Fréttir

03.04.2007

Fyrsta grisjun í þjóðskóginum í Jórvík

Skógrækt ríksins var gefin hluti af jörðinni Jórvík í Breiðdal 1958.  Var fljótlega hafist handa við að friða jörðina og og á 10 ára tímabili frá 1962 – 1973 var töluvert gróðursett í landið.  Mikill árangur hefur orðið að friðuninni og hefur landið sem heild tekið stakkaskiptum.   Markmiðið með gróðursetningunum þarna var að prófa þær tegundir sem helst voru ræktaðar á þessu tímabili og finna út hvernig þær myndu spjara sig samanborið við önnur svæði á landinu.  Benda má áhugasömum á ýtarlega grein Sigurðar Blöndal Fyrr og nú  í Jórvík í Breiðdal, í ársriti Skógræktarfélags Íslands seinna hefti 2006.

Fyrstu gróðursetningarnar eru nú að verða álitlegur skógur og var hafist handa nú í vetur að grisja fyrsta reitinn.  Reiturinn sem byrjað var á er hvítgrenireitur ½ ha að stærð og er kvæmið Summit Lake sem var gróðursettur 1964.  Samkvæmt mælingareit sem tekin var í mars voru standandi tré 5.200 tré/ha. sem er mjög mikill þéttleiki og áformað er að grisja niður í 1.200 – 1.500 tré/ha.  Meðalhæðin er 8 metrar og hæstu tré milli 11 -12 m.  Þarna mældist einhver mesti vöxtur í hvítgreni sem vitað er um í landinu, eða 6 rúmmetrar/ha/ári.

Það er fyrirtækið Skógráð ehf sem tók að sér grisjuninna og voru þeir Loftur Jónsson og Ásmundur Þórarinsson langt komnir með reitinn þegar nokkrir starfsmenn Skógræktar ríkisins heimsóttu þá um daginn.
banner3