Hugmyndafræði og markmikið

Hugmyndafræði og markmikið

Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009: Ólafur lýsir hönnun í skógarumhverfiÁ árunum 2000 til 2003 var unnið að því að móta skólaþróunarverkefnið Lesið í skóginn með skólum í gagnvirku samstarfi skógræktaraðila og skólayfirvalda.

Frá upphafi hefur verið lögð á það áhersla gagnvirkt þróunarsamstarf þar sem ólíkir fagaðilar vinna sameiginlega að því að finna leiðir til að efla fræðslu um skóg- og skógarnytjar í skólastarfi. Á þann hátt var talið að finna mætti árangursríkar og varanlegar leiðir til auka tengsl skólasamfélags við skóg- og skógarnytjar á öllum skólastigum, í tengslum við sem flest fög. Hugmyndin á bak við það að tengja skógarfræðsluna við sem flest fög beinist að því að gera skóginn að vettvangi fjölbreyttrar fræðslu sem gerði hana bæði gagnlegri og skemmtilegri fyrir starfsfólk og nemendur. Á þessum tíma fór fram umræða innan skólasamfélagsins víða erlendis sem sneri að auknu gildi útináms og mikilvægi þess að fræðsla um náttúruna færi fram utandyra. Auk þess var talið mikilvægt að tengja mann og nátturu meira saman og um leið að auka fjölbreytni í skólastarfi til að koma betur á móts við ólíkar þarfir nemenda.

Stauraefni unnið úr grenispírum.Hlutverk fagfólks í garðyrkju og skógrækt var að miðla reynslu og þekkingu til skólasamfélagsins sem yrði að raunhæfum og gagnlegum verkefnum í skólastarfi. Hugsunin var að þekkingin byggðist upp meðal kennaranna sjálfra sem gætu með tímanum orðið sjálfbærir í fræðslustarfi sínu. Frá upphafi var því lögð áhersla á að stuðningur við skólasamfélagið fælist í því að vinna með kennurum en ekki fyrir. Ekki var sett upp fræðsludagskrá fyrir stóra hópa þar sem kennarar komu með nemendur og tóku þátt í dagskrá sem aðilar utan skólans settu upp og stýrðu.

Frá upphafi hefur Lesið í skóginn verið kallað þróunarverkefni og mun verða rekið sem slíkt þar sem ný verkefni verða til og áherslur breytast í takt við tíðaranda og af fenginni reynslu.

Helstu markmið

  • Efla vitund nemenda á skógarvistfræði, skógarnytjum og skapandi verkefnum í skógi.
  • Styrkja þverfaglega kennslu um íslenska skóga sem tekur mið af sérstöðu skólanna og  ólíkri aðstöðu þeirra til útinám.
  • Auka og skipuleggja notkun grunnskóla Reykjavíkur á grenndarskógum sínum.
  • Þróa grenndarskógakort og auka tengsl skólanna við landfræðilegt grenndarsamfélag.

Helstu verkefni

  • Halda fundi og kynningar um verkefnið, veita faglega ráðgjöf til skóla og stuðla að jafningjafræðslu í samstarfi skólanna
  • Skipuleggja námskeið fyrir starfsfólk skólanna og útvega efni til tilraunakennslu.
  • Auðvelda aðgengi að grenndarskógum og uppbyggingu á aðstöðu til útikennslu.
  • Fá aðgang að skógarsvæðum í umsjón Skógræktarfélags Reykjavíkur sem veitir leiðsögn
  • Meta árangur verkefnisins og miðla reynslu.