Fréttir

02.09.2009

Skaðvaldar í skógrækt

  • Skaðvaldar í skógrækt
    (mynd: Halldór Sverrisson) Frétt 2. sept. 2009

Dagana 19.-21. ágúst var  útbreiðsla sjúkdóma og meindýra á trjágróðri og landgræðsluplöntum á Suðaustur- og Suðurlandi könnuð. Leiðangursmenn voru Halldór Sverrisson og Guðmundur Halldórsson.  Mjög miklar beitarskemmdir af völdum ertuyglulirfa voru á lúpínu, á sumum stöðum á þó mófeti einnig hlut að máli. Óhætt er að fullyrða að meginhluti lúpínusvæða á Suðaustur- og Suðurlandi sé skemmdur af þessum völdum og yfirleitt mjög mikið skemmdur á Suðurlandi. Ástand trjágróðurs var yfirleitt gott, lítið um asparryð og sitkalús og ekki er að vænta faraldra af þessum tegundum nú sumar eða haust.  Birki var víðast lítið skemmt, en eldri skemmdir á birki í Rangárvallasýslu voru áberandi og er þar töluvert um dauð eða mikið skemmd tré. Á Markarfljótsaurum er birki skemmt af þurrki. Birkikemba (birkismuga) virðist lítið breiðast út.  Merki um nýjan skaðvald, barrvefara (=lerkivefara), fundust í Hveragerði og á Snæfoksstöðum. Þessi tegund fannst fyrst hér á landi fyrir um hálfum öðrum áratug, en þetta eru fyrstu skemmdir sem sjást af hennar völdum.  Skemmda hefur einnig orðið vart á Fljótsdalshéraði og á höfuðborgarsvæðinu. Eins og nafnið bendir til leggst barrvefari á allar tegundir barrtrjáa.

Á myndinni hér að ofan má sjá birki á Markarfljótsaurum sem visnað hefur af þurrki. Öspin er óskemmd.

Neðri myndin sýnir furu sem skemmd er af barrvefara.


Skaðvaldar í skógrækt

(myndir: Halldór Sverrisson)
banner1