist Guðmundur smíðaaðferð sem kölluð er „þurrt í blautt” þar sem notað er bæði ferskt og þurrt efni við að setja saman húsgögn o.fl.

Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009:Guðmundur og Ólafur Oddsson, sem þá vann sem kynningarfulltrúi Skógræktar ríkisins, settu ferskar viðarnytjar í fræðslufarveg með námskeiðunum Lesið í skóginn - tálgað í tré. Þau námskeið hafa verið haldin fyrir almenning og í skólastarfi frá því í janúar 1999 en þá hafði verið unnið að þessu verkefni í Flúðaskóla um tíma. Verkefnið var kallað Skógarins gagn og gaman og var tekið upp á myndband af Þorsteini Jónssyni, kvikmyndagerðarmanni. Nemendur lærðu sænku tálgutæknina, sóttu efni í grenndarskóg skólans sem ræktaður var af  Kvenfélaginu á Flúðum, lærðu að grisja og hirða skóginn og farið var í skógarferðir, bæði að Tumastöðum í Fljótshlíð og í Haukadalsskóg. Þar kynntust nemendur ýmsum hliðum skógræktar, hituðu kakó yfir eldi og bökuðu brauð. Það má því segja að Flúðaskóli hafi verið fyrsti skóli á Íslandi í að kenna ferskar viðarnytjar og tálgutækni.

Þetta starf varð síðan til þess að haldin voru Lesið í skóginn námskeið fyrir smíðakennara og náttúrfræðikennara í ferskum viðarnytjum og tálgutækni á árum 1999 og 2000 af Skógrækt ríkisins og í samvinnu við Endurmenntunarstofnun KHÍ. Námskeiðin voru vel sótt og líta má á þau námskeið sem upphaf að skólaþróunarverkefninu Lesið í skóginn með skólum þar sem þeir sem sóttu þau urðu brautryðjendur í skólum á sviði skógartengds útináms og ferskra viðarnytja. Bjarni Þór Kristjánsson, smíðakennari, stóð að undirbúningi og framkvæmd námskeiðanna auk Guðmundar og Ólafs.

Stofnun Viðarmiðlunar Skógræktar ríkisins árið 1995, fyrsta íslenska viðarsýningin sem haldin var í Perlunni haustið 1996 og stuðningur BYKO við grisjun hjá Skógrækt ríkisins, kaup þeirra á flettisög og stuðningur við útgáfu kennslubókarinnar Skógurinn og nýting hans sem gefin var út af Námsgagnastofnun í samvinnu við KHÍ, studdi allt mjög vel við undirbúning að stofnun verkefnisins Lesið í skóginn. Það var formlega var sett á laggirnar árið 2001 í samvinnu við Fræðsluskrifstofu og Garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar, Kennaraháskóla Íslands, Kennarasamband Íslands og Skógræktarfélag Reykjavíkur.