Tegundir jólatrjáa í ræktun á Íslandi

Tegundir í íslenskri jólatrjáarækt

Stafafura er algengasta innlenda jólatréð en einnig er selt íslenskt rauðgreni, blágreni, sitkagreni og fjallaþinur. Aðrar tegundir eru ekki nýttar sem jólatré að neinu marki þótt nokkrar til viðbótar gætu vel komið til greina eins og degli og skógarfura til dæmis. Nordmannsþinur, sem er algengasta innflutta jólatréð, er þó líklega of suðlæg tegund til að henta til jólatrjáaræktunar á Íslandi.

Ef auka á framleiðslu íslenskra jólatrjáa er talið vænlegast að auka hlutdeild stafafuru með markaðsstarfi og hefja framleiðslu á fjallaþin til að keppa við innfluttan nordmannsþin. Hjá Skógræktinni er nú unnið að kynbótum á fjallaþin undir stjórn Brynjars Skúlasonar, sérfræðings hjá Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá. Markmiðið er að rækta fræ með því að para saman úrvalstré og gætu fyrstu fræin fengist þroskast kringum árið 2020 og fyrstu kynbættu þinirnir komið á markað sem jólatré áratug síðar ef allt gengur vel. Haustið 2017 var gróðursett í tvo frægarða fjallaþins á Vöglum á Þelamörk Hörgárdal, annars vegar blátt afbrigði og hins vegar grænt. Þaðan er vænst fræja í fyllingu tímans til ræktunar fjallaþins sem jólatrés.

Skógræktin og skógræktarfélögin hafa verið aðalframleiðendur jólatrjáa til þessa en síðustu ár hafa nokkrir skógarbændur bæst í þann hóp undir forystu Landssamtaka skógareigenda. Á línuritinu hér fyrir neðan má sjá hvernig sala íslenskra jólatrjáa hefur skipst milli tegunda og breytingar hin síðari ár.

Fjöldi seldra íslenskra jólatrjáa eftir tegundum á árabilinu 2000-2013.
Smellið á súluritið til að sjá það stærra. Mynd: Else Møller.

Í Evrópu er nordmannsþinur (Abies nordmanniana) ein algengasta tegundin í jólatrjáarækt en aðrar algengar tegundir eru evrópuþinur (Abies alba), rauðgreni (Picea abies), skógarfura (Pinus sylvestris) og broddgreni (Picea pungens) sem er amerísk tegund. í Norður-Ameríku eru svolítið aðrar tegundir algengastar og fer það eftir svæðum. Nefna má tegundir eins og glæsiþin (Abies fraseri), balsamþin (Abies balsamea), degli (Pseudotsuga menziesii) og broddgreni (Picea pungens). Sömuleiðis er hin evrópska skógarfura (Pinus sylvestris) líka ein algengasta tegundin í jólatrjáarækt vestan hafs.

Fjöldi jólatrjáa sem seld voru á vegum skógræktarfélaga og Skógræktar ríkisins
á árunum 2000-2013. Smellið á línuritið til að sjá það stærra. Mynd: Else Møller.


Algengustu tegundirnar á Íslandi

Fura

Stafafura
Pinus contorta

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 30 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna tré með misbreiða krónu, tvær eða þrjár nálar í knippi
Vaxtarhraði: Lítill í fyrstu en síðan allhraður
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Passa upp á rótarkerfið, ljóselsk tegund
Styrkleikar: Gott frost- og vindþol, vex sæmilega í rýrum jarðvegi, mikil framleiðni, sjálfsáning, jólatré
Veikleikar: Rótarkerfið nær sér illa ef það hefur einu sinni aflagast og trén verða völt eða sveigð, nálakal, snjóbrot, grófar greinar á mest notaða kvæminu (Skagway)

Sem jólatré: Stafafura er réttilega ein aðaltegundin í íslenskri skógrækt og er, ásamt rússalerki, ein besta frumherjategundin á rýru landi. Hún hentar vel sem jólatré og heldur barrinu mjög vel. Er fallega græn þar sem hún vex við góð skilyrði. Ilmar vel.


Fyrsta stafafuran á Íslandi,
á Hallormsstað.

