Nytjaáætlanir

Nytjaáætlanir fyrir grenndarskóga

Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009:Til að grenndarskógarnir nýtist sem best í skólastarfi er mikilvægt að gerðar séu nytjaáætlanir fyrir hvern grenndarskóg. Í því felst að kortleggja skóginn og færa inn upplýsingar um ástand trjágróðurs, svo sem magn, hæð, aldur, þéttleika og sverleika hærri trjáa, lýsa landslagi og jarðgerðum.

Taka þarf mið af aðstæðum á hverjum stað því þær eru afar misjafnar. Sums staðar eru viðkvæm vistsvæði, svo sem vegna fuglalífs, veiðivatna og áa. 

Skrá þarf ræktunarsögu skógarins, minjar og meta friðunargildi einstakra svæða.

Gera þarf áætlun sem auðveldar nýtingu á grenndarskóginum í skólastarfi og dreifir álaginu í skóginum.

Skilgreina þarf svæði sem hægt er að ganga í og sækja efni til daglegra nota og koma upp efnisbanka  í grenndarskógi eða á skólalóð.

Huga þarf að sjónrænum þáttum, t.d. með því að bjarga einstaka trjám, með því að klippa frá trjám, bæta inn tegundum til að auka sjónræna fjölbreytni og upplifunargildi en einnig til að auka almennt fræðslugildi skógarins. 

Skrá þarf þá aðstöðu sem fyrir er og gera áætlun um frekari uppbyggingu, hvar hún verði og hvernig hún verði aðlöguð umhverfinu á sem bestan hátt. Fram til þessa hefur uppbygging aðstöðu verið handahófskennd, ekki alltaf gerð í sátt við trén í skóginum né að tekið hafi verið tillit til sjónrænna þátta svo að mannvirki trufli ekki fegurðarskyn þeirra sem þar vilja njóta skógarins. Hér verður að gera greinarmun á því hvort skógur á að vera skemmtigarður eða skógur fyrir skólastarf.

Það mun fela í sér verulegan vinnusparnað og hagkvæmni í framtíðinni að gera þessar áætlanir sem fyrst svo auðveldara og markivissara verði að sinna umhirðu svæðanna og nýta þau í skólastarfi og grenndarvinnu.

Eitt þurfa allir að hafa í huga sem nýta grenndarskóg í skólastarfi. Ávallt þarf að leyfa skóginum og lífríki hans að njóta sín til fulls.