Grenndarskógurinn

Við upphaf verkefnisins Lesið í skóginn með skólum í Reykjavík upp úr árinu 2001 var hugtakið grenndarskógur notað sem heiti yfir skólaskóga sem ætlaðir eru til útináms. Það hefur fest sig í sessi sem slíkt en grenndarskógur getur verið stálpaður skógur, garður, væntanlegur skógur eða ungskógur sem er í ræktun. Oft heita lundirnar ákveðnu nafni sem kennt er við ræktendann eða að nemendur hafa gefið honum nafn, gjarnan að undangenginni nafnasamkeppni.

Grenndarskógur er í göngufæri frá skólanum og er notaður í skipulegu útinámi sem tengist skólanámskrá og aðalnámskrá grunnskóla. Honum er ætlað að auka fjölbreytni í skólastarfi og styðja við markmið um einstaklingsmiðað nám.

Þá er einnig gert ráð fyrir að annað starf á vegum skólans s.s. uppákomur af ýmsum toga geti farið fram þar s.s. skólasetning og slit, afmæli, sýningar. viðburðir og verkefni sem tengjast samstarf við aðila í nærumhverfi s.s. foreldrafélög og aðila í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Hugmyndin hefur einnig teygt sig til íbúa í hverfinu sem geta nýtt grenndarskóginn til útivistar og yndis og fyrir viðburði í fjölskyldunni s.s. barnaafmæli.

Þannig gegnir grenndarskógurinn ákveðnu umhverfisuppeldislegu hlutverki sem hvetur til útiveru í nærumhverfi með persónulegum viðburðum sem tengja íbúana sterkari tilfinningum við nærumhverfi sitt í gegnum náttúrutengda upplifun.

Með því gætu myndast venjur og hefðir sem gera mannlífið litríkt og gleðiríkara. Það skráist síðan í menningu og sögu þjóðarinnar með tímanum þegar það þykir sjálfsagt að njóta skógarumhverfis í daglegu lífi án þess að þurfa að leggja land undir fót og aka um .langan veg til að geta notið náttúrunnar.

  • Hér til vinstri er að finna frekari upplýsingar um grenndarskóga