Fá kynningu á Lesið í skóginn

Fá kynningu á Lesið í skóginn

Skólar geta fengið ókeypis kynningu á starfsemi Lesið í skóginn og hvernig má nota grenndarskóg í skólastarfi. Hafið samband við verkefnisstjóra.

Glærukynning

Sérstaklega ætluð grunn- og leikskólum.

Stutt kynning á Lesið í skóginn og þverfaglegu samstarfi um skógarfræðslu. Sagt er frá hvernig tengja má skógarfræðslu í útinámi við einstakar námsgreinar og skólastig. Rætt er um möguleika grenndarskógarins í skólastarfi, grenndarskógarsamning, ýmsar hugmyndir að uppbyggingu á aðstöðu til útináms og hvað ber að varast í því sambandi. Sagt frá dæmum um samstarf við foreldrafélög og aðila í grenndarsamfélagi við uppbyggingu á aðstöðu í grenndarskógi og stuðningi við útinámið.

Kynninguna má laga að starfsdegi fyrir alla starfsmenn skólans eða fyrir hluta þeirra sem áhuga hafa á útinámi. Gera má ráð fyrir að kynningin taki u.þ.b. 45 – 60 mín. með umræðum.

Ferskar viðarnytjar og tálgutækni

Kynning fyrir hluta starfsfólks eða allan hópinn þar sem þátttakendur fá innsýn í ferskar viðarnytjar og tálgutækni. Allir fá að prófa að tálga um leið og þeir fá upplýsingar um fjölbreytta möguleika á nýtingu skógarefnis í skólastarfi.

Góð leið til að vekja áhuga starfsfólks á fjölbreytni í skólastarfi og þróa nýjar áherslur með notkun á útinámi.

Efni og áhöld eru innifalin í námskeiðinu.

Stöðvafræðslunámskeið

Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009: Tréð búið tilEftir almenna kynningu er æskilegt að bjóða starfsfólki upp á stöðvanámskeið. Á því fara þátttakendur á milli nokkurra stöðva í smærri hópum. Fjöldi stöðva helgast af stærð hópsins en líka af því hversu auðvelt er að fá leiðbeinendur á einstakar stöðvar. Vinsælustu stöðvarnar hingað til hafa verið: tálgustöð, eldstöð, grisjunarstöð, mælingastöð, útinámsstöð og víkingaleikir. Algengt er að dvalið sé í 20 mín. á hverri stöð og er með því fyrirkomulagi hægt að komast yfir allar stöðvarnar á 2- 3 klst.

Æskilegt er að námskeiðið fari fram í væntanlegum grenndarskógi skólans og gefst starfsfólki þannig gott tækifæri til að kynnast skóginum og möguleikum hans í skólastarfi. Stöðvunum er gjarnan fundinn staður sem hentar best viðkomandi verkefni m.t.t. aðstæðna. Þurfi af sérstökum aðstæðum að leita til aðila utan samstarfvettvangsins verður skólinn að greiða fyrir vinnu viðkomandi á námskeiðinu.

Ráðgjöf og stuðningur

Þeir skólar sem gera grenndarskógarsamning geta leitað aðstoða hjá samstarfsaðilum vegna skógarfræðslu, uppbyggingar á aðstöðu, fræðslu eða annarra mála sem snerta útinám í nærumhverfi.