Fréttir

19.01.2007

"Almenningur skynjar að skógrækt er mikilvæg mótvægisaðgerð gegn loflagsbreytingum af mannavöldum"

Hér er birtur texti viðtals Péturs Halldórssonar útvarpsmanns við Brynhildi Bjarnadóttur, líffræðing, doktorsnema og sérfræðing á Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins, um rannsóknir hennar á kolefnisbindingu í íslenskum skógum (Úr þættinum „Vítt og breitt“ á Rás 1 ríkisútvarpsins, 17. janúar 2007). Hlýða má á viðtalið með því að smella HÉR.

Með ljóstillífun í trjám og öðrum gróðri umbreytist koldíoxíð í beðmi og aðrar sykrur og helst þar bundið (í trjávið, greinum, laufi, rótum, undirgróðri og jarðvegi) þar til kolefnið losnar úr læðingi (sem koldíoxíð) við öndun, rotnun eða bruna (mynd frá Christian Science Monitor).

Pétur Halldórsson: Kolefnisbinding, þetta er vinsælt orð hjá okkur þessi árin þegar talað er um loftlagsbreytingar og þá er nefndur líka íslenskur skógur sem er sagður binda jafnvel meira af kolefni heldur en gengur og gerist um skóga, vegna  t.d. jarðvegsgerðar og annarra aðstæðna á Íslandi. Brynhildur Bjarnadóttir er að vinna doktorsverkefni í skógarfræðum eða bindingarfræðum eða hvernig eigum við að orða þetta, Brynhildur?

Brynhildur Bjarnadóttir, doktorsnemi: Þetta er kallað kerfisvistfræði og felur í  sér að við erum að skoða þau ferli sem liggja á bak við kolefnisbindinguna. Við erum að skoða kolefnisbindinguna sjálfa en ekki síður ferlin sem liggja að baki henni og stjórna því hversu mikil uppsöfnun kolefnis verður í íslenskum skógum.

Pétur: „Við,“ segir þú. Hverjir vinna að þessu aðrir en þú?

Brynhildur: Ég vinn hjá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá og hef verið núna um þriggja ára skeið í doktorsnámi á þeirra vegum í Svíþjóð, við Lundarháskóla, þar sem ég hef verið einmitt að fókúsera á kolefnisbindingu með skógrækt og áhrif hennar á umhverfið þar sem skógurinn vex upp.

Pétur: Nú er erfitt að ímynda sér hvernig hægt er að mæla svona lagað, hvað binst í skógi af kolefni. Hvernig er eiginlega farið að þessu?

Brynhildur: Þær spár og þau líkön sem eru til staðar í dag eru byggð á því sem við köllum skógvaxtamælingar. Það eru það sem við köllum „óbeinar mælingar“. Þá er farið út í skóg og mælt hversu mikið skógurinn hefur vaxið að rúmmáli. Og með því að nota ákveðnar jöfnur og líkingar þá getum við skalað upp og metið hversu mikið tiltekinn skógur er að binda af kolefni á hektara. Önnur tækni er sú sem að ég hef verið að sérhæfa mig í byggir á því að mæla kolefnisbindinguna um leið og hún gerist. Þetta eru „beinar mælingar“  og þær fara þannig fram að við komum upp tækjum fyrir ofan vistkerfið, þ.e. ofan við skóginn, og þar mælum við flæði koldíoxíðs fyrir ofan vistkerfið, þ.e.a.s. við mælum hvort koldíoxíð er að flytjast niður inn í vistkerfið, en þá á sér stað kolefnisbinding, eða hvort flæði kolefnis eða koldíoxíðs er frá skóginum, en þá á sér stað  kolefnislosun. Og með því að gera svona mælingar nógu ört og yfir nógu langan tíma þá fáum við út kolefnisjöfnuð ársins, þ.e.a.s. ársgildi á það hversu mikið kolefni svona skógur er að binda.

Pétur: Þannig að þetta er svona eiginlega eins og að mæla hita með hitamæli en þetta er nú kannski svolítið stærri og viðameiri tæki heldur en hitamælir.

Brynhildur: Já þetta eru mjög stór og viðamikil tæki og þau eru fest upp í stórt mastur og standa í fjögurra metra hæð fyrir ofan ungan skóg á Austurlandi. Við settum þetta upp yfir rannsóknasvæði í landi Vallaness á Fljótsdalshéraði. Þar er að vaxa upp ungur lerkiskógur og tækin voru sett þar upp og nú liggja fyrir þriggja ára mælingar á þessum skógi og þessu vistkerfi. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að á ársgrundvelli sé svona ungur lerkiskógur að binda u.þ.b. 2 tonn á hektara af hreinu kolefni á ári sem samsvarar rúmlega 6 tonnum af koldíoxíði á hektara.

