Aðstaða og búnaður

Aðstaða og búnaður

Gátlisti vegna verkefna í grenndarskógum.

Saga grenndarskógarins

Mikilvægt er að afla upplýsinga um ræktunarsögu svæðisins, s.s. hvenær hún hófst, hverjir gróðursettu, hvaða tegundir, kortleggja skóginn og skrá tegundir, magn, finna hæsta tréð, sverasta tréð og jafnvel að gefa þeim nöfn. Sumt af þessari vinnu gætu nemendur unnið sem verkefni í skólastarfi. Þessi vinna getur farið fram í áföngum. Finna fólk sem tók þátt í ræktunarstarfinu, safna gömlum myndum og lýsingum af svæðinu áður en það var ræktað. Einnig er gott að safna upplýsingum um minjar ef einhverjar eru, s.s. vegna byggðar eða annarrar nýtingar, t.d. reiðleiðar, herminja, búskapur eða berjamór.

Merking grenndarskógarins

Í samningi er gert ráð fyrir að landeigandi leggi til efni í skiltið og stoðir fyrir það. Skólinn sér síðan um að setja nafn skólans og skógarins á skiltið eins og t.d. Grenndarskógur Ártúnsskóla þar sem nafnið er grafið í skógarfjöl. Skiltið er síðan sett upp við innganginn í skóginn þar sem það situr vel gagnvart umhverfi sínu.

Rjóður og stígar

Við skipulag grenndarskógarins og nýtingu geta komið upp atriði eins og það, hvar sé hentugt að staðsetja rjóður fyrir starfsstöðvar sem uppfylla kröfur um skjól að vetrarlagi, pláss fyrir a.m.k. 25 manna hóp.

Þolir staðurinn álag og traðk. Þarf að setja grús og sand í botninn?

Hvar er hentugt að koma upp bálstæði eða á að nota gazáhöld til eldunar eða færanlegt eldstæði eins og tunnu eða gamalt grill?

Þegar stígar eru hannaðir er reynt að fylgja landslagi og gróðri sem mest. Stundum er ástæða til að hlífa ákveðnum svæðum og eða að fara í gegnum trjáþirpingar til að auka stemmningu og til að nýta svæði sem best. Eftir því sem fjöldi nemenda og ferða er meiri í grenndarskóginum er sérstök ástæða til að dreifa álaginu með því að nýta skóginn í heild.

Taka verður mið af tegundasamsetningu í skóginum, ríkjandi vindáttum  og jarðgerðum og hæð yfir sjávarmáli.

Uppbygging á aðstöðu

Ef koma á upp skýli, borðum, bekkjum og eldstæði er ástæða til að huga vel að vindáttum, sól og jarðvegi í rjóðrinu og í  kring. Það þarf að þola mikið álag.

Val á efni og staðsetningu þarf að vinna í samvinnu við landeigendur og fá ráðleggingar varðandi val á efni, hönnun og uppsetningu. Gæta þarf þess að mannvirki og manngerðir hlutir sé ekki framkvæmdir á kosnað náttúrlegs umhverfis, lággróðurs og trjágróðurs. Sérstaklega þarf að huga að því að ekki skapist hætta af manngerðum hlutum þegar svæðið er ekki í skipulagðri notkun.

Nota ber sem mest af efni úr umhverfinu eða sem fellur vel að því s.s. bolefni, torf og grjót í hleðslur. Oft má sækja efni í skóginn með grisjun eða fá efni annars staðar sem til fellur vegna grisjunar. Þetta gildir um borð, bekki, skýli og skjólveggi. Notið ekki óvistvæn fúavarnarefni og gætið þess að timbur liggi ekki við jörð og geti þornað milli þess sem á það rignir.

Skrúfið hvorki né sagið í lifandi tré. Bönd skulu ekki notuð til langframa á lifandi tré.

Stærð og staðsetning ræðst af notkun og umhverfi. Eftir því sem trjágróður er meiri og stærri þolir hann stærri mannvirki. 

Náttúrulegar skjólgirðingar

Auðvelt er að skapa skjól með því að setja upp fléttaðar skjólgriðingar úr grönnu grisjunarefni sem oftast er auðvelt að finna í grenndarskóginum eða í nágrenni hans. Reknar eru niður stoðir með 50 cm millibili eða þéttar ef greinaefnið sem fléttað er í girðinguna er stutt. Hæð stoðanna ræðst af því hversu girðingin á að vera há. Gott er að leggja hana í boga því þá stendur hún stöðugri.

