Fréttir

24.06.2010

Umhverfisráðherra í heimsókn á Mógilsá

  • frett_24062010_1

Mánudaginn 21. júní heimsótti Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá. Ekki er annað hægt að segja en veðrið hafi tekið vel á móti henni, glampandi sól og skógurinn í kringum rannsóknastöðina skartaði sínu fegursta.

Heimsóknin hófst með stuttri kynningu á stöðinni og starfsemi hennar en að því loknu spjallaði ráðherra við starfsfólk yfir kaffibolla. Að því loknu voru henni sýnd húsakynni rannsóknastöðvarinnar. Heimsókninni lauk síðan með stuttri göngu um umhverfið, þar sem umhverfisráðherra fékk að spreyta sig á trjámælingum með aðstoð þeirra Björns Traustasonar og Bjarka Kjartanssonar. Mældi hún ösp af klóninum Húsa sem gróðursett var 1974. Öspin reyndist 16,4 m á hæð og þvermálið var 48,9 cm í brjósthæð. Að mælingu loknu fékk ráðherra afhent skjal með upplýsingum um tréð sem mælt var þar sem fram komu helstu upplýsingar um tréð, auk þess hver mældi.

Heimsóknin þótti takast vel og þakkar starfsfólk Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá þeim Svandísi, Magnúsi og Jóni Geir kærlega fyrir skemmtilega stund og býður þau velkomin aftur við fyrsta tækifæri.


Efri myndin sýnir Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, hæðarmæla ösp.
Mynd: Edda S. Oddsdóttir

Á myndinni hér að neðan afhendir Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá, umhverfisráðherra skjal með helstu upplýsingum um tréð sem hún mældi.
Mynd: Bjarki Kjartansson

frett_24062010_2


Texti: Edda S. Oddsdóttir
banner4