Pétur: Ef við setjum það í samhengi við tilveru Íslendings. Hvað er þetta mikil binding miðað t.d. það sem heimilisbíllinn losar eða íslenskt heimili?

Brynhildur: Þessi tala samsvarar u.þ.b. ársakstri hjá  meðal-Jóni sem keyrir kannski á milli 25 og 30 þúsund kílómetra á ári.Þá samsvarar þessi binding, þ.e.a.s. 2 tonn á hektara, u.þ.b. þeim útblæstri.

Pétur: Þannig að íslensk fjölskylda, ef hún fær samviskubit yfir því að vera að menga þá getur hún kannski séð til þess að það verði ræktaður einn hektari af lerkiskógi einhvers staðar og þá er samviskubitið horfið eða hvað?

Brynhildur: Já eigum við ekki að segja það! Já þá getur hún kallað sig „kolefnishlutlausa“ í þessum málum og ætti að líða betur.

Pétur: En hvar er þetta doktorsverkefni þitt statt, hvað er búið, hverjar eru niðurstöðurnar núna og hvað er framundan?

Brynhildur: Ég eyddi fyrstu þremur árunum af þessu verkefni í Svíþjóð þar sem ég var að kynna mér þessa tækni sem hefur verið mikið notað á Norðurlöndunum og hefur ekki verið gerð í neinum mæli hér á Íslandi áður. Þannig að þeim hluta er lokið og ég er sem sagt búin að taka þá kúrsa og öll þau fræði sem þarf í kringum þessi tæki. Rannsóknirnar fyrir austan og tækin setti ég líka upp árið 2003 þegar ég byrjaði í þessu og þau hafa gengið allan tímann síðan. Þannig að nú liggur eiginlega fyrir að vinna úr þessum gögnum öllum saman, koma þessu niður á pappíra og fá út úr þessu tölur og það er svona þessi fasi sem að ég er að komast í núna.

Pétur: En mælingatækin, verða þau á sama stað áfram eða hvað?

Brynhildur: Við reiknum með að mæla á þessum stað í u.þ.b. 1 til 2 ár í viðbót. Síðan þætti okkur mjög áhugavert að færa tækin og skoða íslenskan birkiskóg. Íslenska birkið hefur nú svo mikla sérstöðu og okkur langar til þess að vinna sambærilegar mælingar yfir því og sjá hversu mikil kolefnisbinding á sér stað í íslenskum birkiskógi.

Pétur: Heldurðu að það sé mikill munur á því?

Brynhildur: Ég hugsa að bindingin sé minni vegna þess að lerkið er hraðvaxnari tegund, og þarf ekki eins góð vaxtarskilyrði og birkið. Ég hugsa þess vegna að kolefnisbindingin í birkinu sé minni á ársgrundvelli.

Pétur: En þið eruð komin með talsvert skemmtilegar niðurstöður nú þegar úr þessu.

Brynhildur: Já við erum komin með bara mjög fína niðurstöður sem samræmast mjög vel því sem aðrir rannsóknahópar á Norðurlöndunum hafa verið að fá og okkar gildi falla þar mjög vel inn á milli. Þannig að við erum mjög sátt við niðurstöðurnar. Það er líka sérstakt að vera að stunda svona rannsóknir á Íslandi vegna þess að okkar sérstaða felst kannski fyrst og fremst í því að við eigum svo mikið skóglaust land til að planta skógi í. Norðurlöndin standa flest frammi fyrir því að þar liggur í rauninni ekkert land á lausu til þess að græða skóga á. Þar er vissulega stunduð skógrækt á nánast öllum svæðum en okkar sérstaða felst í því að við getum ræktað nýjan skóg á ótrúlega miklu landi án þess að vera að fórna einhverju öðru í staðinn, t.d. ræktuðu landi eða skóglausu landi með náttúruverndargildi. Þannig að það er svolítið skemmtilegt að við getum aukið kolefnisbindinguna bara með því að rækta umtalsvert meiri skóg á næstu árum.

Pétur: Nú væntanlega nýtast þessar niðurstöður í ýmiskonar starfi, t.d. ja, það er mikið talað um kolefnisbókhald og jafnvel viðskipti með kolefni og losunarkvóta og svo framvegis. Fer þetta allt saman í gang mjög, svona á næstu misserum?

Brynhildur: Þetta er þegar farið í gang. Við Íslendingar höfum þurft að skila inn skýrslum  árlega yfir hversu mikið við höfum bæði verið að losa og hvaða mótvægisaðgerðir við erum að vinna að.. En svona rannsóknir eru í rauninni bara auka innlegg og hjálpa okkur ennþá betur til þess að fá nákvæmara og traustara mat sem við þurfum að gera. Við þurfum að hafa alþjóðlegar birtar vísindaniðurstöður til grundvallar svona mati ef við ætlum að gera þetta rétt og nákvæmlega eins og við viljum gera.

Pétur: Er nægilega vel búið að þessum rannsóknum, hafið þið nóga peninga til að stunda þessar rannsóknir?

Brynhildur: Við fórum af stað með ágætis styrkupphæð frá Norrænu ráðherranefndinni. sem var hluti af norrænu öndvegissetri sem að við Íslendingar tókum þátt í. Þeir peningar svona eru að renna sitt síðasta skeið en við sækjum ótrauð í ýmsar áttir og vonumst til þess að geta haldið þessum rannsóknum áfram.

Pétur: Eitt af því sem er talað um mikið núna, það eru stóriðjuverin. Til dæmis ef við tökum eitt álver, ef stjórnendur álversins vildu hafa góða samvisku og binda jafnmikið og álverið losar, hvað yrði það mikil skógrækt?

Brynhildur: Já, þetta er náttúrulega allt leikur að tölum. Ef við segjum að eitt álver sé að blása út sem samsvarar u.þ.b. 500 þúsund tonnum af CO2-ígildum á ári, þá má með þessari bindingu sem að við erum að sjá hérna á Íslandi sagt sem svo að þeir þurfi að, að rækta nýjan skóg á  u.þ.b. 1% af öllu landinu til þess að geta kallast hlutlausir. Þetta eru auðvitað heilmiklar tölur en alls ekki óraunhæft.

Pétur: Alls ekki óraunhæft. Heldurðu að það sé jafnvel hugsanlegt að þetta verði gert að einhverju leyti?

Brynhildur: Ég veit það ekki. Ég veit að þessi stóriðjufyrirtæki r hafa metnaðarfullar umhverfisstefnur og gera örugglega sitt í því til þess að geta staðið undir svona skuldbindingum.

Pétur: En varðandi rannsóknirnar, þú ert langt í frá búin. Er eitthvað sem að er ekki verið að gera sem að ætti að vera að gera?

Brynhildur: Það sem okkur langar til þess að byrja á er að rannsaka nánar kolefnisbindingu í jarðvegi á skógræktarsvæðum. Við höfum fyrst og fremst verið að fókúsera á bindingu í trjánum í skóginum en nýjustu rannsóknir hafa sýnt að u.þ.b. 60% af öllu því kolefeni sem binst í skógi fer í jarðveginn, sem sagt fer neðanjarðar. Þannig að á milli 30 og 40%  af kolefninu sem binst í skóginum er að finna í  „ofanjarðarhluta skógarins“, m.ö.o. trjábol, greinum og laufum. Og þá komum við enn og aftur að sérstöðu okkar Íslendinga. Við erum með eldfjallajarðveg,  andisól, sem segja má að sé duglegur í að binda kolefni, þ.e.a.s. hefur ríka tilhneigingu til þess að safna upp kolefni. Og þetta er skref sem okkur langar til þess að taka á næstunni, skoða betur hversu mikið kolefni er að bindast í íslenska jarðveginum þegar skógur vex upp á skóglausu svæði.

Pétur: Og til þess eru notaðar aðrar aðferðir heldur en að mæla þetta í skógi?

Brynhildur: Reyndar en við getum líka nýtt okkur þekkinguna og notað tækin sem við erum með í skóginum til þess að hjálpa okkur að hluta til.

Pétur: Sumir tala um að á síðasta ári, árinu 2006, hafi  orðið þáttaskil. Þá hafi skyndilega heimsbyggðin áttað sig á því að það væri loftlagsvandi. Þú sem ungur vísindamaður, finnurðu fyrir því að það sé aukinn áhugi og það jafnvel hjálpi ykkur í ykkar starfi.

Brynhildur: Já vissulega við finnum það að það eru meiri og meiri kröfur  á okkur um að sýna og birta traustar og áreiðanlegar tölur og það er bara mjög jákvætt. Við finnum að það er mikil vakning að eiga sér stað hjá almenningi og hann skynjar að skógræktin er mikilvæg mótvægisaðgerð gegn loflagsbreytingum af mannavöldum og það er bara af hinu góða. Þannig að við lítum fram á veginn full af bjartsýni og vonumst til þess að auka skógrækt mikið á næstu árum.

Pétur: Brynhildur Bjarnadóttir, þakka þér fyrir.

Brynhildur Bjarnadóttir: Takk sömuleiðis.


Nánar má lesa um rannsóknina HÉR.
banner1