Leiktæki í skógi

Hægt er að nota lifandi tré sem klifurgrind og festa með böndum bolefni svo úr verði leiktæki eða þrektæki sem nota má í skipulegu skólastarfi eða til leikja meðan á dvöld stendur í grenndarskóginum. Leitast skal við að hafa slíkt í lágmarki og setja frekar upp slíkt á þemadögum eða af sérstöku tilefni og taka síðan niður aftur.

Gera verður greinarmun á skemmtilgarði og grenndarskógi þar sem náttúrulegt umhverfi á að vera uppspretta náms og sköpunar. Mannvirki kalla fljótt á viðhald sem auðvelt er að þreytast á, nema það sé gert að lið í námi nemenda.

Verkefni í skógi

Margt af því sem gera þarf í skógi og áður hefur verið greint frá má framkvæma sem hluta af námi nemenda.Móta má fyrir stígum með klippum og handsögum, safna saman greinum, klippa niður, bera sand og  kurl í stíga og rjóður, kvista upp/ afgreina/ fjarlægja kalgreinar  þar sem það á við og ganga frá þeim greinum, snyrta einstök tré, klippa margtoppa lægri tré, framkvæma margs konar mælingar á trjám, hanna rjóður, skipuleggja stíga og skrá minjar og lýsa. Koma fyrir fuglahúsum og fóðurstöðum, taka myndir vegna kortlaggningar, kanna fuglalíf og staðsetningar á hreiðrum.

Tæki og áhöld

Þau tæki og áhöld sem notuð eru í skógarvinnu og útinámi eiga flestir skólar ekki nema að litlu leyti. Töluverður kostnaður fylgir því að koma sér upp nægjanlega miklu magni af þeim svo að stór hópur nemenda geti unnið að verkefnum í skógi á sama tíma. Leita má eftir fjárhagsstuðningi foreldrafélaga, klúbba, fyrirtækja og einstaklinga í þeim tilgangi að koma sér upp nægjanlegum búnaði og tækjum til að geta hafið vinnu og nám í skóginum. Mikið af þessum búnaði endist lengi og þarf lítið að endurnýja þó dýr sé í upphafi. Varist að kaupa ódýrar eftirlíkingar, kaupið áhöld sem ætluð eru fagfólki í garðyrkju.

Dæmi:

3 stórar og 5 litlar greinaklippur, 3 samanbrjótanlegar greinasagir, 1 þrífótur vegna útieldunar með keðju og krók sem hægt er að hækka og lækka, 3 eða 5 l stálketill, 10 l stálpottur og eða pottpanna, verkfæra- og eldiviðarkista, 25 endurnýtanleg plastmál,tálguhnífar fyrir 10 nemendur, 5 bjúghnífar, 3 sett af handborum í þremur stærðum, 2 kljúfaxir (múraxir), 10 litlir bakpokar.

Önnur verkfæri og áhöld eru væntanlega til í skólanum vegna smíðakennslu eða náttúrfræðikennslu s.s. holjárn til nota við , stækkunargler, vasaljós o.fl. sem nýtist í tengslum við skógartengt útinám.

Eldstæði

Þegar elstæði er hannað og sett upp þarf að hafa eftirfarandi í huga:

Opið eldstæði kallar á óæskilega notkun utan skólatíma. Þá er gott að hafa lausa steina sem lagðir eru inn í bálstæðið á meðan það er ekki í notkun.

Frostfrítt efni (sandur eða grús) þarf að vera undir stæðinu og í góðan radíus í kringum það.

Oftast þarf að setja gott lag af sandi í rjóðrið til að það traðkist ekki upp.

Nota skal kantað náttúrugrjót í hleðsluna, 20-30 cm í þvermál í tvær til þrjár hæðir. Eðlilegast er að nota steina úr næsta nágrenni ef kostur er á því eða annað grjót sem fellur að staðnum sem eldstæðið er hlaðið á.

Minnsta gerð af eldstæði er 1 m í þvermál að utan. Í lengra eldstæði nægir að hafa það 35 cm í þvermál.

Setja síðan sand eða grús inn í stæðið að efri brún neðstu steinanna. Við það hækkar eldurinn og auðveldara að standa við hlið hans þegar unnið er við bálstæðið, s.s. við bakstur eða eldun.