© Þröstur Eysteinsson

Þinur

Fjallaþinur
Abies lasiocarpa

Hæð: Miðlungsstórt tré, allt að 20 m hérlendis
Vaxtarlag: Beinvaxið, einstofna tré með keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur í fyrstu en síðan miðlungshraður
Hvaða landshluta: Einkum í innsveitum
Sérkröfur: Þarf skjól í æsku, helst skerm hávaxnari trjáa, þarf frjósaman jarðveg
Styrkleikar: Skuggþolin tegund, gott frostþol, formfegurð, jólatré
Veikleikar: Þináta, toppar brotna af í hvassviðri, ekki frumherjategund

Sem jólatré: Nokkrar vonir eru bundnar við fjallaþin sem jólatré. Nú er unnið að kvæmavali og kynbótum á fjallaþin í þeim tilgangi að finna erfðafræðilegan efnivið sem gefur örugg og góð jólatré. Fjallaþinur er mjög barrheldinn og ilmar vel. Hefur nokkuð breytilegan lit en er ljósari á lit en nordmannsþinur og jafnvel með bláleitan blæ.

Stálpaður fjallaþinur á Vöglum á Þelamörk vorið 2015.

© Pétur Halldórsson

Greni

Rauðgreni
Picea abies

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 25 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með fremur mjóa, keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Fremur hægur
Hvaða landshluta: Einkum í innsveitum
Sérkröfur: Skjól í æsku, ekki gróðursetja í lyngmóa
Styrkleikar: Gott frostþol vor og haust, viður, jólatré
Veikleikar: Köngulingur, lítið vind- og saltþol

Sem jólatré: Rauðgreni frá Norður-Noregi var mikið gróðursett á Íslandi frá 1950 og fram yfir 1970 en minna síðan. Það vex mjög hægt. Kvæmi frá Suður-Noregi vaxa betur. Í margra huga hið eina sanna jólatré, yfirleitt fallega formað, með fallega grænan lit og ilmar vel. Er viðkvæmt fyrir þurrki en getur haldið barrinu vel ef þess er vandlega gætt að aldrei þorni í á því.

Rauðgreni í Vaglaskógi. Rauðgreni með hangandi hliðargreinar er kallað kambgreni.

© Þröstur Eysteinsson

Blágreni
Picea engelmannii

Hæð: Stórt tré, a.m.k. 25 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með fremur mjóa, keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Oftast fremur lítill
Hvaða landshluta: Víða um land, síst í lágsveitum á S- og V-landi
Sérkröfur: Ekki gróðursetja í rýra lyngmóa
Styrkleikar: Sæmilegt frostþol, formfegurð, jólatré, blátt barr
Veikleikar: Sitkalús

Sem jólatré: Blágreni er snoturt tré en heldur hægvaxta fyrir timburframleiðslu og oft helst til krónumjótt sem jólatré. Gott garðtré og ljómandi jólatré. Viðkvæmt fyrir þurrki en heldur barrinu nokkru betur en rauðgreni. Hefur fallegan blágrænan lit. Er stundum blendingur við hvítgreni og getur þá haft óþægilega lykt fyrst í stað.

  Blágreni í Haukadalsskógi.

© Pétur Halldórsson

Sitkagreni
Picea sitchensis

Hæð: Mjög stórt tré, mun ná a.m.k. 40 m hérlendis
Vaxtarlag: Einstofna, beinvaxið tré með breiða, keilulaga krónu
Vaxtarhraði: Hægur í fyrstu en síðan hraður eða mjög hraður áratugum saman
Hvaða landshluta: Um land allt
Sérkröfur: Forðast að planta í frostpolla og rýra lyngmóa
Styrkleikar: Gott vind- og saltþol, gott frostþol að vori, timbur
Veikleikar: Haustkal í æsku, sitkalús,

Sem jólatré: Sitkagreni er ein af uppistöðutegundunum í íslenskri skógrækt og verður eitt helsta skógartré landsins í framtíðinni. Getur hentað vel sem jólatré en sumir setja beittar barrnálar tegundarinnar fyrir sig. Hefur fallegan lit með bláleitum tóni og þétta greinabyggingu. Er viðkvæmt fyrir þurrki og þarf því að gæta vel að vökvun til að það haldi barrinu vel.

Einstaklega formfagurt sitkagreni í Svartagili í Haukadal.

© Þröstur Eysteinsson

Senda grein