Stefnuáherslur

Stefnuáherslur Skógræktarinnar

Framtíðarsýn

Skógrækt er árangursrík, skilvirk og markmiðadrifin. Skógar landsins eru þróttmiklir, heilbrigðir og í þeim vaxa vel aðlagaðar tegundir sem hafa fjölþættan ávinning fyrir land, þjóð og lífríki.

Skógræktin starfar á grundvelli sjálfbærrar þróunar, í þágu samfélagsins og í sátt við verndarsjónarmið og aðra landnotkun. Fjölþættur ávinningur skóga er viðurkenndur til jafns við önnur umhverfismál og aðra landnotkun. Aukin skógrækt er snar þáttur í viðbrögðum Íslendinga við loftslagsbreytingum og annarri náttúruvá.

Skógrækt er efnahagslega, umhverfislega og félagslega sjálfbær. Innlent timbur og aðrar skógarafurðir efla byggð, skapa störf, spara gjaldeyri og draga úr vistsporum innflutnings á timbri.

Eftirfarandi stefnuáherslur voru settar fram eftir ítarlega greiningarvinnu fyrri hluta árs 2016 í tengslum við sameiningu skógræktarstofnana ríkisins í eina nýja stofnun, Skógræktina.

Aukin skógarþekja og landsáætlun í skógrækt

 • Að byggja upp skógarauðlind á Íslandi.
 • Að tryggja góða og vandaða áætlanagerð með áherslu á heildstæða landsáætlun í skógrækt og tengja hana með skýrum hætti við fjárhagsáætlun hvers árs og þriggja ára áætlun.
 • Að auka umhverfisgæði með bindingu kolefnis, jarðvegsvernd og vatnsvernd með skógrækt á stórum, samfelldum svæðum.
 • Að þróa og reka útivistarsvæði fyrir almenning og ferðamenn og mynda skjól fyrir fólk, búpening og jarðrækt.
 • Að vernda og endurheimta birkiskóga.
 • Að fjölga skógræktar- og skjólbeltasamningum við landeigendur og aðra skógræktendur.
 • Að viðurkennt verði að skógrækt sé ein af forsendum ýmissar ræktunar í landbúnaði, t.d. með skjólbeltarækt, verndarskógum og með ræktun hagaskóga.
 • Að innleiða tækni og tækjabúnað sem hentar aðstæðum á öllum stigum skógræktar.

Efling rannsókna og þekkingar á skógrækt á Íslandi

 • Að efla rannsóknir og auka þekkingu á skógrækt á Íslandi, efla fræðslu til að auka skilning meðal þjóðarinnar og innan skólakerfisins á fjölbreyttu notagildi skóga og mikilvægi skógræktar.
 • Að taka þátt í og miðla alþjóðlegu rannsóknarstarfi.
 • Að auka þekkingu og rannsóknir á svæðisbundnum aðstæðum þannig að metnaðarfull en raunhæf markmið um aukna skógarþekju sem sett eru fram í landsáætlun og landshlutaáætlunum um skógrækt nái fram að ganga.
 • Að efla rannsóknir á úrvinnslu og viðargæðum íslensks trjáviðar.
 • Að rannsóknir og miðlun þeirra verði til þess að auka gæði, arðsemi, nýsköpun og árangur í skógrækt á Íslandi.
 • Að efla og styrkja samvinnu milli þeirra sem sinna rannsóknum innan Skógræktarinnar og þeirra sem sinna skógrækt á vettvangi.
 • Að byggja upp öflun og miðlun landupplýsinga, hagtalna og upplýsinga um árangur á sviði skógræktar og bæta þannig framkvæmd skógræktarstarfs.

Kynningarstarf og ímyndarvinna

 • Að miðla upplýsingum um skógrækt á Íslandi og um strauma og stefnur í skógrækt um allan heim, viðhalda þannig jákvæðri ímynd skógræktar og byggja upp sterka ímynd nýrrar stofnunar. Meðbyr með skógrækt byggist aðallega á viðhorfum almennings. Bætt ímynd skógræktar hjá almenningi skilar sér með því að auka þekkingu og skilning á því hvað skógrækt er og þeim tækifærum sem felast í skógarauðlindinni.
 • Að efla áhuga landeigenda á skógrækt og laða þá til samstarfs um nýræktun skóga, ekki síst þeirra sem festa vilja fé í arðsömum langtímafjárfestingum og þeirra sem binda vilja kolefni með skógrækt.
 • Að allur landbúnaður á Íslandi verði kolefnisjafnaður í nokkrum áföngum með skóg- og skjólbeltarækt.

Skipulag og innviðir nýrrar stofnunar

 • Að innleiða sterka og opna stjórnunarhætti innan Skógræktarinnar til að ná markmiðum nýrrar stofnunar um aukna skilvirkni skógræktarstarfsins, öfluga samvinnu starfsmanna og aukin umsvif í skógrækt á Íslandi.
 • Að starfsmenn Skógræktarinnar hafi ávallt þær upplýsingar sem þeir þurfa til að vinna sín störf, vinni í sameiginlegu skjalakerfi, hafi aðgang að sameiginlegum gagnagrunnum og taki þátt í styttri og lengri fræðslufundum sem unnt verði að fylgjast með í gegnum fjarfundabúnað.

Markaðs- og sölumál

 • Að byggja upp samstarf innan skógargeirans til að samhæfa getu á sviði markaðs- og sölumála með áherslu á að tryggja að markaðshlutdeild íslenskrar framleiðslu haldist í takti við aukna innlenda framleiðslu timburs og annarra skógarafurða. Skógræktin gegni fyrst og síðast frumkvæðis- og samræmingarhlutverki á þessu sviði og dragi sig hvorki of snemma né of seint til hlés þegar markaður hefur myndast.
 • Að efla þekkingu, þróa tækni og aðferðir á allri virðiskeðju skógarafurða, þ.e. frá skógi til neytenda.
 • Að nýta reynslu annarra þjóða og fylgjast með þróun markaðs- og sölumála meðal samstarfsþjóða.

Samstarf og áherslur gagnvart samstarfs- og hagsmunaaðilum

 • Að vinna með samstarfsaðilum og systurstofnunum að framgangi skógræktar í landinu.

Stefnumótun Skógræktarinnar fór fram veturinn 2015-2016 og má nálgast hér á vefnum (sjá kafla til vinstri) og einnig hlaða niður í heild sinni: