Fréttir

20.08.2009

Kolbjörk

  • Matthias Hunziker, meistaranemi, vinnur að rannsókn um kolefnisforða í birkiskógum.
    (mynd: Guðmundur Halldórsson, Landgræðslu ríkisins)

Kolbjörk er verkefni þar sem umhverfisbreytingar sem verða í kjöfar endurheimtar birkiskóga eru rannsakaðar á svæðinu í kringum Heklu. Vistkerfi endurheimtra birkiskóga á mismunandi aldri eru borin saman við gamla birkiskóga og örfoka land. Verkefnið er samstarfsverkefni Rannsóknastöðvar skógræktar ríkisins á Mógilsá, Landbúnaðarháskólans og Landgræðslunnar og er styrkt af Umhverfis- og Orkusjóði Orkuveitu Reykjavíkur (UOOR). Það hófst 2008 og lýkur 2010.   

Nú vinna í verkefninu þrír framhaldsnemar; einn íslenskur doktorsnemi frá Ohio State Univeristy í Bandaríkjunum og tveir meistaranemar frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum í Basel í Sviss, auk öflugs hóps sérfræðinga frá öllum þremur stofnununum sem að verkefninu standa. Rannsakaðir eru fjölmargir þættir vistkerfisins, svo sem jarðvegseiginleikar, jarðvegslíf, gróðurfar, flæði kolefnis, kolefnisforði í lífmassa og jarðvegi, trjávöxtur, o.fl..   

Nú í sumar er m.a. búið að grafa fjölmörg jarðvegssnið til að mæla breytingar á jarðvegseiginleikum sem verða í kjölfar landgræðslu á orfoka landi og með endurheimt birkiskóga. Einnig fara fram stöðugar mælingar á kolefnisupptöku og kolefnislosun svæðanna. Með þessum rannsóknum eykst skilningur á kolefnishringrás náttúrulegra birkiskóga og hvaða umhverfisþættir það eru sem takmarka vöxt þeirra. Einnig fara nú í ágúst fram mælingar á þeim breytingum sem verða á lífríkinu (gróðurfar og jarðvegslíf) í kjölfar endurheimtar á örfoka svæðum í kringum Heklu.


Um mynd:
Meistaraneminn Matthias Hunziker frá Basel háskóla er að vinna rannsókn sem fjallar kolefnisforða í birkiskógum, bæði ofanjarðar og neðan. Hann er hér í Hraunteig í landi Næfurholts og Hóla undir Heklu við uppskerumælingar á rótarkerfi birkis. Hann fylgir rótunum þar til þær eru aðeins 2 mm í þvermál (svokallaðar grófrætur) og það tekur u.þ.b. 4 daga að mæla hvert tré.

(mynd: Guðmundur Halldórsson, Landgræðslu ríkisins)
banner1