Mynd: Marie Thielke, https://www.flickr.com/photos/emme-dk/.

Jólatré hafa verið ræktuð á Íslandi frá því laust fyrir miðja 20. öld. Ræktunin hefur að mestu farið fram á skógræktarsvæðum og í birkiskógum eða birkikjarri. Framleiðsla jólatrjáa á ökrum hefur lítið verið stunduð hérlendis og því er lítil staðbundin þekking til á þessu sviði. Í útlöndum er algengt að jólatré séu ræktuð á frjósömum ökrum og jólatrjáaræktun er stunduð sem sjálfstæð búgrein með markvissa og umfangsmikla framleiðslu.

Óvíst er hvernig þessi búgrein á eftir að þróast hér á landi, hvort hún verður aðallega blönduð annarri skógrækt, til dæmis með ræktun undir skermi eldri trjáa eða hvort akurræktun á eftir að vaxa fiskur um hrygg. Hvort sem verður þarf ávallt að sinna væntanlegum jólatrjám meira og minna allt árið og á þessari síðu má finna leiðbeiningar um þau störf sem vinna þarf á mismunandi árstímum

Á þessari síðu eru gefnar leiðbeiningar um þau verk sem gott er að vinna í tilteknum mánuðum ársins.

Dagatal jólatrjáabóndans

September

Dagarnir eru farnir að styttast og farið að snjóa til fjalla. Rigning og rok ýtir hlýja haustveðrinu í burtu og flest tré eru farin að hausta sig. Það styttir upp inn á milli og þá er kjörið að fara út og tína köngla og fræ til að nota við beina sáningu í jörð. Þetta er ódýr og einföld aðferð til að fjölga barrtrjám. Hægt er að tína köngla og fræ af flestum barrtrjám en hér verður lögð áhersla á furu.

Stafafura er farin að sá sér út á Íslandi, í eldri skógum, meðal annars í Hallormsstað og í Skorradal. Í Steinadalsskóginum í Suðursveit sem gróðursettur var um 1954 er nýliðun stafafuru orðin umtalsverð eins og sést á mynd 1. Svæðið er orðið frægt og mjög umdeilt sem dæmi um hvernig stafafura og jafnvel greni getur sáð sér út og myndað „ógnvekjandi“ hættu fyrir vistkerfið á staðnum.

Fæst skógræktarfólk lítur á sáningu stafafuru sem ógn enda fer sjálfsáning fer hægt af stað hjá tegundinni. Stafafura er lengi að verða kynþroska miðað við aðrar frumherjategundir sem eiga það sameiginlegt að verða snemma kynþroska. Þar má nefna gráöl, sitkaöl og flestar víðitegundir. Miklu nær væri að segja að þessar tegundir geti verið raunverleg ógn við vistkerfi en stafafura.

Fræ er ekki alltaf frjóvgað og því er spírunarhæfni fræs misgóð. Sum ár eru góð fræár og sum ekki. Gott fræár verður við ákveðin skilyrði og byggist á flóknu samspili veðurfars og hita að minnsta kosti tvö sumur í röð. Hægt er að sjá í smásjá hvort fræ er frjóvgað. Mynd 2 sýnir muninn milli frjóvgaðs og ófrjóvgaðs fræs af eðalþin (Abies procera).

Bein sáning furufræja getur verið vænleg leið til að fjölga jólatrjám á ódýran hátt. Einn af kostum beinnar sáningar er að ekki er hætta á rótarsnúningi og því verulegar líkur á að trén verði beinvaxnari og fallegri á allan hátt.

Í „Frækorninu“ gefnu út af Skógræktarfélagi Íslands 2/98 er ítarleg umfjöllun um söfnun og sáningu barrtrjáfræs. Þar er góð lýsing á ferlinu og hvenær skuli gera hvað.

Söfnun fræs og bein sáning er hvorki flókið né tímafrekt ferli en ákveðin vinnubrögð er gott að tileinka sér.

Senda grein