Fréttir

18.12.2008

Niðurstöður könnunar meðal rjúpnaveiðimanna

Á haustmánuðum var tilrauna- og þróunarverkefninu rjupa.is hleypt af stokkunum. Að því stóð Skógráð ehf í samstarfi við Skógrækt ríkisins og voru veiðileyfi á rjúpu í nokkrum þjóðskógum seld á vefsíðunni. Tilgangur verkefnisins var að hafa jákvæð áhrif á veiðimenningu Íslendinga og stuðla að öruggari og ánægjulegri veiðiferðum.

Á vefsíðunni rjupa.is gátu veiðimenn skoðað þau svæði sem í boði voru, valið veiðidaga, lesið sér til um skilmála og verð veiðidags. Einnig var mögulegt að hlaða niður korti með afmörkun svæðsins og mörkum þess í GPS-tæki. Veiðimenn þurftu að staðfesta að þeir hefðu gilt veiðikort áður en þeir bókuðu, greiða fyrir leyfið með kreditkorti eða í heimabanka og prenta út kvittun sem þeir höfðu meðferðis á veiðunum til staðfestingar gagnvart veiðirétthafa og lögreglu.

Í lok veiðitímabilsins voru veiðimenn hvattir til að svara stuttri könnun um verkefnið og gefa upp fjölda veiddra fugla. Almenn ánægja var með þennan nýja vef, en um 80% notenda voru ánægðir og ætla sér að nota vefinn aftur. Flestir notfærðu sér kortin af svæðunum en færri hlóðu niður GPS-punktum. Helmingur veiðimannanna veiddi á Suðurlandi, þ.e. í Haukadalsskógi, en aðrir veiddu við Bakkasel í Fnjóskadal og á Héraði. Veiðin var misjöfn eins og gengur; sumir veiddu ekkert en aðrir veiddu töluvert. Töldu veiðimenn verðlagninguna almennt vera sanngjarna en margir hafa áhuga á að veiða á fleiri svæðum í framtíðinni.

Tilraunin þóttist yfir heildina takast mjög vel en að ýmsu er að hyggja fyrir næsta veiðitímabil. Skógráð ehf. og Skógrækt ríkisins þakka veiðimönnum þátttökuna og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi.

banner2