Fréttir

22.02.2007

Fréttatilkynning - Skógrækt ríkisins kærir röskun á skóglendi í Heiðmörk

Skógrækt ríkisins hefur kært framkvæmdir í Heiðmörk, sem fram fóru þann 9. febrúar sl., á vegum Kópavogsbæjar vegna fyrirhugaðrar lagningar á vatnslögn. Framkvæmdirnar voru unnar af verktakfyrirtækinu Klæðningu ehf. Forsendur kærunnar eru þær að umræddar framkvæmdir eru brot á 6. og 7 gr. skógræktarlaga þar sem m.a. segir að ekkert svæði megi rjóðurfella nema með samþykki skógræktarstjóra, og þá því aðeins, að sá sem heggur skuldbindi sig til þess að græða upp skóg að nýju á öðru jafn stóru svæði og bannað er að stinga upp og flytja brott tré og hvers konar ungviði á leyfis skógrlktarstjóra eða skógarvarða.  Samþykki skógræktarstjóra liggur ekki fyrir í þessu tilviki.

Í nútíma stjórnsýslu er eðlilegt að samráð sé haft við Skógrækt ríkisins á skipulagsstigi fyrir framkvæmdir sem hafa í för með sér skógareyðingu, að mótvægisaðgerðir í formi áætlunar um að græða upp skóg að nýju á öðru jafn stóru svæði séu hluti af viðkomandi skipulagsáætlun og að samþykki skógræktarstjóra sé fengið strax og þær áætlanir liggja fyrir. Hvorki Kópavogsbær né Reykjavíkurborg höfðu fyrir því að leita samþykkis skógræktarstjóra á skipulagsstigi vatnsveitulagnarinnar í Heiðmörk.

Ljóst er að á komandi árum munu æ fleiri mál af þessu tagi koma upp þegar byggð á höfuðborgarsvæðinu og víðar stækkar inn í skógræktarsvæði í nágrenni sínu. Mikilvægt er að þessi skógræktarsvæði nýtist íbúum nýju hverfanna sem skjólgjafar, til fegrunar lands og til útivistar en séu ekki rudd burt af því það hentar betur stórvirkum vinnuvélum.

Við stækkun þéttbýlis er eflaust óhjákvæmilegt að skógur þurfi sumstaðar að víkja.  Hins vegar er mikilvægt að þar sé farið að öllu með gát og góðu skipulagi og að farið sé að lögum.  banner5