Mynd: Marie Thielke, https://www.flickr.com/photos/emme-dk/.

Jólatré hafa verið ræktuð á Íslandi frá því laust fyrir miðja 20. öld. Ræktunin hefur að mestu farið fram á skógræktarsvæðum og í birkiskógum eða birkikjarri. Framleiðsla jólatrjáa á ökrum hefur lítið verið stunduð hérlendis og því er lítil staðbundin þekking til á þessu sviði. Í útlöndum er algengt að jólatré séu ræktuð á frjósömum ökrum og jólatrjáaræktun er stunduð sem sjálfstæð búgrein með markvissa og umfangsmikla framleiðslu.

Óvíst er hvernig þessi búgrein á eftir að þróast hér á landi, hvort hún verður aðallega blönduð annarri skógrækt, til dæmis með ræktun undir skermi eldri trjáa eða hvort akurræktun á eftir að vaxa fiskur um hrygg. Hvort sem verður þarf ávallt að sinna væntanlegum jólatrjám meira og minna allt árið og á þessari síðu má finna leiðbeiningar um þau störf sem vinna þarf á mismunandi árstímum

Á þessari síðu eru gefnar leiðbeiningar um þau verk sem gott er að vinna í tilteknum mánuðum ársins.

Dagatal jólatrjáabóndans

Október

Mismunandi litir eru notaðir til að flokka trén sem valin eru til að höggva..

Verkefnin í október

Þegar kemur fram í október er tímabært að fara út á ræktunarsvæðið til að velja og merkja tré sem eru tilbúin til sölu.

Formlegt íslenskt flokkunarkerfi fyrir jólatré hefur verið gefið út og má finna með því að smella hér. Eitt flokkunarkerfi er fyrir greni og þin en annað fyrir furu.

Mælt er með að ræktendur lesi flokkunarkerfið vandlega hafið það með sér útprentað eða á spjaldtölvu út í skóginn þegar farið er út til að merkja jólatré til sölu.

Léleg tré geta nýst í greinar til skreytinga og sömuleiðis má selja sem skreytingaefni greinar sem klipptar eru af þegar tré eru snyrt.

Gott að hafa meðferðis þegar tré eru valin

  1. Mæliprik,  2 m á hæð til að hafa með sér
  2. Vatnshelt band í mismunandi litum sem skilgreinir
    a. hvaða flokk tréð fer í (A eða B) og
    b. hversu hátt tréð er
  3. Bók eða blað til að skrifa hjá sér fjölda trjáa sem eru til sölu ásamt tegund, flokk og hæð.

Hugið strax að sölu trjánna

Mikilvægt er að hafa samband við verslanir og jólatrjáamarkaði sem fyrst og bjóða þeim söluhæf tré. Um leið er vert að athuga hvort og hversu mikið er tiltækt af greinum og öðru hráefni í skreytingar.


Senda grein