Fréttir

26.11.2008

Bók um áhrif nýskógræktar

  • frett_26112008

Út er komin bókin AFFORNORD – effects of afforestation on ecosystems, landscape and rural development. Ritstjórar eru Guðmundur Halldórsson, Edda Sigurdís Oddsdóttir og Bjarni Diðrik Sigurðsson. Bókin er til sölu hjá Norrænu Ráðherranefndinni og þar er líka hægt að hlaða niður pdf útgáfu af bókinni.

 

Í bókinni eru dregnar saman niðurstöður verkefnisins AFFORNORD um áhrif nýskógræktar á vistkerfi, landslag og byggðaþróun. Verkefnið var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og var þemaverkefni Íslands árið 2004, en þá fór Ísland með formannsku í Norrænu ráðherranefndinni. Þátttakendur í verkefninu komu frá öllum Norðurlöndunum, nema Finnlandi, en fulltrúar Íslands voru frá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands.

 

Eins og vænta mátti kom berlega í ljós að breytingar sem verða í kjölfar nýskógræktar eru miklar og oft mismunandi eftir aðstæðum. Því getur verið varhugavert að alhæfa um áhrif nýskógræktar. Þó eru ákveðnar meginniðurstöður sem eru í höfuðdráttum hafnar yfir slíkan vafa:

 

  • Skipulagning og umhirða skóga hafa mikil áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika, landslag, útivistarmöguleika og byggðaþróun.
  • Tilgangur nýskógræktarinnar verður því að liggja fyrir strax á undirbúningsstigi. Einnig er mikilvægt að gera sér strax grein fyrir að ákveðnir árekstrar geta verið milli skóga sem hugsaðir eru til viðarframleiðslu og þeirra sem aðallega eru hugsaðir til annarra nota, svo sem útivist, endurheimt vistkerfa eða kolefnisbindingar.
  • Mikilvægt er að taka tillit til landslags, jarðmyndana og menningararfs sem einkenna hvern stað við skipulagningu nýskógræktar. Þar þarf að vernda svæði með sérstæðum náttúrumyndum, tegundum eða forniminjum sem eru mikilvæg hvort heldur á lands- eða heimsvísu.
  • Þar sem ræktaður er skógur á opnu landi, t.d. mólendi, verður mikil breyting á lífríki. Tegundasamsetning breytist og innan vissra hópa lífvera, t.d. plantna verður rýrnun á tegundafjölda, á meðan aukning verður í öðrum hópum, t.d. sveppum og mordýrum í jarðvegi. Í íslensku rannsóknunum varð engin afgerandi breyting á tegundafjölda með skógrækt, þegar allir lífveruhópar voru skoðaðir en tegundasamsetning breyttist mikið í öllum hópum.
  • Reynslan hér á landi og annarsstaðar hefur sýnt að nýskógræktarverkefni hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun á meðan að verið er að koma skóginum á legg. Það þarf hinsvegar að tryggja að skógurinn nýtist einnig samfélaginu til framtíðar. Á svæðum þar sem skógarnýting er ekki hluti af menningu samfélagsins er nauðsynlegt að kenna íbúum að nýta þessa nýju auðlind. Nágrannar okkar hafa ítrekað bent á verkefnið „Grænni skógar”, sem eitthvað sem þeir óskuðu að þeir hefðu gert hjá sér á sínum tíma.
  • Góð umhirða skóga er mikilvæg til að viðhalda upphafsmarkmiðum nýskógræktar eða til að laga þá að nýjum markmiðum. Þannig getur grisjun gert skóginn aðgengilegri og meira aðlaðandi, bæði fyrir menn og aðrar lífverur. Flestir skógareigendur fá meginhluta tekna af viðarframleiðslu og það hefur verið aðal hvatinn til góðrar skógarumhirðu. Aðrir þættir, t.d. kolefnisbinding og útivist, geta einnig gefið skógareigendum arð og til að hámarka hann þarf að miða skógarumhirðu við þær þarfir. Þá má ekki gleyma því að vaxandi hluti skógareigenda kemur úr þéttbýli. Þessi hópur hefur gjarnan aðrar hugmyndir um nytjar af skóginum og landinu en gamalgrónir bændur.

 

Það leikur enginn vafi á því að nýskógrækt hefur bæði jákvæð og neikvæð áhrif á vistkerfi, landslag og byggðaþróun. Engin landnoktun, hvort sem það er skógrækt eða önnur notkun, getur mætt öllum umhverfismarkmiðum á sama tíma. Neikvæð áhrif eru óhjákvæmileg, jafnvel þótt vandað sé til verks. Ætíð verður að meta hvort vegi meira, varðveisla þeirra vistkerfa og landslags sem nú er eða þörfin fyrir umhverfi sem skapar vinnu og gagnast þannig þjóðfélaginu.

 

Þá er einnig mikilvægt að hafa í huga að menn hafa almennt hneigð til þess að vera á móti miklum og snöggum breytingum. Því mun nýskógrækt, jafnvel á svæðum þar sem engin tré eru fyrir, alltaf verða neikvæð og til skaða í huga sumra. Besta leiðin til að tryggja að hagsmunir og sjónarmið sem flestra nái fram að ganga er að markmið skógræktar séu ljós, samráð við hagsmunaðila virkt og styrkja skipulagningu nýskógræktar og taka þar strax tillit til fjölþættra áhrifa hennar í vinnu framkvæmdaaðila.

 
banner3